Skip to main content

Enska í almannarými

Skilti á Keflavíkurflugvelli
Isavia

Á síðustu árum hefur sýnileiki ensku í almannarými hér á landi aukist.[1] Enska verður sífellt meira áberandi á matseðlum, vefsíðum, í upplýsingaefni og jafnvel opinberum skiltum eða auglýsingum um störf.[2] Íslensk tunga þokar sífellt meir fyrir ensku. Hugsunin, ef einhver er, er líklega að það nægi að hafa ensku þar sem Íslendingar skilji hana hvort sem er. Fáir berjast gegn þessu og andvaraleysi ríkir þótt undantekningar séu vissulega frá því.

Árið 2016 voru sett upp ný upplýsingaskilti á Keflavíkurflugvelli og enska þar höfð fyrir ofan íslensku. Þetta var rökstutt með því að fleiri erlendir farþegar færu um völlinn en íslenskir. Fyrirtækið Isavia ohf., sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, rekur Keflavíkurflugvöll. Málnefndin kvartaði yfir þessu og lesa má um bréfaskriftir í tengslum við þetta á ábendingasíðu hennar.[3] Í bréfi nefndarinnar 13. desember 2017 til nokkurra ráðherra stendur: „[M]ikilvægt [er] að þessu sé breytt og að stjórnvöld taki af öll tvímæli um að þau ætli að framfylgja lögum um íslenska tungu nr. 61/2011 þar sem segir í 1. grein: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Íslensk málnefnd telur að þessi breyting væri mikilvægur táknrænn gjörningur og yfirlýsing um að staðið sé vörð um íslensku.“ Þrátt fyrir þetta og fleiri mótmæli hefur skiltunum enn ekki verið breytt.

„It's like milk but made for humans“ sem síðar var þýtt sem „eins og mjólk en gerð fyrir fólk“.
Oatly

Svipað er að segja um notkun ensku í auglýsingum. Í 6. grein laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 stendur skýrt: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Nýlega var bent á dæmi um auglýsingar á ensku ætlaðar Íslendingum sem eins og Eiríkur Rögnvaldsson bendir hér á ættu að vera ólöglegar. Samkvæmt svarbréfi frá Neytendastofu við fyrirspurn Eiríks fyrir fimm árum um annað svipað mál hefur stofnunin aldrei gripið til aðgerða vegna þessa („Stofnunin hefur hingað til ekki talið tilefni til aðgerða vegna slíkra auglýsinga“). Lagabókstafurinn er því einnig þarna orðin tóm.

Lög sem eiga að vernda íslenska tungu og stöðu hennar gera það því í rauninni ekki.

Ef til vill finnst fólki lítilvæg röð tungumála á skiltum og sýnileiki ensku en allt grefur þetta þó hægt og hægt undan stöðu þjóðtungunnar. Guðrún Kvaran sagði í viðtali 2017 um Isavia-málið: „Þetta getur haft þau áhrif að fólki fer að finnast sjálfsagt að hafa ensku sem allra víðast og grefur undan notkun íslensku. Við kannski lendum í því að íslenskan verði bara töluð í eldhúsinu heima en alls staðar annars staðar verði dekrað við útlendinga og enska notuð í staðinn.“[4]

Öllu skiptir nú að almenningur vakni af værum blundi og láti sig málið varða. Fljótum ekki sofandi að feigðarósi.

 

[1] Orðabókarskilgreining á almannarými er „svæði sem er opið almenningi, einkum utanhúss, opinbert rými“. Hér er það hugsað í víðara samhengi, til dæmis rafrænt almannarými á vefsíðum o.s.frv.

[2] Pistlahöfundur kannaði til dæmis nýlega upplýsingar um reiðhjól á vefsíðum nokkurra hjólaverslana. Á síðum Arnarins, Marksins, Tri og Kríunnar eru allar ítarupplýsingar um einstakar hjólategundir á ensku. Reiðhjólaverzlunin Berlin er hins vegar með slíkar upplýsingar á íslensku.

[3] Íslensk málnefnd sendi bréf til Isavia (29. apríl 2016), innanríkisráðuneytis (17. júní 2016 með afriti til Isavia), samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis (16. október 2016) og til forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra (13. desember 2017) og gerði athugasemdir við þessa skipan. Innanríkisráðuneyti svaraði nefndinni 18. október 2017 (vegna bréfs nefndarinnar 17. júní 2016) og tók undir ábendingar hennar þótt það teldi að 8. grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 ætti ekki við þarna en hún hljóðar svo: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“

[4] Megináherslan í málstefnu Íslenskrar málnefndar frá 2009 Íslensku til alls var einmitt á „að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags“.

Birt þann 12.09.2022
Heimildir

Ábendingar og umsagnir Íslenskrar málnefndar. https://islenskan.is/abendingar.

Breytingar á merkingum brottfararhliða á Keflavíkurflugvelli. 6. apríl 2016. Sótt af https://www.isavia.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/breytingar-a-merkingum-brottfararhlida-a-keflavikurflugvelli.

Eiríkur Rögnvaldsson. Auglýsingar á ensku eru oftast ólöglegar. 24. ágúst 2022. Sótt af https://www.facebook.com/groups/malspjall/posts/937746314286108/

Enskan í forgrunni á nýjum upplýsingaskiltum á Keflavíkurflugvelli. Vísir 13. febrúar 2016. https://www.visir.is/g/2016160219484/enskan-i-forgrunni-a-nyjum-upplysingaskiltum-a-keflavikurflugvelli.

Íslensk málnefnd. 2009. Íslenska til alls. Tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu samþykktar á Alþingi 12. mars 2009. Sótt af https://rafhladan.is/handle/10802/6606.

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://islenskordabok.is/.

Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005.

Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011.

Sjaldnast einbeittur brotavilji. Morgunblaðið 25. ágúst 2022. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/08/25/sjaldnast_einbeittur_brotavilji/.