Skip to main content

Pistlar

Kjalarnes

Örnefnið Kjalarnes er gagnsætt að merkingu, samsett úr orðliðunum kjölur og nes. Eftirfarandi sögn hefur gengið í munnmælum á Kjalarnesi: „Fundu forfeður vorir kjöl af stóru skipi út fyrir Kjalarnestöngum, s.s. um Músarnes, og var þá landið hér undir Esju nefnt Kjalarnes“ (örnefnaskrá Brautarholts í örnefnasafni). Fyrir þessu eru þó ekki aðrar heimildir. Einnig hafa menn gert því skóna að eitthvað í umhverfinu skýri nafnið, sbr. þá hugmynd að nafnið sé dregið af lögun Kerhólakambs uppi á Esju sem sagður er mjög líkur bátskili séð sunnan yfir sundin (Ingvar Birgir Friðleifsson 1985:156–157).

Nafnfræðisviði Árnastofnunar barst nýlega ábending frá Hirti M. Jónssyni, sem starfaði áður við Héraðsskjalasafn Kópavogs, um mögulega skýringu á nafninu. Í þessum pistli verður tilgátu Hjartar komið á framfæri og að auki nokkrum orðum vikið að Kjalar-örnefnum almennt.

Grunnmerking no. kjölur er ‘kjölur á skipi’ og aðrar merkingar, sem gefnar eru í orðabókum, s.s. ‘kjölur á bók’, ‘mænir (á heyi, bárujárnsþaki, kjölhúfu)’ og ‘fjallshryggur’, eru vísast leiddar af henni.

Svavar Sigmundsson (2009) fjallaði um Kjalarnes og skyld nöfn. Hann skoðaði 17 önnur dæmi um Kjalar-nöfn. Oft benda lýsingar á staðháttum til þess að líkindi við kjöl séu ástæða nafnsins, t.a.m. þessi tvö dæmi af Austfjörðum: sagt er að Kjölhnjúkur í Viðfirði líkist kili og sömuleiðis Kjölfjall í Álftafirði. Hinum megin á landinu, í Múlasveit í Barðastrandarsýslu, er við bæinn Skálmardal kjöllaga ás nefndur Kjölholt (Svavar Sigmundsson 2009:296–297).

Brautarholtsborg séð frá Lágafelli
Ljósm.: Hjörtur M. Jónsson

Tilgáta Hjartar M. Jónssonar felur í sér að Kjalarnes sé nafngift af svipuðu tagi. Hann bendir á að landslagið utarlega á nesinu einkennist af mörgum klettahólum og að einn þeirra, svonefnd Brautarholtsborg, sé, ef horft er að sunnan, „allt frá Seltjarnarnesi, austur um Reykjavík og upp í Mosfellsbæ [...], að sjá sem bátur á hvolfi“, sbr. myndina hér til hliðar sem Hjörtur tók frá Lágafelli.

Þar sem útsýni er til Kjalarness sunnan yfir sundin er Brautarholtsborg áberandi kennileiti og sannarlega löguð eins og skipskjölur. Nærtækt er að nesið hafi verið kennt við fyrirbæri á sjálfu nesinu. Fyrrnefnd tilgáta um að nesið dragi nafn af kennileiti uppi á Esju er langsóttari og gengur tæplega upp, líkt og Svavar Sigmundsson ýjar að (2009:299), nema Kerhólakambur hafi í öndverðu heitið Kjölur. Verður þá að gera ráð fyrir að þetta nafn hafi týnst og Kerhólakambur komið í staðinn síðar.

Myndlíkingar á borð við þá sem ætla má að liggi að baki nafninu Kjalarnes eru víða í örnefnum, svo að segja alltumlykjandi. Hvað eina í hversdagslífi fólks getur gefið tilefni til slíkra myndlíkinga og er ekki að undra að skip séu þar á meðal; auk Kjalar-örnefna eru Skipa-örnefni mjög algeng, t.a.m. eru til mörg Skipholt og -hólar.

Þegar tiltekin myndlíking verður algeng getur það gerst að líkingin sjálf tekur að færast í bakgrunninn ef svo má segja (og hverfur kannski á endanum). Við það getur orðið sem um ræðir fengið nýja yfirfærða merkingu. Dæmi um þetta er að no. kjölur hefur fengið merkinguna ‘fjallshryggur’. Í áðurnefndri athugun Svavars Sigmundssonar kemur fram að ósamsetta nafnið Kjölur á oft við um fjallshryggi (2009:298) og virðist sem fjallsásar með þessu nafni líkist ekki endilega skipi á hvolfi meira en svo að um er að ræða þann hluta fjallsins þar sem hallar í báðar áttir.

Þekktasti Kjölur Íslands er reyndar alls enginn fjallshryggur. Í ritinu Hálendið í náttúru Íslands segir Guðmundur Páll Ólafsson m.a. um örnefnið (2000:300):

Kjölur táknar sennilega „brún“ eða „land vatnaskilanna“ og nokkrir kilir eru örnefni á Íslandi. Málvenja er að líta á þennan „Kjöl“ sem hásléttuna á milli Langjökuls og Hofsjökuls. Hann er engu að síður land greinilegra vatnaskila þar sem vötn falla annars vegar suður en önnur í norður.

Í hugmynd Guðmundar Páls um ‘land vatnaskilanna’ má greina tengingu við það sem áður sagði um að kjölur vísi á fjallasvæði þar sem landi hallar í báðar áttir. Ekki veit ég hins vegar til þess að annars staðar á landinu sé Kjölur nafn á hásléttu.

Í þessu sambandi er áhugavert að skoða notkun samnafnsins kjölur. Ég tek hér nokkur dæmi úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Í Vestfirzkum sögnum er frásögn af því er ungur maður villist á göngu frá Tálknafirði yfir í Arnarfjörð. Hann fer upp Hólsdal og ætlar beint yfir í Hvestudal en fer ranga leið og lendir auk þess í bleytukafaldsbyl:

Heldur hann þó áfram ferðinni í eins beinni stefnu og hann getur. Þegar hann hafði gengið þannig alllengi telur hann víst, að hann sé kominn yfir kjölinn, þó að hann hafi ekki orðið þess var, og ætti nú að fara að sjá ofan í Hvestudalinn. (1. bindi, bls. 69)

Annað áhugavert dæmi er í kafla um fjárleitir í Snæfjallahreppi í Göngum og réttum:

Hvert leitarsvæði er leitað upp á kjöl, sem kallað er, eða svo hátt að halla fer norður af til Leirufjarðar og Jökulfjarða, eða þá að Drangjökull tekur við. (4. bindi, bls. 109)

Þannig hefur no. kjölur getað vísað til staðar á fjalli þar sem landi fer að halla niður aftur og vötn taka að renna í aðra átt, án þess að um greinilegan fjallshrygg sé að ræða. Dæmi þessi eru bæði af Vestfjörðum og raunar virðist örnefnið Kjölur einnig áberandi algengt í þeim landshluta. Oft er um að ræða fjallshryggi sem aðskilja byggðir, t.a.m. er Kjölur bæði á milli Breiðavíkur og Kollsvíkur og á milli Breiðavíkur og Keflavíkur. Nafnið getur líka átt við heilan fjallgarð, sbr. Kjöl sem skilur Hornstrandir frá Hesteyrarfirði. Einnig var talað um fjallgarðinn á milli Barðastrandar og byggðanna í fjörðunum fyrir norðan sem „kjölinn“ eins og næstu dæmi úr Ritmálssafninu sýna. Í tímaritinu Arnfirðingi, sem kom út á árunum eftir þar síðustu aldamót, var sagt frá ferð úr Fossfirði suður í Haga á Barðaströnd:

Þegar upp kemur á kjölinn greinast vegir. Má fara vestri leið ofan að Túngumúla og er kallað að fara Leikvöll en austar er farinn Mórudalur ofan að Krossi. (1. árg., 21. tbl., bls. 82)

Leiðirnar á korti Herforingjaráðsins
Kort Herforingjaráðsins

Leiðirnar eru merktar inn á kort Herforingjaráðsins frá 1915 (sjá kortablað 13 NV. Barðaströnd – Hálfdán). Orðið kjölur er einnig notað í umfjöllun um sama svæði í Árbók Ferðafélags Íslands fyrir árið 1959. Þar er lýsing á leið frá áðurnefndum Haga um Miðvörðuheiði til Tálknafjarðar:

Lá leiðin frá Haga yfir Hagadal og vestanverða Hagavatnadali norðvestur um kjölinn og niður hjá Sjónarhóli, norðan Botnsgljúfra í Tálknafirði. (Jóhann Skaptason 1959:102)

Þessi leið er einnig merkt á fyrrgreint kort. Í sama texta er Arnarbýlisdal lýst þannig að hann beygi langt í vestur „norður undir kjölunum“ (sama stað). Lýsingarnar hér bera með sér að kjölur hafi verið orð yfir fjallgarðinn sem aðskilur byggðirnar (sbr. legu hreppamarkanna á kortinu). Athyglisvert er að í báðum þessum heimildum er farið með orðið eins og samnafn og ekki hef ég fundið dæmi í örnefnaskrám um að þessi fjallgarður sé nefndur Kjölur.

Kjalar-örnefni eru víðar á Norðurlöndum, s.s. í Noregi. Í Norsk stadnamnleksikon (Sandnes og Stemshaug 1980:184) segir að í norskum örnefnum merki grunnorðið kjøl annars vegar ‘langvore høgdedrag; rand, kant (brukt om fjellbruner)’ og hins vegar „uproduktiv skogsmark mellom bygdelag, særleg (høgtliggjande) myrstrekningar“. Höfundar telja sennilegt að síðari merkingin hafi þróast úr þeirri fyrri sem aftur eigi rætur að rekja til líkingar við skipskjöl.

Í norskum örnefnum getur þannig kjøl vísað til hálendis á milli byggða alveg eins og hinn frægi Kjölur á mörkum Norður- og Suðurlands og raunar aðrir íslenskir Kilir, sbr. ofangreind dæmi. Kjölur (no. Kjølen, sæ. Kölen) er einnig gamalt nafn á fjallgarðinum sem myndar náttúruleg landamæri á milli Noregs og Svíþjóðar og er hann víða nefndur í íslenskum fornritum.

Ef til vill er rétt að skipta Kjalar-örnefnum í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða nafngiftir sem fela í sér lifandi myndlíkingu, sbr. t.a.m. nafnið Kjalarnes, ef tilgáta Hjartar M. Jónssonar er rétt, og fleiri slík nöfn, s.s. Kjölholt, sem gjarnan eru samsett. Af nokkuð öðrum toga eru dæmi – eins og hinn frægi Kjölur – sem vísa til hálendis á milli byggða, oftast fjallshryggja eða fjallgarða. Svo er að sjá sem orðið kjölur hafi snemma, líklega áður en Ísland byggðist, farið að merkja eitthvað á borð við ‘fjallshryggur’ eða ‘land vatnaskila’ og að sú merking liggi til grundvallar í síðari flokknum.

Brautarholtsborg á korti
Birt þann 29. ágúst 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Guðmundur Páll Ólafsson. 2000. Hálendið í náttúru Íslands. Mál og menning, Reykjavík.

Göngur og réttir, 4. bindi. Bragi Sigurjónsson bjó til prentunar. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri, 1952.

Ingvar Birgir Friðleifsson. 1985. Jarðsaga Esju og nágrennis. Þættir um nágrenni Reykjavíkur. Ferðafélag Íslands Árbók 1985, bls. 141–172. Ferðafélag Íslands.

Jóhann Skaptason. 1959. Barðastrandarsýsla. Ferðafélag Íslands Árbók 1959. Ferðafélag Íslands.

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://ritmalssafn.arnastofnun.is/ (27. júní 2022).

Svavar Sigmundsson. 2009. Kjalarnes och andra isländska kjölur-namn. Nefningar. Greinar eftir Svavar Sigmundsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 7. september 2009, bls. 295–301. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.

Vestfirzkar sagnir. 1. bindi. Safnað hefir Helgi Guðmundsson. Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, Reykjavík, 1933–1937.

Örnefnaskrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.