Skip to main content

Pistlar

Gamli sáttmáli — AM 45 8vo

Handritið AM 45 8vo er lítil lögbók á skinni sem mikið vantar í, en talið er að hún hafi verið skrifuð á síðari hluta 16. aldar. Handritið hefur að geyma brot af Jónsbók á 8 blöðum, en síðan kemur lagalegt efni á 40 blöðum, þ.e. tvær tilskipanir Vilhjálms kardínála í íslenskri þýðingu, Gamli sáttmáli svonefndur í tveimur gerðum, lagaformálar, réttarbót Kristjáns 2. frá 1507, Alþingissamþykkt um vinnufólk frá 1404, eftirmáli Magnúsar lagabætis Hákonarsonar við norsku landslögin, registur yfir Jónsbók og réttarbætur konunga frá 13. og 14. öld. Það vantar aftan eða framan á suma textana.

Aðalefni þessarar bókar hefur verið Jónsbók sem gilti sem lög Íslendinga frá árinu 1281 langt fram á 17. öld — og raunar eru sum ákvæði hennar enn í gildi. Því miður er megnið af Jónsbók týnt úr þessu handriti en það hlýtur upphaflega að hafa verið mun stærra. Jónsbók ein og sér hefði líklega tekið yfir vel á annað hundrað blöð og handritið hefði þá ef til vill verið um 200 blöð, en nú eru aðeins 48 blöð varðveitt af því.

Margt af öðru efni handritsins fylgir oft Jónsbók, svo sem tilskipanir, lagaformálar, réttarbætur og registur lögbókarinnar. Og textarnir tveir sem kallast „Udkast til Islændingernes ʻsáttmáliʼ med kong Håkon Håkonssön“ og „Islændingernes ʻsáttmáliʼ af 1302“ í handritaskrá Árnasafns, sem Kristian Kålund tók saman seint á 19. öld, fylgja oft Jónsbók í handritum frá 15. og 16. öld. Þarna er um að ræða Gissurarsáttmála og Gamla sáttmála sem svo hafa verið kallaðir. Samkvæmt hefð hefur verið talið að Íslendingar hafi gert sáttmála við fulltrúa konungs á árunum 1262–64 þegar íslenskir þingfulltrúar sóru Hákoni gamla Hákonarsyni Noregskonungi þegnskap og skatt. Jón Sigurðsson taldi að sáttmálinn hafi verið gerður við konung einan og því við konung einan að semja um aukna sjálfstjórn handa Íslendingum þegar konungur afsalaði sér einveldi árið 1849 — en ekki þing eða ríkisstjórn Danmerkur. Af þeim sökum er handrit með Gissurarsáttmála haft á sýningu um fullveldi Íslands í Listasafni Íslands (17. júlí – 16. desember 2018).

Fræðimenn hefur greint á um gerðir þessara sáttmála og eru ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum. Jón Sigurðsson taldi að Gissurarsáttmáli hefði verið gerður árið 1262 og árið 1263 hefði Annar sáttmáli verið gerður. Gamli sáttmáli hefði svo verið gerður árið 1264 og endurnýjaður árið 1302. Guðni Jónsson var þessu ósammála og taldi að Gissurarsáttmáli hefði verið gerður á árunum 1262–64 en Gamli sáttmáli árið 1302, þ.e. bæði Annar sáttmáli og Gamli sáttmáli (eldri gerð) sem Jón kallaði svo. Patricia Pires Boulhosa hefur hins vegar snúið rækilega upp á hugmyndir Íslendinga um fortíðina og telur að allir sáttmálarnir séu tilbúningur frá 15. öld og hafi verið hluti af pólitískri baráttu íslenskra valdsmanna við danska konungsvaldið.

 

 

Birt þann 1. desember 2018
Síðast breytt 24. október 2023