Skip to main content

Pistlar

Íðorðastarf Orðanefndar Læknafélags Íslands

Orðanefnd læknafélaganna var formlega stofnuð árið 1983 til þess að taka saman ensk-íslenska orðabók með læknisfræðilegum heitum. Orðtakan hafði reyndar hafist fjórum árum áður en eftir að málfræðingur hafði verið ráðinn til starfa árið 1984 hófst ferill sem leiddi til útgáfu safnsins á árunum 1985−1989, 14 litlum heftum með stafköflunum A til Z. Í heftunum var að finna um 35 þúsund heiti með smáu letri á 550 blaðsíðum. Fleiri verkefni voru síðan tekin fyrir og gefin út í stórum bókum: Líffæraheiti (480 bls.), Fósturfræðiheiti (218 bls.), Vefjafræðiheiti (201 bls.) og Alþjóðleg sjúkdómaheiti (607 bls.). Nokkur önnur minni verkefni má tiltaka en eftir þetta lá útgáfustarfsemi á vegum þessarar nefndar að mestu niðri. Íðorðastarfseminni var engu að síður haldið áfram með reglulegum íðorðapistlum í Fréttabréfi lækna (1990−1994), Læknablaðinu (1994−2008) og loks Lyfjatíðindum (2008−2015), samtals rúmlega 240 pistlum þar sem rætt var um íslensk íðorð í heilbrigðisfræðum og tekið við fyrirspurnum og ábendingum lesenda.

Kveikjuna að öllu þessu starfi mátti e.t.v. finna í eldri skrifum lækna og bókaútgáfum sem beindust meðal annars að því að skrifa mætti og ræða um sjúkdóma og læknisfræðileg vandamál með íslenskum heitum, nefna má til dæmis bækurnar: Lækningabók handa alþýðu (1884), Heilsufræði (1920), Sjúkdóma og dánarmeinaskrá fyrir Ísland (1953), Íslensk læknisfræðiheiti (1954) og Íslensk líffæraheiti (1956).

Ný orðanefnd Læknafélags Íslands var síðan tilnefnd árið 2012 og var helsta markmið hennar að koma af stað nauðsynlegri endurskoðun á hinu útgefna Íðorðasafni lækna sem tekið hafði verið til rafrænnar varðveislu og birtingar í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Frá þeim tíma hefur nefndin starfað með rækilega undirbúnum og reglubundnum fundum þar sem farið er yfir orðalista úr safninu sem teknir hafa verið saman til sérstakrar úrvinnslu. Verkefnin eru fjölbreytt og felast bæði í endurskoðun á eldri heitum og viðbót nýrri heita. Nefna má einnig sérstaka útgáfu á smærri íðorðasöfnum í líffærafræði: Stoðkerfið (2013, 56 bls.), Líffærakerfi mannsins (2016, 70 bls.), Æðakerfið (2017, 56 bls.) og Taugakerfið (2019, 62 bls.). Hér verður lýst einu litlu verkefni sem nýlega var tekið til úrvinnslu á nefndarfundi.

Öndunarfærasjúkdómur, sem nefnist á ensku „asthma”, er algengur og vel þekktur, bæði meðal heilbrigðisstarfsmanna og almennings. Enska heitið er oft notað óbreytt en tilraunir hafa verið gerðar með íslensk heiti, bæði sérstök, s.s. kafmæði, og aðlöguð, s.s. asma eða berkjuasma. Í Íðorðasafni lækna eru nú 17 færslur þar sem enska orðið „asthma” kemur fyrir í samsettum heitum og tilsvarandi, aðlöguð íslensk heiti eru til reiðu, hér má nefna: asmafár, astmaboði, astmalyf, berkjubólguastma, hjartaasma, innra astma, ytra astma, ofnæmisastma, astma án ofnæmis og ofnæmishneigðarastma. Ákveðið var að endurskoða og samræma íslensku heitin og um leið að velja eitt aðlagað heiti sem nefndin mælti með og nefna mætti „aðalheiti” sjúkdómsins. Eftir rækilega könnun á orðasöfnum stofnunarinnar og margvíslegum nýlegum heimildum á netinu kom í ljós að aðlagaða karlkynsnafnorðið „astmi”, væri vinsælast, en að greinilega væru orðin „asmi” (kk), „astma” (hk) og „asma” (hk) einnig í talsverðri notkun. Eftir ítarlegar umræður var ákveðið að velja orðið „astmi” sem aðalheiti, en að birta einnig hin orðin, „asmi”, „astma” og „asma”, í almennu færslunni sem nothæf samheiti.

Höfundur pistilsins, Jóhann Heiðar Jóhannsson, er formaður Orðanefndar Læknafélags Íslands.

 

Birt þann 5. apríl 2022
Síðast breytt 24. október 2023