Óvænt gleðitíðindi bárust frá Kanada þegar íslenskt handrit frá dögum Árna Magnússonar fannst við tiltekt á heimili í Kingston, Ontario. Nánari lýsingu á handritinu, sem reyndist mikill fengur fyrir áhugafólk um 17. öld, verður fljótlega hægt að nálgast á handrit.is.
Á titilsíðu handritsins er innihaldi þess ágætlega lýst: „Skýr og ljós útlegging historíunnar pínunnar og dauðans drottins vors Jesú Kristi í átta pörtum yfirfarin, Guði eilífum til lofs og dýrðar en þeim sem iðka vilja til sálargagns og nytsemdar“ (1r). Handritið geymir átta hugvekjur um passíusögu Krists og eru sennilega ætlaðar til upplestrar sem liður í heimilisguðrækni í dymbilvikunni. Útliti titilsíðunnar svipar til prentaðrar bókar en verkið er með öllu óþekkt. Titilsíðan er einna líkust 1. og 2. útgáfu passíusálma Hallgríms Péturssonar og Guðmundar Erlendssonar sem hefst með orðunum „Historía pínunnar og dauðans drottins vors Jesú Kristi“ og kann skrifarinn að hafa hermt viljandi eftir uppsetningu prentuðu bókarinnar.
Vandað hefur verið til verka við gerð handritsins. Það er í fjórðungsbroti og skrifað af þaulvönum skrifara og er rithöndin alls staðar skýr og læsileg. Skriftin er kansellískrift en griporðin eru rituð með fljótaskrift. Blöðin eru víða trosnuð en voru í upphafi um 185 mm x 155 mm. Til allrar óhamingju hafa síðustu blöðin í handritinu glatast en líklegt má telja að á þeim hafi nafn skrifarans verið skráð, og e.t.v. einnig nafn höfundarins eða þýðandans. Í dag er aftasta blaðið í handritinu merkt f. 150. Það blað er ekki mikið skemmt sem kann að benda til þess að eyðan í handritinu sé ekki aldagömul.
Ekki fer á milli mála að hér er á ferðinni verk hálærðs guðfræðings. Víða á spássíum handritsins eru athugasemdir með hendi skrifarans sem tilheyra upprunalega verkinu. Höfundur verksins er að sjálfsögðu latínulærður og á nokkrum stöðum sést að hann kann einnig örlítið í grísku.
Handritið er enn í upprunalegu bandi sem eru tréspjöld klædd með leðri og á því eru tvö spennsl. Leðrið er máð og sums staðar glittir í tréspjöldin. Á fremri kápunni standa ógreinilega upphafsstafir eigandans, að öllum líkindum S.B.S. Á saurblaðinu fremst í handritinu er einnig klausa sem kann að varpa ljósi á eigandann, hinn dularfulla S.B.S. Þar stendur: „Jón Sigurðsson sýslumaður á þessa merkilegu bók í láni hjá Sigurði Björnssyni Anno 1710“. Hafandi þessar upplýsingar þrengist leitin: aðeins einn sýslumaður kemur hér til greina, en sá bjó í Einarsnesi og var uppi frá um 1649 til 1718. Hann var sonur Sigurðar lögmanns Jónssonar og Kristínar Jónsdóttur í Einarsnesi og varð sýslumaðurinn í Mýrasýslu 1676. Klausunni fylgja ljóðlínur á latínu: „Duc me, nec sine me, sine te, Deus Optim[e duci] / Nam, duce me, pereo, te duce salvus [ero]“.
Latínukunnáttan bendir til þess að hér var ekki á ferð hvaða Sigurður Björnsson sem er heldur skólagenginn maður. Eini efnamaðurinn sem bar þetta nafn við upphaf 18. aldar var Sigurður Björnsson lögmaður (1643–1723). Hann var mágur Jóns sýslumanns, en Sigurður og Ragnheiður systir Jóns (1648–1727) giftust haustið 1677. Brynjólfur biskup arfleiddi foreldra Ragnheiðar, þau Torfa Jónsson og Sigríði Halldórsdóttur, að flestöllum eignum sínum. Þar á meðal voru mörg handrit, m.a. annállinn Lbs. 40 fol., og nokkrar bréfabækur biskupsins sem féllu síðar í hlut Ragnheiðar. Jón Sigurðsson gaf Árna Magnússyni bréfabækurnar en varaði hann við því að „það skuli ég alleina þegja þar með [vegna konu sinnar] og láta bíða um dal og hól“ (AM 275 fol.). Eitt bindi úr bréfabókasafni Brynjólfs (AM 268 fol.) var í láni um tíma hjá Sigurði Björnssyni mági Jóns sem bendir til þess að þeir skiptust á bókum. Hvort Jón Sigurðsson hafi skilað handritinu SÁM 191 vitum við ekki en að öllum líkindum var S.B.S. enginn annar en lögmaðurinn sjálfur.
Frá Einarsnesi í Borgarfirði til Kingston í Ontario.
Síðast breytt 23. október 2024