Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls (nr. 61/2011) á Íslensk málnefnd að semja íslenskar ritreglur. Í 6. gr. laganna segir um þetta:
Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra.
Unnið var að því á vegum Íslenskrar málnefndar árin 2009–2015 og 2017–2018 að semja drög að ritreglum og skilaði nefndin inn tillögum til mennta- og menningarmálaráðherra um nýjar reglur í tveimur hlutum árin 2016 (20 kaflar um stafsetningu) og 2018 (13 kaflar um greinarmerkjasetningu). Nýjar ritreglur, sem byggðust á þessum tillögum, voru síðan gefnar út af mennta- og menningarmálaráðherra í tveimur hlutum: fyrri hluti reglnanna 6. júní 2016 í auglýsingu nr. 695 um setningu íslenskra ritreglna sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, 10. ágúst sama ár og seinni hlutinn 27. ágúst 2018 í auglýsingu nr. 800 um setningu ritreglna sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 31. ágúst sama ár.
Það kemur skýrt fram í auglýsingunni 2018 að líta beri á ritreglurnar sem eina heild: „Þessar reglur eru seinni hluti endurskoðunar Íslenskrar málnefndar á íslenskum ritreglum og gilda til viðbótar þeim reglum sem birtar voru með auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna, nr. 695/2016.“
Ritreglur Íslenskrar málnefndar leysa af hólmi auglýsingar um íslenska stafsetningu og greinarmerkjasetningu nr. 132/1974, 133/1974, 184/1974 og 261/1977.
Hvaða vægi hafa ritreglurnar?
Um gildissvið ritreglnanna segir í auglýsingu mennta- og menningarmálaráðherra 2016:
1. gr.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur í dag gefið út íslenskar ritreglur sem gilda um stafsetningarkennslu í skólum og útgefið efni á vegum hins opinbera. Ritreglurnar eru birtar sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.
2. gr.
Auglýsing þessi, sem birt er með stoð í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi auglýsing um íslenska stafsetningu, nr. 132/1974, með síðari breytingum.
Samkvæmt þessu ber því að fara eftir ritreglum Íslenskrar málnefndar í skólum og hjá hinu opinbera, þ.e. stofnunum ríkisins, ráðuneytum o.s.frv. Þetta eru því opinberar stafsetningarreglur á Íslandi.
Hvar má lesa reglurnar?
Ritreglurnar má lesa í heild á síðunni http://ritreglur.arnastofnun.is/ sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur utan um en skrifstofa Íslenskrar málnefndar er á stofnuninni. Reglurnar eru einnig birtar á vefsíðu Íslenskrar málnefndar.
Umfjöllun um fyrri hluta ritreglnanna er hjá Ara Páli Kristinssyni (2017) og yfirlit yfir breytingar í þeim hjá Jóhannesi B. Sigtryggssyni (2016 og 2019).
Síðast breytt 24. október 2023