Skip to main content

Pistlar

„Fótur undir Fótarfæti“ og endurtekningar í örnefnum

„Fótur undir Fótarfæti“: þar elst upp Ólafur Kárason Ljósvíkingur í Heimsljósi Halldórs Laxness, og er ekki laust við að í nafngiftinni djarfi fyrir háði hjá skáldinu. Því að þótt þessi staður sé að vísu ekki til í raun og veru geymir íslensk örnefnaflóra mörg dæmi um samsett nöfn þar sem sami liður er endurtekinn. Talsvert er um þríliða samsetningar eins og Vatnshólsvatn, Fossárfoss og Gilsárgil, þar sem staður A er kenndur við stað B en síðan staður B við stað A svo út kemur mynstrið BAB. Til dæmis er Hóll (A) þá kenndur við vatn (B), Vatnshóll, en vatnið (B) svo nefnt eftir hólnum (A), Vatnshólsvatn. Hans Kuhn telur upp fleiri dæmi um svona nöfn í grein um vestfirsk örnefni sem birtist árið 1951 í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1949–50 (bls. 25). Sjaldgæfari eru nöfn með mynstrinu AAB, t.d. Dalsdalsá í landi Lokinhamra í Arnarfirði, eða ABB, t.d. Árnanesnes í Nesjasveit. Einnig er töluvert um tvíliða samsetningar með endurtekinn lið, s.s. Staðarstaður á Snæfellsnesi, Hornshorn við Skessuhorn, Dalsdalur í Arnarfirði og víðar, og fleiri dæmi sem tilgreind verða hér á eftir.

Þýskaland, útsýni yfir Baden-Baden frá Merkur-fjalli
A.Savin

Það er sem sagt af nógu að taka í þessum efnum. Í dæminu í upphafi, Fótur undir Fótarfæti, er endurtekningin reyndar sýnu meira áberandi. Þar fara saman ósamsett bæjarnafn (Fótur) og samsett nafn á fjalli (Fótarfótur), allt myndað með sama orðinu (fótur). Slíkar nafngiftir eru margar á Íslandi og fyrir nokkru tók ég að rita hjá mér dæmi eftir því sem þau birtust mér. Í fyrstu bættist hægt á listann, en hann lengdist svo um munaði þegar auglýst var (þó ekki af mér) eftir slíkum nöfnum í hópi á samfélagsmiðli tileinkuðum örnefnum. Nú lítur listinn svo út:

Öxl og Axlaröxl (í Þingi í Húnavatnssýslu)
Bakki og Bakkabakkar (á Norðfirði, tengt þeim er götunafnið Bakkabakki í Neskaupstað)
Björg og Bjargabjörg (í Skagahreppi)
Borg og Borgarborg (bæði á Mýrum og í Miklaholtshreppi)
Brekku-/Brekknabæir og Brekknabrekka (á Skagaströnd)
Dalir og Daladalur (bæði í Fáskrúðsfirði og Mjóafirði fyrir austan)
Djúpidalur og Dalsdalur (Djúpidalur í Blönduhlíð í Skagafirði)
(Syðri-)Ey og Eyjarey (á Skagaströnd)
Fjöll og Fjallafjöll (Fjöll í Kelduhverfi í Þingeyjarsýslu)
Gil og Gilsgil (í Öxnadal)
Heiði og Heiðarheiði (í Mýrdal)
Hnjúkur og Hnjúkshnjúkur (í Vatnsdal í Húnavatnssýslu)
Hólar og Hólahólar (í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, á Snæfellsnesi, í Fannardal í Norðfirði og í Öxnadal)
Hraun og Hraunshraun (í Öxnadal)
Lón og Lónslón (í Kelduhverfi í Þingeyjarsýslu)
Sandar og Sandasandur (í Miðfirði í Húnavatnssýslu)
Geitaskarð og Skarðsskarð (í Langadal í Húnavatnssýslu)
Tindar og Tindatindur (í Svínavatnshreppi í Húnavatnssýslu)
Tjörn og Tjarnartjörn (bæði í Svarfaðardal og í Aðaldal)
Víkur og Víknavík (í Skagahreppi)

Sjálfsagt eru dæmin fleiri í raun. Almennt er talið að nöfn eins og þessi verði til á þann hátt að fyrst fái bær nafn af náttúrufyrirbæri í nágrenninu, þá er t.d. bærinn Borg kenndur við samnefnda klettahæð, en síðan sé farið að kenna náttúrufyrirbærið við bæinn, t.d. kalla klettahæðina Borgarborg. Þrjú af dæmunum á listanum falla reyndar ekki alveg að mynstrinu. Annars vegar eru það dæmin með bæjarnöfnin Djúpidalur og Geitaskarð, en þar eru nöfnin Dalsdalur og (líklega einnig) Skarðsskarð orðin til út frá styttingunum Dalur og Skarð (notuð bæði um bæinn og náttúrufyrirbærið). Hins vegar er Brekknabrekka þar sem bæjaþyrping er kennd við brekku sem síðan er kennd við bæina. Þá má nefna að í örnefnaskrá Gils í Öxnadal er nafnið Gilsárgil í stað Gilsgils (sem er í örnefnagrunni Landmælinga Íslands) og lítur út fyrir að þarna hafi miðliðurinn fallið brott.

Þessi örnefni eru öll mynduð af lifandi og algengum landfræðilegum samnöfnum, sbr. hóll, dalur, öxl, tindur, tjörn, fjall o.s.frv. Af slíkum samnöfnum eru oft mynduð ósamsett náttúrunöfn á borð við Hóll, Dalur, Öxl o.s.frv. Gera má ráð fyrir að þegar samfélagi heimafólks á einum bæ sleppir gæti tilhneigingar til að afmarka slík nöfn nánar, t.d. með því að bæta við kenningu til jarðarinnar sem viðkomandi staður tilheyrir. Jafnframt má vænta þess að í mörgum tilvikum rati þessar lengri gerðir nafnanna frekar í örnefnaskrár. Dæmi af handahófi eru nöfnin Hringversbrúnir, Hringversfjall, Hringversflói og Hringverslækur í örnefnaskrá Hringvers í Viðvíkurhreppi, Skagafirði. Trúlega hefur tíðkast í máli heimafólks í Hringveri að tala um Brúnir, Fjall, Flóa og Læk en lengri nöfnin frekar verið notuð í víðara málsamfélagi sveitarinnar.

Sennilega eru nöfnin á listanum hér að framan orðin til á svipaðan hátt í málsamfélagi byggðarlaga fremur en einstakra bæja. Í sumum tilvikum eru nöfnin ekki í örnefnaskrám jarðanna heldur er þar einungis ósamsett nafn (samsettu nöfnin koma þá fyrir í öðrum heimildum). Til dæmis eru Lónslón og Fjallafjöll ekki í örnefnaskrám nágrannabæjanna Lóns og Fjalla í Kelduhverfi, en í stað þeirra Lón og Fjöll. Sömuleiðis er í örnefnaskrá Tinda aðeins getið um Tindinn en ekki Tindatind. Bóndi á einum bæjanna á listanum að ofan tjáði mér að hann vildi helst að samsetta nafnið með tvítekningunni hyrfi, fráleitt væri að kenna náttúrufyrirbærið við bæinn sem sjálfur drægi nafn af náttúrufyrirbærinu. Loks má taka sem dæmi bæinn Djúpadal í Blönduhlíð sem kenndur er við samnefndan dal (sem þó eru heimildir um að áður hafi heitið Djúpárdalur, en það er önnur saga). Í örnefnaskrá eftir Nönnu Rögnvaldardóttur frá Djúpadal segir að í máli heimafólks sé hvor um sig, bærinn og dalurinn, aðeins kallaður Dalur, en dalurinn sé þó einnig nefndur Dalsdalur og er þá væntanlega átt við hið stærra málsamfélag sveitarinnar (Nafnið Djúpidalur er aftur á móti aðeins að finna í bókum að sögn Nönnu).

Líkt og rætt er í pistli eftir Jónínu Hafsteinsdóttur hér á vef Árnastofnunar („Hestur“) hefur verið bent á að fyrirmyndin að Fæti undir Fótarfæti kunni að vera bærinn Fótur undir Hesti í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Hann dregur nafn af nesi sem gengur út úr fjallinu og nefnist Folafótur. Kunnugt er að Halldór sótti efnivið í dagbækur Magnúsar Hj. Magnússonar sem að hluta ólst upp á bænum Hesti undir fjallinu Hesti í Önundarfirði.

Ólíkt náttúrunöfnum eins og Dalur, Hóll og Tindur, sem eru mynduð af landfræðilegum samnöfnum, eru nöfn eins og Fótur og Hestur líkinganöfn, tilefni nafngiftarinnar er lögun fyrirbærisins sem um ræðir. Í slíkum tilvikum er væntanlega sjaldgæfara að sama nafn komi fyrir oftar en einu sinni í sömu sveit. Þess vegna ætti sjaldnar að vera þörf fyrir nánari afmörkun, t.d. með kenningu til bæjar. Um slíkt eru þó reyndar dæmi: í Mývatnssveit er Helluvaðsfótur við bæinn Helluvað og á Vestfjörðum fjallið Botnshestur, væntanlega kennt við bæinn Botn í Geirþjófsfirði. Því má segja að Fótarfótur væri óvenjuleg nafngift en þó möguleg.

 

Birt þann 24. apríl 2020
Síðast breytt 24. október 2023