Leynilegur kaupandi á handritauppboði
Þriðjudaginn 30. nóvember 1965 var Skarðsbók postulasagna seld á uppboði í Sotheby‘s London ásamt fleiri miðaldahandritum. Bókin var slegin fyrir 36 þúsund sterlingspund og endaði þar með sem langdýrasta handritið á uppboðinu. Hnossið hreppti norskur bóksali, Torgrim Hannaas, en líkt og flestir aðrir bjóðendur í salnum var hann einungis erindreki hins raunverulega kaupanda sem var hulinn þagnarhjúpi.
Viku eftir uppboðið var síðan blásið til blaðamannafundar í Reykjavík og í ljós kom að Seðlabanki Íslands, ásamt fleiri íslenskum bönkum og sparisjóðum, hafði keypt bókina til að gefa hana íslenska ríkinu. Menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, veitti handritinu viðtöku með miklu þakklæti og lýsti því strax yfir að Handritastofnun Íslands skyldi fá það til varðveislu. Þetta var fyrsta heila skinnbókin sem hin nýja Handritastofnun fékk til varðveislu og hlaut hún safnmarkið SÁM 1.
Jóhannes Nordal og handritamálið
Sá maður sem öðrum fremur átti heiðurinn af því að Skarðsbók rataði aftur til Íslands var Jóhannes Nordal seðlabankastjóri. Jóhannes rakti málið ítarlega í grein sem birtist árið 2005 og þar segir hann frá fyrri samskiptum sínum við eigendur handritsins. Viðræður um möguleg kaup höfðu átt sér stað þegar árið 1960 en handritið var þá ekki til sölu, auk þess sem niðurstaða hafði ekki enn fengist í handritamálið milli Dana og Íslendinga.
Gylfi Þ. hafði greint Jóhannesi frá áhyggjum sínum af því að kaup Íslendinga á Skarðsbók gætu truflað framgang handritamálsins, en þegar Skarðsbók fór á uppboð fimm árum síðar hafði Hæstiréttur Danmerkur hins vegar kveðið upp dóm í málinu. Engu að síður hvíldi mikil leynd yfir öllum undirbúningi kaupanna og það var líklega af þeim sökum sem Jóhannes var sjálfur ekki viðstaddur uppboðið í London.
Mikill áhugi var á málinu í íslenskum fjölmiðlum og tvö stærstu dagblöðin, Morgunblaðið og Tíminn, sendu blaðamenn til London að fylgjast með uppboðinu.
Vignir Guðmundsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, rakti atburðarásina á uppboðinu í greinargóðum pistli. Einvíginu um Skarðsbók er þar lýst svo:
Og nú byrjuðu náungar að bjóða, hver á móti öðrum – og kinkuðu þeir kolli til uppboðshaldarans til skiptis. – Tölurnar hækkuðu – tólf þúsund, – fjórtán þúsund, – nítján þúsund og þannig áfram, allt upp í þrjátíu og þrjú þúsund pund. Þá fóru kollarnir að ganga hægar – þrjátíu og fjögur þúsund ...... þrjátíu og fimm, sagði annar þeirra, rólegur maður með gleraugu en hinn, lítill maður vexti með hökuskegg, kinkaði kolli enn einu sinni og uppboðshaldarinn sagði þrjátíu og sex þúsund. – Hann nefndi töluna nokkrum sinnum og síðan var bókin slegin – á upphæð er nemur 4.320.000,00 kr. ísl.
„Náungarnir“ tveir sem slógust um Skarðsbók í Sotheby‘s þennan örlagaríka þriðjudag höfðu báðir átt ævintýralegt lífshlaup. Báðir voru fornbókasalar að atvinnu, en ekki eru heimildir um að leiðir þeirra hafi legið saman annars staðar en þarna.
Norskur andspyrnu
Torgrim Hannaas, útsendari íslenska hópsins, var fæddur 1916. Faðir hans, Torleiv Hannaas, var prófessor í málfræði við Háskólann í Björgvin, höfundur fjölda rita um norskar mállýskur og ötull safnari þjóðkvæða og sagna.
Sonurinn Torgrim hugðist feta í fótspor föður síns og lagði stund á húmanísk fræði á sínum yngri árum. Tuttugu og fjögurra ára gamall sá hann fram á að ljúka doktorsnámi í fornnorrænni textafræði í Ósló þegar örlögin surfu að; þýska hernámsliðið lagði undir sig heimili Torgrims árið 1940 og ritgerðin glataðist fyrir fullt og allt.
Torgrim tók virkan þátt í norsku andspyrnuhreyfingunni á stríðsárunum og komst í kynni við tvo strokufanga sem höfðu orðið þýskum hermanni að bana í apríl 1943. Með kænsku tókst mönnunum að flýja út í eyðieyju skammt utan við strönd Hörðalands, þar sem þeir földu sig í helli um tveggja vikna skeið ásamt fáeinum öðrum.[3] Í skjóli myrkurs tókst hópnum að stela litlum vélbáti úr nálægri höfn og sigldu þeir fimm saman alla leiðina til Wick í Skotlandi.
Eftir stríðið kynntist Torgrim konu að nafni Lindu Saunders og varð hún lífsförunautur hans og viðskiptafélagi. Saman fluttu þau til London þar sem Torgrim bauðst starf hjá norska sendiráðinu, en fornbókasala varð aukabúgrein hjá þeim hjónum á sjötta áratugnum. Árið 1957 gáfu þau út sína fyrstu söluskrá, þar sem finna mátti upplýsingar um þær bækur sem fjölskyldufyrirtækið hafði á boðstólnum.
Reksturinn óx hratt og Hannaas-hjónin áttu eftir að gefa út tvær til þrjár söluskrár á ári allt fram til ársins 1993 þegar þau hættu rekstrinum. Torgrim Hannaas hafði víðtæka þekkingu á norrænum bókmenntum og málfræði og var einn fremsti sérfræðingur um norræna menningu í hópi fornbókasala á Bretlandseyjum. Árið 1984 gaf Torgrim breska landsbókasafninu, British Library, 700 norrænar fornbækur sem eru þar enn varðveittar undir safnmarkinu HAN.
Mótherji
Mótherji Torgrims Hannaas á uppboðinu í Sotheby‘s, „rólegi maðurinn með gleraugun“, var Hans P. Kraus, austurrískur gyðingur sem rak fornbókasölu í New York og er án vafa eitt af stóru nöfnunum í fornbókabransanum vestanhafs á 20. öld. Kraus var fæddur í Vín árið 1907 og hóf bókasöfnun strax á unga aldri. Árið 1932 stofnaði hann fornbókasölu í eigin nafni en eftir innlimun Austurríkis í Þriðja ríki nasista var Kraus sendur í fangabúðir og dvaldi þar í átján mánuði árin 1938–1939, fyrst í Dachau og síðan Buchenwald. Vorið 1939 kom fulltrúi frá Gestapo í fangabúðirnar og lét Kraus fylgja sér aftur til Vínar þar sem honum var gefið frelsi og skipað að yfirgefa landið hið snarasta. Ekki er vitað með vissu hvernig eða hvers vegna Kraus fékk að sleppa úr fangabúðunum, en hann sigldi til Ameríku um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin skall á.
Hans P. Kraus skrifaði sjálfsævisöguna A Rare Book Saga sem kom út árið 1978. Þar kemur fram að við brottförina frá Evrópu hafi hann þurft að skilja við sig um hundrað þúsund fornbækur. Í New York byrjaði Kraus með tvær hendur tómar og stofnaði nýja fornbókasölu á stríðsárunum. Reksturinn efldist hratt og í sjálfsævisögunni segir Kraus ótal sögur af eigin afrekum í bransanum, sögur um dýrgripi sem honum tókst að kaupa fyrir slikk og selja aftur með ótrúlegum hagnaði. Uppboðið í Sotheby‘s árið 1965 er nefnt í sjálfsævisögunni en sú frásögn er æði broguð, hvort sem það er viljandi eða óviljandi. Skarðsbókar er þar að engu getið og Torgrims Hannaas ekki heldur. Þvert á móti fullyrðir Kraus að hann sjálfur hafi keypt dýrustu bókina á uppboðinu („the most expensive item of the sale“) sem hafi verið Ars memorandi þýsk tréristubók frá því um 1470. Fyrir þann grip segist Kraus hafa greitt 29 þúsund pund, sem hafi verið hlægilegt verð. Þetta virðist eitthvað hafa skolast til hjá Kraus því söluskráin[4] frá Sotheby‘s sýnir að engin slík bók hefur verið boðin upp þennan dag.
Pistill Vignis Guðmundssonar í Morgunblaðinu er samtímafrásögn um uppboðið og í þeim skilningi traustari heimild en sjálfsævisaga Kraus, sem er skrifuð meira en áratug síðar. Vignir fullyrðir að næstdýrasta bókin á uppboðinu hafi verið handrit með ritskýringum Beda prests á Markúsarguðspjalli sem fór á 15 þúsund pund. Það handrit var ritað á öndverðri 9. öld og er því fimm hundruð árum eldra en Skarðsbók postulasagna. Í söluskránni frá Sotheby‘s er það handrit haft fremst og virðist því hafa verið skilgreint sem mesti dýrgripurinn frá sjónarhóli uppboðshaldara. Þegar uppboðinu lauk gaf Vignir sig á tal við Hans P. Kraus og spurði á hvers vegum hann væri þangað kominn, en Kraus gaf ekkert upp. Það er því óvitað enn í dag hvort Kraus hafði umboð frá öðrum kaupanda þegar hann reyndi að eignast Skarðsbók eða hvort hann ætlaði sér að eignast hana sjálfur.
Síðast breytt 2. janúar 2026