Í Ihreska handritasafninu í Uppsalaháskóla eru varðveitt handrit úr eigu sænska 18. aldar málvísindamannsins Johans Ihre (1707–1780). Ihre var prófessor við Uppsalaháskóla og sérhæfði sig m.a. í málsögu germanskra mála, einkum íslensku og gotnesku. Hann rannsakaði til dæmis Uppsala-Eddu og sýndi fram á að Snorra-Edda væri kennslubók í skáldskaparlist en ekki aðeins heimild um heiðinn sið og goðafræði (Grape I 1949, 78–79). Safnið er að stærstum hluta skjöl og ritgerðir hans sjálfs en þar er einnig ýmislegt fleira sem Ihre hefur áskotnast eða hann hefur keypt. Þar eru til dæmis handrit úr fórum fornfræðinga við Uppsalaháskóla, m.a. uppskriftir úr íslenskum handritum með hendi Íslendingsins Jóns Rúgmanns (1636–1679). Í handritaskrá safnsins er þannig greint frá handriti sem hefur yfirskriftina: „Veterum Skaldorum varia poëmata undique collecta“ (Margvísleg kvæði fornskálda sem safnað hefur verið hvaðanæva að) og inniheldur uppskriftir af norrænum fornkvæðum. Í því eru m.a. Völuspá og Hávamál, dróttkvæði og lausavísur úr ýmsum fornsögum, bæði konungasögum, Íslendingasögum, Sturlungu og fornaldarsögum. Einnig er í handritinu efni sem tengist fornbókmenntunum: kappakvæði Þórðar Magnússonar á Strjúgi og Björns Jónssonar á Skarðsá sem fjalla um kappa fornsagnanna og útdráttur úr riti danska prófessorsins Ole Worms, Runir sive Danica litteratura antiquissima, útgáfunni frá 1651 (Grape 1949 II, 75–85). Handritið hefur safnmarkið Ihre 77 og er 78 blöð eða 156 tölusettar blaðsíður (blaðsíðurnar eru merktar með nútímalegri hendi). Band er nýlegt. Öftustu arkirnar hafa orðið fyrir vatnsskemmdum en þær skerða þó ekki textann. Blöð hafa glatast aftan af handritinu en óvíst hve mörg. Textinn endar á athugasemdum á latínu við dróttkvæðin í Ólafs sögu helga og er greinilegt að þær hætta í miðju kafi. Skrifari handritsins er áðurnefndur Jón Rúgmann, fornfræðingur í Uppsölum, og mun hann hafa skrifað handritið í Uppsölum og Kaupmannahöfn á árunum 1664 og 1665.
Á blaðsíðum 97–104 í handritinu eru þrjú kvæði sem skera sig úr meginefni handritsins. Þau eru á sérstakri örk sem samanstendur af fjórum blöðum eða tveimur tvinnum en virðist vera úr sama pappír og það sem fer á undan og eftir. Fremst er erfikvæði um Gísla Hákonarson lögmann í Bræðratungu (d. 1631), þá kemur kvæði um son hans Vigfús Gíslason sýslumann á Stórólfshvoli (d. 1647) en þriðja kvæðið er Samstæður Hallgríms Péturssonar sem kallaðar hafa verið Gaman og alvara. Undir erfiljóðinu um Vigfús Gíslason stendur með hendi skrifarans: „Sra Hallgrímur Pétursson“ (hið sama stendur undir samstæðunum). Hér er um að ræða erfiljóð eftir sálmaskáldið sem hefur verið óþekkt í rúm 300 ár. Erfiljóðið tengir Hallgrím Pétursson við eina voldugustu fjölskyldu landsins á fyrri hluta 17. aldar en líkur eru til þess að Vigfús hafi verið velgjörðarmaður skáldsins.
Síðast breytt 24. október 2023