Skip to main content

Pistlar

Heimur í brotum — GKS 1812 4to

Dagana 20.–21. október verður haldin í Viðey ráðstefna á vegum Árnastofnunar, Miðaldastofu Háskóla Íslands og Miðaldastofu háskólans í Óðinsvéum (Syddansk Universitet). Ráðstefnan ber yfirskriftina Heimur í brotum og hnitast um eitt handrit, GKS 1812 4to, sem er eitt mikilvægasta íslenska alfræðihandritið sem varðveist hefur. Handritið, sem er skrifað á skinn, telur nú 36 blöð. Það er samsett úr fjórum hlutum, misgömlum, og geymir texta bæði á íslensku og latínu. Stofninn í því eru 11 blöð sem skrifuð voru undir lok 12. aldar og innihalda mestmegnis ritgerð um tímatalsfræði (rím) en einnig latnesk-íslenskar orðskýringar. Talið er að brot úr ártíðaskrá sem nú er varðveitt undir öðru safnmarki (AM 249 l fol.) gæti verið komið úr sama handriti. Blöðin úr ártíðaskránni eru stærri en þau í GKS 1812 en það segir ekki alla söguna, því komið hefur í ljós að GKS-blöðin hafa verið minnkuð; bæði hefur verið skorið utan af þeim en einnig hefur hvert tvinn, þ.e. tvö samhangandi blöð, verið skorið sundur og saumað saman að nýju þannig að innri spássíur hafa minnkað. Þetta hefur væntanlega verið gert til þess að laga stærð þessara elstu blaða að yngri og minni blöðum í handritinu.

Næstelsti hluti handritsins, fjögur blöð, er talinn skrifaður um eða undir miðja 13. öld og byggist tímasetningin meðal annars á því að í leifum af almanaki með ártíðaskrá, sem er að finna í þessum hluta, er skráð dánardægur Styrmis prests hins fróða árið 1245. Með sömu hendi er prestatal 40 presta sem raðað er eftir fjórðungum. Prestatalið ber yfirskriftina „Nöfn nakkverra presta kynborinna íslenskra“ og í lok þess kemur fram að það hafi verið tekið saman árið 1143 — semsé um öld áður en það var skráð í GKS 1812 4to — í tíð biskupanna Ketils Þorsteinssonar og Magnúsar Einarssonar. Á eftir prestatalinu í handritinu koma tvær opnur með kortum. Fyrst er merkilegt heimskort, þar sem landanöfnum er raðað upp eftir staðsetningu landanna innan hinna þriggja heimsálfa sem þá voru þekktar: Asíu, Afríku og Evrópu. Á eftir fara svo tvö kort sem tengjast stjörnufræði og tímatali.

Þriðji megináfanginn í þróunarsögu GKS 1812 4to verður á 14. öld þegar tveir skrifarar skrifa upp og teikna efni á samtals 21 blað. Þar er áfram efni sem snertir tímatal, svo sem rímvers á latínu og hin merka tala Stjörnu-Odda sem var vinnumaður að Múla í Reykjadal á fyrri hluta 12. aldar, að því er talið er. Um efni hennar má fræðast hjá Þorsteini Vilhjálmssyni: https://notendur.hi.is/thv/odd.html Sá sem skrifaði upp Stjörnu-Odda tölu í GKS 1812 4to teiknaði líka upp hring með himintunglunum og skýrði gang þeirra og samband við stjörnumerkin og sömuleiðis sýndi hann tákn dýrahringsins á myndum með skýringum. Frá hans hendi er einnig uppdrátturinn sem sést á meðfylgjandi ljósmynd

 
og sýnir heimspekina (philosophia), drottningu fræðanna, og undirgreinar hennar: náttúruvísindi, lög- og siðvísindi og mál- og mælskufræði. Hinn skrifarinn, sem að verki var á 14. öld, skrifar eins og félagi hans upp rímvers og annað efni sem varðar rímfræði og gang himintunglanna. En með hans hendi er líka merkilegur texti um reikningslist með arabískum tölum undir yfirskriftinni „Algorismus“.

Þetta grófa yfirlit um efni handritsins sýnir hvernig smám saman verður til eins konar safn texta og mynda um skyld efni, einkum stjörnu- og rímfræði. Þessum misgömlu handritum var haldið saman, væntanlega vegna þess að textarnir (og myndirnar) bættu hver annan upp og nýttust þeim sem áttu. Ekki hafa þó allir þeir sem veltu bókinni milli handa sér botnað í fróðleiknum, ef marka má þessa vísu sem skrifuð er með fljótaskrift á spássíu:

Illa skil ég aldna tal,
eru það greinir þungar,
má þó reiknast mennta hjal,
munu þær ei ungar.

Einhvern tíma — óvíst hvenær — hafa kverin verið bundin í kápu úr selskinni. Innan á kápuna að framanverðu er ritað:  „Bok Hakonar Ormssonar Anno“ en ártalið verður ekki lesið. Hákon (d. 1656) var ráðsmaður í Skálholti 1645–53 en faðir hans, Ormur Vigfússon, sýslumaður að Eyjum í Kjós, hafði einnig verið ráðsmaður Brynjólfs biskups. Faðir Orms var bróðursonur síðasta ábótans í Viðey, Alexíusar Pálssonar (d. 1568), og þess hefur verið getið til að GKS 1812 4to hafi verið í klaustrinu í Viðey og komist í eigu ættingja Alexíusar eftir hans dag. Það kann að styrkja þá tilgátu, að við prestatalið í handritinu var seint á 15. öld aukið nöfnum sjö biskupa sem setið höfðu á árunum 1440–1480 og einnig nafni Steinmóðar Bárðarsonar ábóta í Viðey (d. 1481). Ábótar annarra klaustra eru ekki nefndir.

Stafirnir GKS í safnmarki handritsins standa fyrir Gammel Kongelig Samling og vísa til þess að handritið var um langt skeið í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Það má heita víst að þangað hafi það komið fyrir tilstilli Brynjólfs Sveinssonar biskups sem sendi Friðriki 3. Danakonungi allmörg handrit. Á fyrstu blaðsíðu handritsins, neðri spássíu, má lesa með rithönd biskups: Calendarium Islandicum. Brynjólfur hefur annaðhvort fengið bók ráðsmanns síns hjá honum sjálfum eða eignast hana eftir dauða hans og komið henni í bókhlöðu konungs. Handritið kom aftur til Íslands í desember 1984.

Birt þann 1. október 2016
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Beckman, Natanel og Kristian Kålund (útg.) 1914. Alfræði íslenzk II. Rímtöl. STUAGNL 41. København.

Gunnar Harðarson. 2008. 'Philosophia í miðaldahandritinu GKS 1812 4to og tengsl hennar við fróðleiksást'. Í garði Sæmundar fróða. Ritstj. Gunnar Harðarson og Sverrir Tómasson. Reykjavík: Hugvísindastofnun, bls. 25–45.

Jón Sigurðsson. 1857–76. ‘Nafnaskrá íslenzkra presta’. Íslenzkt fornbréfasafn I. Kaupmannahöfn: S.L. Möller, bls. 180–194.

Larsson, Ludvig. 1883. Äldsta delen af Cod. 1812 4to Gml. Kgl. Samling. København: S.L. Möller.

Þorsteinn Vilhjálmsson. 1991. ‘Hversu nákvæmur var Stjörnu-Oddi.’ Eðlisfræði á Íslandi V. Ritstj. Leó Kristjánsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls. 83–95.