Skip to main content

Pistlar

dagskrá

Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, sem nú er í smíðum við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, merkir nafnorðið dagskrá ‘listi yfir atriði sem tekin eru fyrir hvert af öðru, í útvarpi, sjónvarpi, á fundi eða skemmtun’. Orðið er nokkuð algengt í íslensku nútímamáli og ef leitað er í Risamálheildinni birtast nálægt 150.000 dæmi úr ýmiss konar textum, aðallega Alþingisræðum og fréttatextum. dagskrá er þó ekkert sérstaklega gamalt orð í íslensku og samkvæmt ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmið sem varðveist hefur á prenti frá árinu 1851.

  • Ætlunarverk þíngsins á hverjum degi og fundatími skal vera ákveðið fyrirfram; það heitir dagskrá (Tíðindi frá þjóðfundi Íslendínga 1851)

Orðið virðist vera eins konar tökuþýðing á danska orðinu dagsorden sem er samsett úr nafnorðunum dag ‘dagur’ og orden ‘röð, skipulag’. Í dönsku er orðið fyrst og fremst notað í tengslum við formleg fundarsköp, t.d. um dagskrá þjóðþings eins og í dæminu hér að framan. dagsorden kemur þó einnig fyrir í yfirfærðri merkingu og vísar þá til málefna sem eru ofarlega á baugi í samfélaginu hverju sinni. Í íslensku eru elstu dæmin um notkun í yfirfærðri merkingu frá lokum 19. aldar.

  • þau mál, sem nú eru á dagskránni meðal hinna menntuðu þjóða. (Austri 1891)
  • Nú er það mál efst á dagskrá hjá öllum […] stjórnvitringum (Fjallkonan 1885)
  • greinir […] um ýmislegt, sem er á dagskrá almennings. (Þjóðólfur 1848–1912) 

Fljótlega eftir að orðið sást fyrst á prenti fór þó einnig að bera á annars konar merkingu í íslensku sem ekki þekkist í dönsku, þ.e. þegar dagskrá er notað yfir daglegt skipulag og tímaáætlanir. Til að mynda birtist í Stjórnartíðindum árið 1874 undir fyrirsögninni „Dagskrá fyrir fanga í hegningarhúsinu í Reykjavík“ nákvæm útlistun á degi í lífi fanga. 

Fyrsta dagskrá Ríkisútvarpsins í Morgunblaðinu 21. desember 1930

Nokkru síðar birtist svo fyrsta dæmið um notkun orðsins í tengslum við afþreyingu. Dæmið birtist í Þrótti, tímariti Íþróttafélags Reykjavíkur, sem gefið var út í tilefni af hátíðarhöldum þann 17. júní 1919 þar sem boðið var upp á kórsöng, Íslandsglímu og sitthvað fleira. Á þessum tíma virðist orðið þó enn ekki hafa náð almennri útbreiðslu í tengslum við hátíðarhöld. Til að mynda virðist tilhögunarskrá hafa verið notað í sömu merkingu, aðallega í blöðum og tímaritum á Norðurlandi. Að lokum varð þó stofnun Ríkisútvarpsins 1930 til þess að orðið dagskrá festi sig rækilega í sessi sem orð yfir tilhögun skemmtiatriða.

Merkingarleg þróun tökuþýðingarinnar dagskrá sýnir glöggt hvernig orð sem fengin eru að láni eða mynduð að erlendri fyrirmynd missa fljótt tengslin við orðið í upprunamálinu og halda áfram að þróast í samræmi við þarfir tökumálsins. Þannig hefur orðið dagskrá fest sig í sessi sem orð sem notað er bæði í tengslum við formleg fundarsköp (da. dagsorden) og skipulagða afþreyingu af ýmsu tagi (da. program). Íslenska orðið hefur síðan í áranna rás verið notað til að mynda fjölmörg önnur nýyrði, t.d. dagskrárgerð, hátíðardagskrá og dagskrárvald.

 

 

 

Birt þann 2. mars 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Den Danske Ordbog. https://ordnet.dk/ddo.
Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Risamálheildin. 2017/2018. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ritmálssafn Orðabókar Háskóla Íslands. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Tímarit.is.