Skip to main content

Pistlar

Heimsfræðileg mynd af manninum – bakhlið blaðs nr. 6 í GKS 1812 4to 

Staða mannsins í heiminum er útfærð í athyglisverðri skýringarmynd í íslensku handriti frá um 1225–1250. Myndin sýnir hvernig himinn, jörð, náttúruöflin, maðurinn og eiginleikar hans tengjast saman í eina heild. Hana má finna á baksíðu sjötta blaðs í handritinu GKS 1812 4to. Textinn er á latínu þó að handritið sé íslenskt. GKS 1812 4to er samsafn nokkurra fræðirita og myndin tilheyrir þeim hluta sem talinn er næstelstur. Um GKS 1812 4to er fjallað í öðrum pistli sem má finna hér.  

Hvorki er vitað hver dró myndina upp né hver heimildin var en hún endurspeglar þekkingu sem var útbreidd og útlistuð í mörgum lærðum evrópskum ritum miðalda. Maðurinn var talinn skapaður af Guði úr höfuðskepnunum fjórum (eldi, lofti, vatni og jörð) og bæri því með sér líkingu þeirra í líkamsvessum sínum (blóði, gulu/rauðu galli, svartagalli og slími). Vessarnir voru taldir hafa áhrif á skapgerð mannsins og eiginleika. Heilbrigðastur var maðurinn ef jafnvægi ríkti milli þeirra. En ef til dæmis svartagallið náði yfirhöndinni þá varð maðurinn „þungur og þögull, sínkur og svefnugur, styggur og prettugur, öfundsjúkur og af kaldri náttúru og þurri“ líkt og segir í Hauksbók snemma á fjórtándu öld (bls. 181). Slíkt ástand var hægt að lækna með blóðtökum og öðrum aðferðum en jafnvægið var enn fremur tengt árstíðunum fjórum og fjórum æviskeiðum mannsins. 

Þessi hugsun um manninn á sér ýmsar myndrænar útgáfur sem teiknaðar voru upp í óteljandi skýringarmyndum, svo sem í útbreiddri alfræðibók Ísidórs frá Sevilla (d. 636) De natura rerum. Jafnframt eru dæmi um myndir af þessu tagi í veggskreytingum evrópskra kirkna. Á myndunum eru oft tengdar saman höfuðskepnurnar, árstíðirnar, vessarnir fjórir og eiginleikar þeirra (þurrir, rakir, heitir, kaldir), mannsaldrarnir fjórir, höfuðáttirnar fjórar og stundum stjörnumerkin tólf, eins og á blaði 6v í GKS 1812 4to – til að sýna samverkan þessara þátta myndrænt. 

Í miðju myndarinnar í GKS 1812 4to er að finna lítið hringlaga heimskort. Þetta er dæmigert svokallað T–O kort sem sýnir þá þrjá hluta heimsins sem þekktir voru: Asíu, Evrópu og Afríku. Heimshlutarnir þrír eru aðskildir með T-i sem stendur fyrir þau ár og höf sem skilja þá að. O-ið myndar hring utan um T-ið og táknar úthafið sem umlykur heiminn.  

Skífunni utan um heimskortið litla er skipt í þrjá hringi og fjórar sneiðar. 

Ysti hringur stendur fyrir himininn. Utan við útlínurnar eru rituð heiti höfuðáttanna fjögurra. Allra efst á blaðinu má lesa Meridies (suður), þá Occident (vestur), Septentrio (norður) – og því má ætla að Oriens (austur) hafi staðið á þeim hluta vinstri spássíu sem virðist skorin af blaðinu. Innan hringsins eru heiti mánaðanna tólf og stjörnumerkjanna tólf, þrjú heiti í hverri af sneiðunum fjórum. Einnig má sjá innan hringsins nokkur vindaheiti sem þó virðast brotakennd samanborið við aðrar samtímaheimildir. Læsileg heiti eru: Í efstu sneið – Fauonius (vestanvindur), Subsolanus (austan); í hægri sneið – Zephirus (vestan), Nothus (sunnan); í neðstu sneið – Boreas (norðaustan), Aquilo (norðaustan).   

Í miðjuhringnum eru heiti árstíðanna fjögurra, eitt í hverri sneið, ásamt eiginleikum þeirra (frá vinstri: hlýtt vor, heitt sumar, rakt haust, kaldur vetur). 

Innsti hringurinn, staðsettur milli jarðar og himins, stendur fyrir manninn. Maðurinn birtist þar sem hinn minni heimur (míkrókosmos) sem endurspeglar hinn stærri heim. Í hringnum eru heiti á fjórum lífsskeiðum mannsins (bernsku, ungdómi, efri árum, elli) og einkenni hvers skeiðs nefnd. Vísað er til vessanna fjögurra á slitróttan hátt (blóð, heitt, kalt, rakt). Þá eru einnig í þessum innsta hring heiti á tveimur höfuðskepnum, eldi og vatni, en jörð og loft vantar. 

Samantekið gefa miðjuhringurinn og sá innsti eftirfarandi fjórar samsetningar (ein í hverri sneið, frá vinstri): 

ver tepidum 

(hlýtt vor) 

estas calida 

(heitt sumar) 

autumnus humidus 

(rakt haust) 

hiemps frigida 

(kaldur vetur) 

infancia 

(bernska) 

inuenta [iuventa] 

(ungdómur) 

senecta 

(efri ár) 

decrepita 

(elli) 

tepor sanguinis 

(hiti blóðs) 

calor spiritus 

(heitur andi) 

humor 

(raki) 

frigus corpus 

(kaldur líkami) 

 

ignis 

(eldur) 

aqua 

(vatn) 

 

 

Möguleiki er að handritið GKS 1812 4to, eða hluti þess, hafi verið í Viðeyjarklaustri. Árið 1662 sendi Brynjólfur Sveinsson biskup það Konunglegu bókhlöðunni í Kaupmannahöfn. Handritið kom aftur til Íslands árið 1984 og er nú varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.  

 

Höfundur: Brynja Þorgeirsdóttir, nýdoktor við Cambridge-háskóla.

 

Birt þann 2. febrúar 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Alfræði íslenzk. Islandsk encyklopædisk litteratur, ritstj. Kristian Kålund og Beckman, Natanael, 3 vols (Kaupmannahöfn: Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, 1914–1916). 

Brynja Þorgeirsdóttir, ‘Humoral Theory in the Medieval North: An Old Norse Translation of Epistula Vindiciani in Hauksbók’Gripla 29 (2018), 35–66. 

Clunies Ross, Margaret, and Rudolf Simek, ‘Encyclopedic Literature’, in Medieval Scandinavia: An Encyclopedia, ritstj. Phillip Pulsiano og Kirsten Wolf (London: Garland, 1993), pp. 164–166. 

Gunnar Harðarson, ‘A Divisio Philosophiae in the Medieval Icelandic Manuscript GKS 1812 4to’Cahiers de l'Institut du Moyen-Âge Grec et Latin (2015), 1–21.  

Hauksbók: Udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4 ̊ samt forskellige papirshåndskrifter, ritstj. Eiríkur Jónsson og Finnur Jónsson (Kaupmannahöfn: Det Kongelige nordiske oldskrift-selskab, 1892–1896). 

Isidore of Seville, On the Nature of Things, ritstj. og þýðendur Calvin B. Kendall og Faith Wallis, Translated Texts for Historians, 66 (Liverpool: Liverpool University Press, 2016). 

Kedwards, Dale, The Mappae Mundi of Medieval Iceland (Cambridge: Brewer, 2020). 

Kline, Naomi Reed, Maps of Medieval Thought: The Hereford Paradigm (New York: Boydell, 2001). 

Sears, Elizabeth, The Ages of Man: Medieval Interpretations of the Life Cycle (Princeton: Princeton University Press, 1986). 

Simek, Rudolf, Altnordische Kosmographie: Studien und Quellen zu Weltbild und Weltbeschreibung in Norwegen und Island vom 12. bis zum 14. Jahrhundert, Ergänzungsbände zum Reallexikon der Germanischen Altertumskunde, 4 (Berlín: Walter de Gruyter, 1990).