Þegar skrifaðar eru greinar um tiltekin handrit er freistandi að velja þau sem eru stór eða glæsileg eða eiga sér forvitnilega eigendasögu. Í þetta skipti hef ég þó valið annars konar handrit. Það á sér ekkert nafn annað en hið óþjála safnmark AM 167 b VI 8vo. Það hefur engar litaðar fyrirsagnir eða skreytta upphafsstafi eða neina sundurgerð í framsetningu. Handritaskrár segja skrifara óþekktan og geyma engan fróðleik um það hvaðan eða hvenær handritið hafi borist í safn Árna Magnússonar. Handritið er ekki annað en 34 blöð frá 17. öld bundin saman í einfalt hefti 1963 og varðveitt í öskju með öðrum svipuðum brotum. Ekki er gott að segja hversu þykkt handritið hefur upphaflega verið því að það vantar framan af því.
Þetta handrit er sem sagt enginn sýningargripur en það hefur samt sitt gildi og raunar ekki lítið því að það varðveitir athyglisverð kvæði. Á fyrsta varðveitta blaðinu eru síðustu tvær vísurnar í vísnaflokki um Jón biskup Arason og syni hans eftir Ólaf Tómasson (1532–1595) lögréttumann. Ólafur ólst upp á Hólum hjá móðurömmu sinni Helgu en hún var fylgikona Jóns biskups Arasonar. Í kvæðinu talar Ólafur fagurlega um fóstra sinn Jón biskup og syni hans og liggur þungt orð til banamanna þeirra. Síðasta vísa kvæðisins er með þessum hætti í 167 og með henni skrifar skáldið undir verkið:
Hringurinn dökkur og höfnin hrein
hvörs kyns gamanið fríða,
lofðung[s] eign og leiðing ein,
er leit sá margan ríða,
gjörði gemlis sótt.
Kæran ekki kallsi mig
þó kvæði sé ekki frótt,
því valda fjúkin feiknarlig
og frostið um bjarnar nótt.
Í þessari vísu eru tvær kenningar um veturinn – hann er „bjarnar nótt“ því að birnir leggjast í híði og hann er „gemlis sótt“ því að gemlir merkir „snákur“ og þeir eru ekki sem hressastir heldur á veturna.
Upptalningin í fyrstu fimm línunum er gáta. Þar hefur skáldið falið eða bundið nafn sitt í orðum og orðasamböndum sem vísa til rúnabókstafanna og heita þeirra en slíkar nafnagátur voru algengar öldum saman. Þannig er „lofðungs eign“ væntanlega fé en það er heiti f-rúnarinnar. Síðan mundi „leiðing“ vera það sama og „áleiðing“, rigningarskúr en u-rúnin heitir úr og það orð merkir „rigning“. Síðasta rúnin er reið og til hennar er vísað með orðinu „ríða“. Síðustu stafir nafnsins eru þá fur. Fyrri þrír stafirnir eru erfiðari. Ætla mætti að „hringurinn dökkur“ vísaði til ós-rúnarinnar en mig skortir hugkvæmni til að koma því heim og saman. Nafnagátur af þessu tagi geta reyndar verið býsna langsóttar og hafa fjarri því verið fullrannsakaðar. Í 167 hafa bókstafirnir OLAFUR verið skrifaðir á spássíuna til hægri við hlið viðeigandi vísuorða.
Annar textinn í handritinu eru Sólarljóð, leiðslukvæði frá miðöldum þar sem skyggnst er inn í handanheima af mikilli skáldlegri innlifun. En þótt textinn sé gamall eru ekki varðveitt nein handrit af kvæðinu eldri en frá 17. öld og hér hefur 167 það sem kallað er textagildi en í því felst að það er ekki afrit af varðveittum handritum heldur sjálfstæð heimild um textann. Í nýjustu fræðilegu útgáfu kvæðisins er 167 eitt af níu handritum sem notuð eru til að byggja textann á. Vísa 79 í kvæðinu er þar prentuð svo:
Hér eru þær rúnir,
sem ristit hafa
Njarðar dætr níu,
Böðveig in elzta
ok Kreppvör in yngsta
ok þeira systr sjau.
Í handritunum er nafn fyrri systurinnar á ýmsa vegu – eitt handrit hefur vissulega Böðveig en hin hafa Baðveng, Baugveig, Skaðveig, Baugvör og Bauðveng. Síðasttalda útgáfan er það sem stendur í 167 og einnig í Löngu-Eddu, AM 738 4to. Þetta er eitt dæmi af mörgum um að þessi tvö handrit Sólarljóða hafi sameiginlegan leshátt – þau hljóta að vera skyld með einhverjum hætti.
Þriðji textinn í handritinu og sá lengsti er Hugdæla eftir Hall Magnússon (f. um 1530, d. 1601) sem ort mun árið 1582. Hallur var skáld gott en átti heldur stormasama ævi og stóð lengi í illdeilum og málaferlum. Í Hugdælu gerir hann upp sakirnar við ýmsa andstæðinga sína. Upphafið er hins vegar háfleygt. Fyrstu þrjár vísurnar eru svona í 167:
1. Guð almáttugur,
sem gjört hefur
prýði himnanna
og plánetur allar,
sólina og tunglið
með sinni náttúru,
hafið með hauðri,
hann hjálpi oss öllum.
2. Guð hefur himininn
gjört að staðfesta
og verkað allan
eftir vild sinni,
loftið og löndin,
líkavel sjóinn,
myndað það gjörvallt
í máta réttan.
3. Guð þar eftir
gjörði að setja
festinguna
fold upp yfir;
lét þar í stjörnur
og lagði þeim göngu,
tíma og stundir
svo telja mætti.
Hugdæla er meira en 300 erindi og ekki er til annað kvæði eldra og lengra undir ljúflingslagi eða fornyrðislagi. Hún er til í mörgum handritum en hefur aldrei verið prentuð og væri þakkarvert ef einhver tæki sér fyrir hendur að búa hana til útgáfu.
Síðast breytt 24. október 2023