Í nokkrum íslenskum miðaldasögum má finna frásagnir af heitstrengingum. Misjafnt er hve vel þessum athöfnum er lýst en þær fara oft fram í veislum og fela yfirleitt í sér að menn standa upp, strengja þess heit að drýgja einhverja hetjudáð og innsigla heitið með drykk. Í nokkrum heimildum fara slíkar heitstrengingar fram í erfidrykkjum en í sumum heimildum, einkum fornaldarsögum, fara heitstrengingar fram á jólum. Þá stíga menn á stokk og drekka svo kallað bragafull/bragarfull, líklegast öl eða vín, sem menn drekka af og skála um leið og heit eru strengd. Drykkurinn innsiglar þannig heitstrenginguna og er kenndur við guðinn Braga til marks um alvöru heitisins. Uppruni hugtaksins „bragafull“ er þó annars óljós en líklegt þykir að þetta sé forn siður. Stundum fylgja aðrar athafnir með. Í Helgakviðu Hjörvarðssonar fara fram heitstrengingar á jólum og leggja menn þá hönd á gölt um leið og heitið er strengt. Skemmtilega frásögn af jólaveislu og heitstrengingum er að finna í Sturlaugs sögu starfsama en þar segir:
„En um vetrinn eptir hafði Sturlaugr jólaveizlu ok bauð til mörgu stórmenni. Ok er menn váru komnir í sæti inn fyrsta jólaaptan, stóð Sturlaugr upp ok mælti: „Þat er vani allra manna at efla nýja gleði nokkurum þeim til skemmtunar, sem komnir eru. Nú skal hefja heitstrenging, ok er hún með því móti, at ek skal víss verða, af hverjum rökum úrarhorn er upp runnit, fyrir in þriðju jól eða deyja ella.“ Þá stendr Framarr upp ok segist því heita, at hann skal kominn í rekkju Ingibjargar, dóttur Ingvars konungs í Görðum austr, ok hana kysst hafa fyrir in þriðju jól eða deyja ella. Sighvatr inn mikli strengir þess heit at fylgja þeim fóstbræðrum, hvert er þeir vilja fara eða hefja farir. Nú er eigi getit fleiri manna heitstrenginga. Líða nú jólin, ok berr eigi til tíðenda, en eptir veizluna fór hverr heim með góðum gjöfum."
(úrarhorn: horn úruxans)
Af frásögninni er ljóst að í heitstrengingunum blandast saman gaman og alvara. Þær eru settar fram til skemmtunar en þó er ljóst, bæði í þessari sögu og öðrum, að orðstír manna er í húfi ef þeir standa ekki við heit sín.
Frekari fróðleikur:
Stefán Einarsson, „Old English beot and Old Icelandic heitstrenging,“ Publications of the Modern Language Association of America 49 (1934), 975–993.
Síðast breytt 24. október 2023