„Ég kann langar sögur um kónga og drottningar og allan andskotann,“ segir Friðfinnur Runólfsson í upptöku í þjóðfræðasafni Árnastofnunar. Hann er ekkert að ýkja því hann er ekki einungis sá karl sem segir flest ævintýri inn á segulband heldur er ljóst af viðtölunum við hann og öðrum heimildum að hann kunni og hefði getað sagt ótal sögur í viðbót. Friðfinnur var fæddur árið 1881 í Jórvíkurhjáleigu í Hjaltastaðaþinghá, tólfti í röð átján systkina. Heimilið var mjög fátækt og Friðfinnur fékk beinkröm sem barn. Hann var seinn til gangs og fékk í raun aldrei fullan styrk, hvorki í fótum né höndum, og þar af leiðandi ekki fulla starfsorku. Þó vann hann um tíma við hafnargerð á Borgarfirði eystra og í vegavinnu, en lengst af var hann vinnumaður á ýmsum bæjum eystra. Friðfinnur kvæntist aldrei og átti enga afkomendur. Síðustu æviárin var hann blindur, en hann lést á Elliheimilinu Grund árið 1970. Auk frásagnargáfunnar var honum gefin hagmælska og nokkur kvæða hans voru prentuð 1989.
Í þjóðfræðisafninu eru fjórar upptökur þar sem talað er við Friðfinn og hann segir sögur. Jón Samsonarson hitti hann sumurin 1963, 1964 og 1966 á Elliheimilinu Ási í Hveragerði og tók samtals upp u.þ.b. 14 klukkustunda efni. Þar segir Friðfinnur 19 sögur, en fer einnig með alls konar kveðskap, segir frá sjálfum sér og foreldrum sínum og lýsir ýmsum gömlum þjóðháttum. Fjórða upptakan er gerð af Þórði Tómassyni en hann hljóðritaði aðeins eina sögu. Friðfinnur segir jöfnum höndum sögur sem hann hefur lært af bókum eða heyrt sagðar.
Hægt að gera sér mynd af sálarlífi Friðfinns með því að hlusta á upptökurnar og viðtal sem var útvarpað 1961. Beinkrömin sem hann þjáðist af hafði mikil áhrif á æsku hans. Hann gat ekki tekið þátt í leikjum barnanna og var því oftast með móður sinni, sem honum hefur þótt mjög vænt um. Föður sinn segir Friðfinnur aftur á móti hafa verið harðan og hann segir frá atviki þar sem faðir hans lamdi hann þegar honum þótti drengurinn ekki nógu duglegur að vinna.
Friðfinnur hefur frá bernsku tileinkað sér sögur sem hann ólst upp við og hann hefur síðan smám saman, meðvitað og ómeðvitað, valið sér sögur sem falla að hans eigin viðhorfum og lífsreynslu. Hann er þó trúr sagnahefðinni með því að halda föstu orðalagi og frásagnarliðum sem eru vel þekkt úr ævintýrum, en um leið gefur hann sögunum sinn eigin stíl. Í lok sögunnar af Skógarhvít rétt nær Sigurður kóngssonur heim í ríki föður síns til þess að bjarga fóstru sinni frá því að verða brennd á báli fyrir að vera völd að hvarfi hans. Þessi endir sögunnar er þekktur úr sögum sömu gerðar en venjulega er ekki gert eins mikið úr reiði Sigurðar við föður sinn og Friðfinnur gerir. Sigurður er svo reiður að hann ætlar að fara og aldrei koma aftur en móðir hans blíðkar hann og sættir þá feðga að lokum. Þá kemur í ljós að kóngurinn er ekki samþykkur ráðahag sonar síns en lætur þó gott heita þegar hann sér að hann ræður ekki við Sigurð. Þessi endir sögunnar byggist vafalaust á samskiptum Friðfinns við foreldra sína. Þarna birtist beiskleiki hans vegna harðneskju föður hans og ekki síður óskadraumur um að verða sá sterkari í sambandinu.
Sagan af henni Skógarhvít (1 klst 7 mín 42 sek)
Síðast breytt 24. október 2023