Skip to main content

Pistlar

Jöfnubáðu-örnefni og vangaveltur um eyktamörk

Örnefni með forliðinn Jöfnubáðu- finnast á nokkrum stöðum hér á landi. Ýmiss konar fyrirbæri bera slík nöfn: holt og hólar, klettar og gil svo dæmi séu nefnd. Í Reykholtsdal eru tvö nöfn af þessu tagi: Jöfnubáðugil á Vilmundarstöðum og Jöfnubáðuklettur í landi Búrfells. Á Spágilsstöðum í Dalasýslu er Jöfnubáðuhóll. Af sama meiði er líklega Jöfnubeggjaás á Efri-Hólum í Presthólahreppi (N-Þing.) og er það eina dæmið sem hefur fundist um slíkt nafn í þeim landshluta. Jöfnumbáðusker er skammt utan við Svínanes í Austur-Barðastrandarsýslu. Engar skýringar eru gefnar á þessum nöfnum sem hér hafa verið talin upp.

Um Jöfnubáðuvörðu í landi Fremri-Bakka í Nauteyrarhreppi (N-Ís.) segir hins vegar: „…á holti þessu var hlaðin varða, sem hét Jöfnubáðuvarða og nafnið af því dregið, að á vörðunni var sól mitt á milli dagmála og hádegis, séð frá bænum að Fremri Bakka.“ (Vestfirzkar sagnir III, 164). Varðan var því eyktamark, þ.e. fast kennileiti í landslagi sem sólargangur var miðaður við til að vita hvað tímanum leið.

Sé orðasambandinu jöfnu báðu flett upp í Íslenskri orðabók sést að það merkir einmitt ´mitt á milli´ og víða má finna dæmi um notkun þess í ritmáli. Það virðist nær alltaf gefa til kynna tímasetningu á milli tveggja nafngreindra eykta þótt ekki séu þær alltaf hinar sömu. Þannig er t.d. andlát Jónasar Hallgrímssonar sagt hafa borið að „jöfnu báðu miðsmorguns og dagmála“ en mörg dæmi eru um að jöfnu báðu sé notað til að gefa til kynna tíma milli annarra eykta, t.d. milli óttu og miðs morguns eða milli nóns og miðaftans.

Jöfnubáðunöfn í aðgengilegum gagnagrunnum: Annars vegar í örnefnagrunni Landmælinga Íslands (hér sýnd á vefsjá ALTA með rauðum lit) og hins vegar úr örnefnalýsingum aðgengilegum á Sarpi (www.sarpur.is, hér sýnd með svörtum lit).

Ekki er ljóst hvort slík fjölbreytni í tímasetningum á einnig við um örnefni en langflest jöfnubáðunöfn virðast vera í Vestur-Húnavatnssýslu. Athyglisvert er að í fjórum tilvikum eru gefnar upp tvær myndir nafnanna í örnefnalýsingum: Hóll í landi Hrútatungu er ýmist nefndur Jöfnubáðuhóll eða Jafnabeðahóll; holt í landi Bjargarstaða er gefið upp sem bæði Jöfnubáðuholt og Jöfnubarðsholt og í þriðja lagi er Jöfnuhæðaholt í landi Lækjarkots en Jöfnubáðaholt haft innan sviga.  Fjórða dæmið er í örnefnalýsingu Tannstaðabakka þar sem er ritað bæði Jöfnubáðaholt og Jamtumbáðaholt. Auk þess er eitt dæmi um nafnmyndina Jöfnubúðarhóll, í landi Núpsdalstungu, og sennilegt að það eigi sama uppruna. Líklega eru þessar tvímyndir til komnar vegna þess að þegar örnefni voru skráð og hugsanlega löngu fyrr var fólk hætt að skilja merkingu forliðarins Jöfnubáðu- og reynt var að skýra nafnið með vísan í mannvirki á borð við beð eða búð eða náttúrufyrirbæri eins og barð eða hæð.  Þetta bendir til þess að jöfnubáðu sem viðmið hafi verið sjaldgæfara en önnur eyktamörk og/eða hafi fallið fyrr úr notkun. Óljóst er af hverju dreifing jöfnubáðu- stafar í örnefnum, hvort Húnvetningar í vestursýslunni hafi almennt verið stundvísari en aðrir eða hvort hugtakið hafi fest sig í sessi sem tákn um ákveðinn tíma dags og hafi jafnvel komið í staðinn fyrir miðmunda, en það var algengt eyktamark víða um land, á milli hádegis og nóns. Fljótt á litið virðist síðarnefnda skýringin líklegri, enda benda leitarbær gögn, svo langt sem þau ná, til að miðmundanöfn séu tiltölulega færri í Húnavatnssýslum og raunar allt austur í Skagafjörð en víða annars staðar. Til að skera úr um þetta væri bæði nauðsynlegt að skoða jöfnubáðu-örnefni í öllum tiltækum örnefnalýsingum og ekki síður að heimsækja staði á vettvangi og meta afstöðu nafnanna til bæjarstæða og annarra þekktra eyktamarka.

Önnur af tveimur Náttmálavörðum ofan við Narfastaði í Reykjadal

Nánar um eyktamörk

Eins og hér hefur komið fram eru eyktamörk föst kennileiti í landslagi sem gangur sólar var miðaður við til að vita hvað tímanum leið áður en klukkur urðu almenningseign. Sólarhringnum var skipt í átta jafna hluta (eða eyktir) sem nefndust ótta (kl. 3), miður morgunn (kl. 6), dagmál (kl. 9), hádegi (kl. 12), nón (kl. 15), miðaftann (kl. 18), náttmál (kl. 21) og miðnætti. Eyktamörk eru mjög algeng um allt land og bera mörg þeirra nöfn sem samsvara eyktunum. Sérhver bær hafði þá sín eigin eyktamörk og gildir almennt að þau hafa verið sýnileg heiman frá bæ. Kennileitin eru oft náttúruleg en sums staðar hafa þó verið hlaðnar vörður til nákvæmrar staðar- og tímaákvörðunar. Lausleg könnun bendir til að flest nöfn af þessu tagi séu kennd við hádegi  og nón og endurspeglar það líklega annars vegar mikilvægi þess að vita hvað tímanum leið á mesta annatíma dagsins en hins vegar að yfir vetrarmánuðina, þegar sólargangur var stystur, hafa önnur eyktamörk komið að litlu gagni.

Örnefni í leitarbærum örnefnalýsingum sem vísa til eyktamarka.

Gömlu eyktamörkin eru gott dæmi um hvernig fólk hefur gefið landslagi og himintunglum gaum á annan hátt en í dag, hvernig landslagið og náttúran voru samofin hversdeginum. Þau minna sömuleiðis á hvernig tíminn getur birst okkur í ólíkum myndum og hvernig afstaða okkar til hans hefur bókstaflega breyst. Sá sem las tímann út frá eyktamörkum var sjálfur miðlægur í landslaginu og sjóndeildarhringurinn rammaði inn bæði veröldina og tímann. Síðan snýst þetta við, tímamælirinn sjálfur verður miðdepillinn og viðfangið í þessu sambandi, fyrst á bæjum en á 19.–20. öld oft sem áberandi kennileiti miðsvæðis í þéttbýli. Má hér nefna fyrstu almenningsklukku á Íslandi sem sett var í turn Dómkirkjunnar 1848 og þóttu stafirnir á henni, sem voru blá- og hvítmálaðir, sjást vel að. Önnur fræg klukka var sett löngu síðar á Útvegsbankahúsið við Lækjartorg, sást víða að og hringsnerist að auki – eins konar eyktamark á röngunni.

Birna Lárusdóttir,
janúar 2019

Áður hefur Hallgrímur J. Ámundason ritað um örnefni af þessu tagi: Hallgrímur J. Ámundason. 2010.  „Kaffiskattur á Jamtumbáðaholti.“ Aravísur sungnar Ara Páli Kristinssyni fimmtugum 28. september 2010, bls. 30-32.

Birt þann 1. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árni Björnsson.1990. „Tímatal.“Íslensk þjóðmenning VII, bls. 51–101. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

„Jónas Hallgrímsson.“1847. Fjölnir 9. árg. bls. 1–6.

www.timarit.is

Vestfirzkar sagnir, III. bindi.  1946. Safnað hefir Arngr. Fr. Bjarnason. Bókaforlagið Fagurskinna, Reykjavík.

Örnefnaskrár í safni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Örnefnagrunnur Landmælinga Íslands á http://ornefnasja.lmi.is

Örnefnasjá Alta [byggð á örnefnagrunni Landmælinga]: http://geo.alta.is/ornefnasja/