Skip to main content

Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals

Í verkefninu Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals er meginmarkmiðið að auka þekkingu á máli og málnotkun á 19. öld með rannsóknum á textum af ólíku tagi (empírísk rannsókn). Áhersla er lögð á ýmiss konar tilbrigði í máli sem spretta af málbreytingum og dreifing afbrigðanna er skoðuð í ljósi málkerfislegra og málfélagslegra þátta. Einnig eru skoðuð viðhorf til máls og málþróunar sem birtast í umræðum um þau efni í samtímaheimildum og endurspeglast m.a. í kennslubókum svo og aðrir þættir sem stuðla að málstöðlun (e. language standardization). Hverjar voru forsendur þess málstaðals sem var að byrja að þróast á 19. öld, annars vegar málfræðilegar og málfélagslegar og hins vegar hugmyndafræðilegar og pólitískar? Hversu mikil áhrif hafði málumræðan á málnotkun almennings og hvernig birtust þau í raungögnum?

Verkefnið er unnið í samstarfi fræðimanna við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands, Uppsalaháskóla og Vrije Universiteit Brussel. Niðurstöður hafa verið birtar í fjölmörgum fyrirlestrum innan lands og utan, í lokaritgerðum við Háskóla Íslands og í greinum í ráðstefnuritum og tímaritum, þar á meðal í þemahefti tímaritsins Orð og tunga 19/2017. Þá er unnið að greinasafni á ensku um verkefnið.

Verkefnisstjórn

Ásta Svavarsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum; verkefnisstjóri
Eiríkur Rögnvaldsson, Háskóla Íslands
Guðrún Þórhallsdóttir, Háskóla Íslands
Haraldur Bernharðsson, Háskóla Íslands / Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Jóhannes B. Sigtryggsson, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Veturliði Óskarsson, Uppsalaháskóla
Wim Vandenbussche, Vrije Universiteit Brussel

Ráðgjafar

Ernst Håkon Jahr, Háskólanum í Agder
Tore Kristiansen, Lanchart / Kaupmannahafnarháskóla
Mats Thelander, Uppsalaháskóla

Styrkir

  • Verkefnisstyrkur úr Rannsóknarsjóði 2012–2014 (styrkur nr. 120646021/22).
  • Styrkir til einstakra verkþátta úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
  • Ferðir þátttakenda á ráðstefnur hafa m.a. verið styrktar af Sáttmálasjóði, Hagþenki, Uppsalaháskóla og Starfsmenntunarsjóði BHM.

Rannsóknarnet

  • HiSoN: Historical Sociolinguistics Network
  • SLICE: Standard Language Ideology in Contemporary Europe
  • N'CLAV: Nordic Collaboration on Language Variation Studies