Skip to main content

Hvammsbók Njálu – AM 470 4to

Á sýningunni Lífsblómið – fullveldi Íslands í 100 ár sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands má meðal annars sjá fjögur handrit sem geyma Brennu-Njáls sögu. Eitt þeirra er svokölluð Hvammsbók (AM 470 4to), nefnd eftir þeim stað þar sem hún var skrifuð: Hvammi í Dölum. Þar bjuggu á 17. öld hjónin Guðlaug Pálsdóttir og Ketill Jörundsson prestur og prófastur, en þau voru amma og afi Árna Magnússonar handritasafnara. Árni ólst upp á heimili þessara móðurforeldra sinna og lærði þar undir skóla en betri staður til lærdóms var vandfundinn: Guðlaug var menntuð kona og vel að sér, m.a. í latínu og söng, og Ketill – sem einnig var annálaður söngmaður – hafði verið kennari og skólameistari við Skálholtsskóla áður en hann vígðist til Hvamms.

          Hvammsbók er með hendi Ketils og á miða sem bundinn er framan við handritið skýrir Árni Magnússon frá því hvernig hún hafi komist í sínar hendur:

Þessa Njáls sögu með hendi sr. Ketils Jörundssonar hefi ég fengið frá sr. Þorvarði Magnússyni, mediante [fyrir milligöngu] sr. Árna Jónssyni á Brekku. Ég meðtók hana á alþingi 1704.

Á miðann nóterar Árni einnig hjá sér fróðleik úr bréfi frá móðurbróður sínum, Páli Ketilssyni, sem varðar tvö Njáluhandrit, annað með hendi Páls, hitt skrifað af Katli föður hans. Í bréfinu segir Páll:

Ég held, að ekki muni merkilegt það Njálu-exemplar [Njálueintak], sem þér séð hafið með minni hendi utanlands. En önnur var uppskrifuð í Hvammi af mínum góða föður, eftir pergamentsbók [skinnhandriti] ...

  Þarna er komin Hvammsbók. Rannsóknir benda til þess að þetta handrit Ketils sé skrifað eftir skinnbók sem nú er glötuð og gengur undir nafninu Gullskinna. Ólíkt öðrum skinnhandritum Njálu sem varðveist hafa, lenti Gullskinna ekki til Danmerkur, heldur gekk milli manna hérlendis og var skrifuð upp fleirum sinnum. Af afritunum æxluðust svo önnur handrit og því er það svo að flest Njáluhandrit, sem rituð voru á Íslandi á 17. og 18. öld, eiga ættir sínar að rekja til Gullskinnu.

        Smellið á myndina til að stækka hana. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

En Gullskinna var ekki eina skinnbókin með Njálutexta sem fór um hendur Ketils Jörundssonar. Þegar blöðum Hvammsbókar er flett, kemur í ljós að Ketill hefur víða á spássíur og milli lína skrifað lesbrigði, þ.e.a.s. öðruvísi orðalag, fengið úr öðru handriti en Gullskinnu. Og þetta kemur heim við upplýsingar frá Páli Ketilssyni sem Árni skrifar á seðilinn framan við handritið: „Njála, sem í Hvammi var skrifuð, var síðan samanlesin við pergamentsbók Þórðar Steindórssonar ...“ Þórður Steindórsson (d. 1707) var sýslumaður á Snæfellsnesi. Njáluhandrit hans gekk til Finns Jónssonar lögréttumanns á Kálfalæk á Mýrum og er kennt við þann bæ. Handritið komst síðar í eigu Árna Magnússonar og með samanburði við Hvammsbók má sjá að það stendur heima, að lesbrigðin sem Ketill skrifaði milli lína og á spássíu handrits síns koma úr Kálfalækjarbók. Þessi viðleitni til að bera saman texta tveggja handrita og skrá orðamun þeirra er til vitnis um fræðilegan áhuga Ketils á textanum og geymd hans. Segja má að Árni dóttursonur hans hafi svo lagt grunn að víðtækari samanburði með handritasöfnun sinni, en það var ekki fyrr en á síðari hluta 19. aldar að Njála var gefin út á þann hátt að sjá mætti orðamun úr öllum varðveittum skinnhandritum. Þar voru að verki þeir Konráð Gíslason og Eiríkur Jónsson ásamt aðstoðarmönnum og er útgáfa þeirra enn fyllsta útgáfa Brennu-Njáls sögu sem völ er á.

 Svanhildur Óskarsdóttir
nóvember 2018

Birt þann 01.11.2018