Skip to main content

Pistlar

Íslensk fjallanöfn

Í tilefni af ári fjalla 2002

Það eru líklega fá lönd sem geta státað af jafnfjölbreytilegum fjallanöfnum og Ísland. Landið hefur verið kallað "land elds og ísa" og tákn landsins er Fjallkonan, verndarvættur landsins í konulíki. Um langan aldur hefur Ísland verið virkt eldfjallaland, og ber landið þess augljós merki. Hraun þekja verulegan hluta þess, og mikill hluti fjalla er myndaður við gos og af gosefnum.

Hér ætla ég að gera nokkra grein fyrir nöfnum á íslenskum fjöllum og gefa yfirlit um flokka þeirra, myndun og einkenni, og merkingu, þar sem því verður við komið. Ein grein hefur verið skrifuð sérstaklega um þetta efni (Finnur Jónsson 1932:27-37.) Einnig hefur verið skrifað um íslensk fjallanöfn í yfirlitsritum (Ólafur Lárusson 1939:70-71 og Jakob Benediktsson 1967:245-247). Meginhluti íslenskra fjalla ber nöfn með orðin fell eða fjall að síðari lið. Merkingarmunur er hugsanlegur milli þessara orða en ekki er hann skýr. Líklegt er, að fell sé fremur notað um fjall með reglulega lagaðar hlíðar, e.t.v. sérstaklega skriðurunnar. Verður nú gerð nokkur grein fyrir helstu flokkum þessara nafna, og verður þá miðað við merkingu og form fyrri liðar.

Fyrri liður er:

  • Lýsingarorð: Bláfell, Hvassafell, Lágafell (gæti þó verið fell með lágum), Rauðafell.
  • Nafnorð, þ.e. nafn á e-u sem fjallinu er e.t.v. líkt við: Búrfell, Dyngjufjöll, Hoffell, Skálafell (gæti líka verið fell með skálum), Vífilfell (vífill "þvottakeppur").
  • Nafnorð, sem á við hluta fjallsins eða einkenni í því: Dyrfjöll, Fanntófell, Hverfjall, Merkigilsfjall, Skálarfjall (með skál í eða bærinn Skál stendur undir því), Slenjufjall (slenja "stórfelld rigning"), Snjófell, Stálfjall, Tindfjöll, Þrístiklufjall, Öldufell.
  • Nafnorð, sem einnig gæti verið mannsnafn: Arnarfell, Ármannsfell, Brjámsfjall, Eilífsfell, Gunnólfsfell, Hermundarfell, Illugafjall, Ingólfsfjall, Þorbjarnarfell, Þorgeirsfell, Þórunnarfjöll.
  • Dýraheiti: Arnarfell, Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell, Sauðafell, Sænautafell, Öxnafell.
  • Gróður: Grasafjall, Hörfell, Lauffell.
  • Eyktamark: Dagmálafjall, Hádegisfjall, Miðaftansfjall.
  • Orð sem táknar stöðu í umhverfinu: Meðalfell, Miðfell.
  • Töluorð: Tvífell, Þríhyrningur.
  • Fólk af ýmsu tagi: Ekkjufell, Írafell, Kerlingarfjöll, Pílagrímsfjall, Spákonufell.
  • Orð sem hægt er að nota eitt sér um fjallið: Belgjarfjall = Vindbelgur, Þorbjarnarfell = Þorbjörn, Heklufell = Hekla, Henglafjöll = Hengill.
  • Auk þessa eru ýmis fjallanöfn, sem hafa að síðara lið orð eins og alda, borg, breið(ur), bunga, dyngja, ey, heiði, kirkja, skriða.
  • Um einstaka hluta fjalls er notað: hn(j)úkur, nípa, núpur, tindur. Um útstandandi eða framskagandi hluta fjalls er notað: horn, hyrna, höfði, múli og öxl, og um hlíðar: brekka, hlíð, kinn.
  • Um klettamyndanir af ýmsu tagi: drangur, hamar, klettur, klöpp og stapi.Fjallanöfnum mætti annars skipta í eftirfarandi fjóra flokka:

Fjallanöfnum mætti annars skipta í eftirfarandi fjóra flokka:

  1. Nöfn með viðskeytum:
    • -all, -ill, -ull koma fyrir í nokkrum fjallanöfnum, t.d. Bagall "biskupsstafur"; -bítill, Smjörbítill, Grendill, Grindill (nú Grillir), Hengill (að fornu Henglafjöll), Hnefill (Eiríksstaðahneflar), Stóri- og Litli-Meitill, Rípill, Þyrill; Söðull.
    • -ingur kemur fyrir, t.d. í Glettingur, Háskerðingur, Klofningur, Kýlingar, Skælingur, Upptyppingar, Þríhyrningur.
    • -ólfur, t.d. Röndólfur.
  2. Nöfn sem geta verið mannanöfn:
    • Barði, Bera, Bjólfur, Björn, Eilífur, Elliði, Galti, Geirlaug, Gunnhildur, Hálfdan, Hrói, Jörundur, Katla, Loðmundur, Njáll, Skeggi, Skúta, Þorbjörn, Þorfinnur, Ögmundur, Ölver.
  3. Dýranöfn:
    • Björn(inn), Blængur, Bokki, Ernir, Göltur, Háfur, Hestur, Krákur, Molduxi, Skjaldbaka, Þerna.
  4. Ýmis ósamsett nöfn:
    • Askja, Baula, Bjallar, Bjúgur, Bringa, Búr, Darri, Dragi, Dyngja, Esja, Faxi, Gefla, Gjafi, Gláma, Glissa, Grýta, Hekla, Hnúfa, Hnúta, Horn, Hvesta, Höttur, Keilir, Kista, Kjölur, Klakkur, Krafla, Laki, Lútur, Námur, Nausti, Ok, Rimar, Runa, Rytur, Sáta, Skandi, Snókur, Stigi, Stóll, Strákar, Strútur, Stöð, Súla, Tálkni, Tytja, Örkin, Öxi.

Viðskeyttu fjallanöfnin eiga sér hliðstæður í norskum örnefnum, t.d. Himingen (sbr. him í nýnorsku "þunnt snjólag"). En viðskeytið -ólfur á sér ekki hliðstæðu í norskum fjallanöfnum svo vitað sé. Dýranöfn eru hins vegar algeng, s.s. Ruten, Tron, Galten, Geita, Havren, Oksen og Hesten.

Þar eru líka nöfn eins og Stol (sbr. Stóll), Hangur (sbr. Hengill), Kalle og Kjerringa (sbr. Karl og Kerling), Snöhetta (sbr. Höttur), Gloföykie (sbr. Glóðafeykir). Sú tegund íslenskra fjallanafna, sem ekki virðist eiga sér beina hliðstæðu í norskum örnefnum, er flokkurinn sem hefur að fyrri lið mannanöfn eða nöfn, sem geta verið það. Þau eru a.m.k. 28 talsins, sbr. lið 2. Finnur Jónsson sagði um þessi nöfn: "Så er der endelig nogle höjst mærkelige navne, nemlig mandsnavne, men de er vist alle at forstå som forkortelser af sammensætninger med fjall. De er: Bjólfr, Eilífr, Jörundr, Eggert, Hálfdan, Loðmundr." (37).

Spurningin er hversu gömul þessi nöfn eru. Engin þessara 28 nafna koma fyrir í elstu heimildum, sem mér eru kunnar (Landnámu, Íslendingasögum, Sturlungu og annálum), og bendir það til þess, að þau hafi ekki verið algeng á fyrstu öldum byggðarinnar. Hitt er á að líta, að engin kristin nöfn koma þarna fyrir, svo að nafnmyndunin virðist hafa verið bundin við norræn nöfn, þó svo að hún hafi ekki orðið fyrr en eftir kristnitöku. Það ber þó að hafa í huga, að það að nöfn koma ekki fyrir í elstu heimildum, segir ekki, að nöfnin hafi ekki verið til á elsta tíma. Fremur fá fjallanöfn koma fyrir í elstu heimildum og sérstaklega fá ósamsett eða samsett nöfn án samheitis við orðið "fjall" að síðari lið.Um sum þeirra nafna, sem geta verið mannanöfn, er það að segja, að þau má alveg eins skýra á annan hátt. Það gildir um nöfn eins og Barði "skip", Bera "birna", Björn "bjarndýr", Elliði "skip", Galti "göltur"; "bólstur", Hrói "brotið skip", Loki "hnútur, hnökri", Skeggi, (skegg "var á skipsstefni"), Skúta "skip". Af þessum 28 nöfnum eru nú 11 skýranleg á annan veg. Bjólfur skýrist af nálægð sinni við Grendil, og eru þar vafalaust einhver tengsl við efni Bjólfskviðu. Fjöll sem hafa lýsingarorðið eilífur í nafni sínu eru sérkennileg að því leyti, að þau breytast lítið að útliti, þó til þeirra sjái frá ólíkum hliðum. Nafnið Kötlu þarf ekki að skýra út frá mannsnafninu, þar sem fjallið hefur gosketil. Fjallið Eggert mun vera nefnt eftir Eggert Ólafssyni.

Þó að þess séu dæmi, að nöfnin sem gætu verið mannanöfn séu til í samsetningum með orðunum fell eða fjall, t.d. Þorbjarnarfell, er ekki hægt að segja, að öll þessi nöfn séu þannig til komin, að þau séu styttingar, eins og Finnur Jónsson gerir ráð fyrir. Upprunalega nafnið gæti allt eins verið Þorbjörn og orðinu felli bætt við sem merkingarauka (epexegese) til nánari skýringar.

Algengt hefur verið á Norðurlöndum að gefa fjöllum nöfn eftir persónutáknunum, þar sem mönnum hefur fundist vera líking með þeim. Þetta hefur líka tíðkast hér. Nægir þar að nefna fjallanöfn, þar sem orðin karl og kerling koma fyrir, t.d. Karl úti fyrir Reykjanesi og Kerling í Eyjafirði. Nöfn með maður, strákur og sveinn vísa til hins sama. Þegar fjalli er valið nafnið Surtur, er verið að vísa til jötuns, og er þá líklegt að fjallið sé svart, af því að allir þekkja þá merkingu orðsins. Þegar það er athugað, að nöfnin Karl og Sveinn geta verið hrein mannanöfn, og að ýmis fjallanöfn geta líka verið mannanöfn, en einnig haft aðra merkingu, er það e.t.v. orðinn álitlegur hópur fjalla, sem ber mannanöfn. Þegar þetta er orðinn útbreiddur nafnsiður, og ýmis fjöll bera einnig nöfn dýra, þá verður ekki fráleitt að nota hvers konar mannanöfn um fjöll, án þess að útlit þeirra þurfi að ráða þar nokkru um. Þá verður það tilviljun hvaða nafn er gefið fjalli, eins og það getur verið tilviljun hvaða nafn maður hlýtur. Útlit ræður því ekki hvort maður heitir Njáll eða Þorfinnur. Útlit fjalls getur tæpast ráðið því, að það fái nafnið Gunnhildur, Hálfdan, Jörundur, Njáll eða Ölver. Að líkindum urðu þessi nöfn til hér sem fjallanöfn í upphafi byggðar, m.a. vegna þess að menn vildu heiðra landnámsmennina með því að kenna fjöll eða tinda við þá.

Birt þann 23. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Finnur Jónsson. 1932. Islandske fjældnavne. Namn och Bygd 20:27–37.

Helgi Þorláksson.1978. Sjö örnefni og Landnáma. Um ótengd mannanöfn sem örnefni og frásagnir af sjö landnemum. Skírnir 152:114–161.

Jakob Benediktsson. 1967. Naturnamn. Island. Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XII:245–247.

Norsk stadnamnleksikon. Redigert av Jörn Sandnes og Ola Stemshaug. Oslo 1976.

Ólafur Lárusson. 1939. Island. Stedsnavn. Nordisk kultur V:60–75.

Svavar Sigmundsson. 2002. Personnamn som ortnamn på Island. Avgränsning av namnkategorier. Rapport från NORNA:s tjugonionde symposium på Svidja 20–22 april 2001. Forskningscentralen för de inhemska språken. (Helsingfors). Skrifter 4:115–123.

Örnefnaskrár í Örnefnastofnun Íslands.