Skip to main content

Heiðarkolla

Örnefnið Heiðarkolla kemur fyrir í Bárðar sögu Snæfellsáss í vísu sem þar er lögð í munn Helgu Bárðardóttur. Snemma í sögunni segir frá því að dætur Bárðar, sem ólust upp á Laugarbrekku, og bræður tveir af Arnarstapa „lögðu saman leika sína á vetrinn á svellum við ár þær er þar eru og Barnaár heita“. Í hita leiksins fór svo að annar bræðranna hratt Helgu út á freðjaka sem síðan rak burt frá landi. Af jakanum komst Helga upp á hafís sem lá við landið, en þá vildi ekki betur til en að hafísinn tók að færast frá landi og barst Helga með honum alla leið til Grænlands og var síðan um tíma í vist hjá Eiríki rauða í Brattahlíð. Einn daginn stóð hún úti þar „ok litaðist um ok kvað vísu:

Sæl værak
ef sjá mættak
Búrfell ok Bala
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
ok Öndvertnes,
Heiðarkollu
ok Hreggnasa,
Dritvíkrmöl
fyr dyrum fóstra.“ (ÍF 13:114–116)

Örnefnin í vísunni eiga við staði á utanverðu Snæfellsnesi, frá (Keflavíkur) Bala, sem er á milli Hellissands og Rifs, suður að Lóndröngum, hinum stórbrotnu klettadröngum við Malarrif. Nafnið Öndvertnes er eldri útgáfa af núverandi nafninu Öndverðarnes; Búrfell og Hreggnasi eru áberandi fjöll norður af Jökulröndinni (sjá mynd að neðan úr Árbók FÍ frá 1982, á milli bls. 128 og 129) og Dritvík er vel þekkt (reyndar virðist nafnið Dritvíkurmöl ekki notað nú, en þess er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 5. bindi, bls. 188).

Tvö örnefni eru ekki lengur þekkt, Aðalþegnshólar og Heiðarkolla, en þau hafa vafalítið í eina tíð verið notuð um staði á þessu svæði. Yst á Snæfellsnesi eru víða gíghólar og vísaði nafnið Aðalþegnshólar örugglega til einhvers þeirra. Árni Thorlacius sýslumaður á Stykkishólmi (1802–1891), sem ritaði grein um örnefni í Bárðarsögu, giskaði á að Aðalþegnshólar væru eldra nafn á Purkhólum (1886:300), en Ólafur Lárusson (1944:154–55, 1945:37–40) og Þórhallur Vilmundarson (1991:xciv–xcvi) færðu síðar rök að því að um væri að ræða Hólahóla. Þetta verður þó að teljast ósannað.

Um Heiðarkollu segir fyrrnefndur Árni Thorlacius að hún sé „eflaust hnúkr sá, sem nú er kallaðr Blákolla, við Jökulfótinn milli Saxahóls og Hólahóla“ (1886:301). Hvorki Ólafur Lárusson (1944:153–154) né Þórhallur Vilmundarson (ÍF 13:116, skýringar við 1. vísu) lögðu til annan kost. Tilgátuna styður að svæðið niður af Blákollu er einmitt kallað Heiði í örnefnaskrám Bervíkur í Breiðuvíkurhreppi (í örnefnaskrá Saxhóls í sama hreppi er nafnið reyndar Heiðar). Heiðarkolla væri viðeigandi nafn á fjalli sem gnæfir yfir Heiðinni og ef tilgáta Árna sýslumanns er rétt hefur einungis fyrri liður nafnsins breyst, Heiðarkolla orðið Blákolla.

En við Jökulröndina upp af Heiðinni eru fleiri fjöll og ekki er loku fyrir það skotið að nafnið Heiðarkolla hafi átt við eitthvert þeirra en ekki Blákollu. Í seinni tíð hefur sú hugmynd komist á kreik að Heiðarkolla sé eldra nafn á fjalli sem annars er nefnt Geldingafell, stundum Geldingafell vestra til aðgreiningar frá samnefndu felli nokkru austar, við þjóðleiðina um Jökulháls. Um nafnið á síðarnefnda fellinu eru nokkuð gamlar heimildir því að það kemur fyrir í lýsingu Eggerts Ólafssonar (1726–1768) á ferð hans og Bjarna Pálssonar upp á Snæfellsjökul sumarið 1754 (1975:157 o.áfr.). Ekki hef ég rekist á mjög gamlar heimildir um nafnið Geldingafell á vestara fjallinu, en þess er þó getið í örnefnaskrá Saxhóls. Þar segir: „Yfir Saxhólsdal gnæfir Bárðarkista, en upp af henni Jökulmegin er Geldingafell, og inn af Bárðarkistufjallinu er Miðfell.“ Hér fyrir neðan er mynd úr Árbók FÍ frá 1982 er sýnir Geldingafell (á milli bls. 112 og 113).

Að tvö fjöll, sem jafnskammt er á milli, skuli bera sama nafn er óvenjulegt og gefur tilefni til vangaveltna um hvort upphaflega hafi einungis annað fjallið heitið Geldingafell, en síðar hafi það nafn einnig færst yfir á hitt fjallið og eldra heiti þess týnst. Virðist þá eðlilegt að gera ráð fyrir að Geldingafell hafi í fyrstu verið heiti eystra fjallsins, þar sem eldri heimildir eru um þá nafngift, en vestra fjallið hafi áður borið eitthvert heiti sem nú er týnt. Og er þá freistandi að gera ráð fyrir að týnda nafnið sé einmitt Heiðarkolla úr vísu Helgu Bárðardóttur. Eins og áður sagði hafa slíkar hugmyndir verið á kreiki, en ég veit ekki til þess að þær hafi birst á prenti. Nafnið komst um tíma í örnefnagrunn Landmælinga Íslands og hefur þess vegna lent á kortum sem byggja á honum. Nú hefur það verið tekið úr grunninum, enda einungis getgátur að umrætt fjall sé hin gamla Heiðarkolla. Þó er hugsanlegt að hugmyndin fái byr undir báða vængi og nafnið eigi eftir að festast við fjallið og þá verður kannski ástæða til að skrá það í opinberan örnefnagrunn einhvern tíma í framtíðinni.

Birt þann 08.08.2019
Heimildir

Árbók 1982. Lýsing Snæfellsness frá Löngufjörum að Ólafsvíkurenni. Einar Haukur Kristjánsson tók saman. Ferðafélag Íslands, 1982.

Árni Thorlacius. 1886. Skýringar yfir örnefni í Bárðarsögu og Víglundar. Safn til sögu Íslands 2:299–303.

Eggert Ólafsson. 1975. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752–1757, 1. bindi. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði. Örn og Örlygur, Reykjavík.

ÍF 13 = Íslenzk fornrit XIII. Bárðar saga. Útg. Þórhallur Vilmundarson. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1991.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 5. bindi. Hnappadals- og Snæfellssýsla. Hið íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn, Kaupmannahöfn.

Ólafur Lárusson. 1944. Byggð og saga. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

Ólafur Lárusson. 1945. Landnám á Snæfellsnesi. Félag Snæfellinga og Hnappdæla í Reykjavík, Reykjavík.

Þórhallur Vilmundarson. 1991. Inngangur að Bárðar sögu. Íslenzk fornrit XIII, bls. lxvii–cix. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.

Örnefnaskrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.