Skip to main content

Pistlar

Ísmús: brú milli prentaðra þjóðsagna og hljóðrita

Merki Ísmús

Í mars 2022 var opnuð ný útgáfa af vefnum Ísmús. Á vefnum má leita að hljóðritum úr þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og finna ýmsar upplýsingar um sögu tónlistar á Íslandi. Vefurinn hefur frá upphafi verið unninn í samstarfi við Tónlistarsafn Íslands sem nú heyrir undir Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Ísmús er viðamikið gagnasafn og inniheldur upplýsingar sem spanna vítt svið. Í lýsigögnum hljóðritanna má finna upplýsingar um viðmælendur og spyrla, fæðingardaga þeirra og búsetu en einnig hvar viðtölin voru tekin og tengingar við kvæði og bragarhætti ef um slíkt efni er að ræða. Tónlistarsafnið hefur skráð mikinn fjölda tónlistarfólks og hljómsveita auk upplýsinga um kirkjuorgel og tónleikaskrár frá síðari hluta 19. aldar.

Samruni tveggja gagnagrunna

Stærsta nýjungin á vefnum er þó samruni tveggja gagnagrunna um þjóðfræði en það eru Sagnagrunnur, gagnagrunnur yfir íslenskar sagnir sem birst hafa á prenti og Ævintýragrunnur sem er sambærilegur grunnur yfir íslensk ævintýri. Sagnagrunnur inniheldur upplýsingar um rúmlega 10.000 sagnir og er unninn af Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði. Ævintýragrunnurinn inniheldur tæplega 600 ævintýri og kemur frá Aðalheiði Guðmundsdóttur prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. 

Skjáskot af titilsíðu Sagnagrunns

Með samruna þessara gagnagrunna við grunn Ísmús skapast yfirgripsmikill gagnagrunnur yfir þjóðfræðiefni frá fyrri hluta 19. aldar fram á daginn í dag. Efni Sagnagrunns er skráð upp úr prentuðum þjóðsagnasöfnum en þar er stærst og jafnframt elst Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri safnað af Jóni Árnasyni með um 2500 sögnum. Safnið kom fyrst út í tveimur bindum árin 1862 og 1864 en efninu var safnað um miðja 19. öldina. Alls eru rúmlega 20 þjóðsagnasöfn skráð í grunninn og eru þau frá síðari hluta 19. aldar fram á miðja 20. öld. Efni þjóðfræðisafns Árnastofnunar er að stærstum hluta safnað af Hallfreði Erni Eiríkssyni, Helgu Jóhannsdóttur og Jóni M. Samsonarsyni á árunum 1960 til 1980 en þó er þar að finna eldra efni og er það elsta frá fyrsta áratug síðustu aldar. Með leitarvélinni er þannig hægt að leita eftir ákveðnu efni út frá leitartexta eða efnisorðum og fá niðurstöður bæði úr hljóðritasafni, sagnagrunni og ævintýragrunni en slík nálgun gefur rannsakendum stóraukna möguleika, sérstaklega ef hið langa tímabil sem gögnin spanna er haft í huga.

Útdrættir auðvelda leit

Dæmi um nýja nálgun á þessi þjóðfræðisöfn er tenging á milli hljóðrita úr þjóðfræðisafni og sögnum úr Sagnagrunni í gegnum útdrætti. Hverri sögn og hljóðriti fylgir útdráttur sem lýsir efninu sem þar er að finna. Útdrættirnir eru misjafnlega langir, allt frá tveimur setningum  til nánast heildartexta sagnarinnar ef um stutta sögn er að ræða. Þessa tenginu má sjá ef ákveðin sögn er skoðuð eða ákveðið hljóðrit. Leitarvélin sem liggur á bak við vefinn leitar að öðru efni þar sem útdrátturinn hefur svipaða tíðni orða eftir ákveðinni forskrift. Þar er til dæmis sagt til um að tveggja stafa orðum sé sleppt til að losna við algengar samtengingar og atviksorð á borð við og, á, í og er. Sem dæmi má nefna þá er hægt að leita eftir orðunum „galdra ögmundur“ í leitinni á vefnum og velja fyrsta atriðið sem kemur upp. Þar er um að ræða sögnina „Galdra-Ögmundur“ úr þjóðsagnasafninu Huld sem kom fyrst út 1890–1898. Útdrátturinn byrjar á þessa leið: 

Galdra-Ögmundur bjó á Loptstöðum og Galdra-Geirmundur á Ragnheiðarstöðum. Sendu þeir hvorum öðrum sendingar og mættust þær ætíð á miðri leið, á sandinum, og þykir reimt þar síðan. 

Endar svo útdrátturinn svona: 

Fundust síðan tveir lærleggir og höfuðkúpa í smiðjunni nokkru eftir lát hans, og komu þau alltaf þangað aftur sama hversu oft þau voru jörðuð. 

Hér skilar kerfið okkur lista yfir svokallað svipað efni sem byggir á líkindum út frá orðtíðni. Í þessum lista eru fyrst fjögur hljóðrit og síðan fjórar sagnir. Hljóðritin fjalla öll annaðhvort um Galdra-Ögmund eða Loftstaði og þar er minnst á bein Ögmundar. Sagnirnar fjalla hins vegar allar um aðra galdramenn en Ögmund þrátt fyrir að eina aðra sögn um hann megi finna í safninu. Þar er hins vegar ekki minnst á Loftstaði og heldur ekki bein hans. Niðurstaðan er þó sú að svipað efni í þessu dæmi fjallar beint um þennan ákveðna galdramann eða aðra slíka. 

Ef sögnin „Skíðastaðir“ úr safni Jóns Árnasonar Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri er skoðuð kemur sambærilegur listi yfir svipað efni í ljós. Útdráttur sagnarinnar er stuttur og er á þessa leið: 

Skriða féll á bæ þar sem bóndinn var slæmur maður. Létust allir nema ein stúlka en henni bjargaði hrafn sem hún hafði ætíð gefið að borða. 

Þarna kemur kerfið að góðum notum og gefur notandanum lista með fimm sögnum sem fjalla allar um skriðuföll og þrjár sem fjalla einnig um hrafn sem bjargar manneskju frá hamförunum. Þar má einnig finna eitt hljóðrit um þetta efni. 

 

Birt þann 15. ágúst 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Huld. 2. útg. Útg.Hannes Þorsteinsson, Jón Þorkelsson, Ólafur Davíðsson, Pálmi Pálsson og Valdimar Ásmundsson. Reykjavík: Sæbjörn Jónsson, 1935–1936 , I, 119–120. (1. útg. 1890–1898). 

Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. 2 bindi. Leipzig: J.C. Hinrichs, 1862–1864), II, 42–44; Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Útg. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954–1961, II, 45–47.

Handrit: Lbs 531 4to og Lbs 414 8vo.