Skip to main content

Verkefnislýsing

Verkefnið í hnotskurn

19. og 20. öld voru mikið breytingaskeið í íslensku samfélagi. Í upphafi tímabilsins var íslenska afskekkt minnihlutamál í Danaveldi en var í lok þess var hún orðin þjóðtunga í sjálfstæðu ríki sem þjónaði öllum þörfum samfélagsins. Slík stöðubreyting hlýtur að hafa áhrif á svipmót og notkun málsins. Vaxandi notkun þess á ólíkum sviðum kallaði á sameiginleg viðmið um góða málnotkun og málstöðlun í samræmi við þau. Meginviðfangsefni verkefnisins er að rannsaka tilurð slíkra viðmiða á 19. öld og málfræðilegar, málfélagslegar og hugmyndafræðilegar forsendur þess (hálf)opinbera málstaðals sem þá var að byrja að mótast.

Hugmyndir um íslenskt fyrirmyndarmál mótuðust mjög af fornmálinu og fólu m.a. í sér höfnun málafbrigða sem spruttu af síðari tíma breytingum og hreinsun málsins af erlendum áhrifum. Til grundvallar verkefninu liggja spurningar um eðli og framgang málbreytinga, bæði kerfislægra breytinga og þeirra sem spretta af sambúð við önnur mál, um tilbrigði í máli og samband þeirra við félagsmálfræðilega þætti og um áhrif málviðhorfa og málstýringar á þróun tungumálsins. Í brennidepli er spurning sem hefur almennt fræðilegt gildi: Er mögulegt að snúa málbreytingum við?

Rannsóknin er byggð á málgögnum frá 19. öld sem lítið hafa verið nýtt til málrannsókna áður: (1) safni einkabréfa, (2) safni texta úr blöðum og tímaritum, (3) sögulegum trjábanka. Bæði er litið til málnotkunar í textunum og til umræðna um tungumálið og trjábankinn nýtist einkum til setningafræðilegra rannsókna. Niðurstöðurnar auka og treysta þekkingu á íslensku máli á 19. öld, sem hingað til hefur furðulítið verið rannsakað, og bæta verulega skilning okkar á því hvort og hvernig unnt er að hafa áhrif á útbreiðslu málbreytinga með skipulegri málstýringu.

Verkefnið hófst í upphafi árs 2012 og naut styrks úr Rannsóknarsjóði á árunum 2012-2014.

Markmið

Markmið verkefnisins er að auka þekkingu okkar á einkennum og þróun málsins á 19. öld með rannsóknum á völdum atriðum eins og þau birtast í textum af ólíku tagi (empírísk rannsókn). Sérstök áhersla verður lögð á að skoða ýmiss konar tilbrigði í máli og málnotkun sem sprottin eru af málbreytingum og kanna dreifingu afbrigðanna í ljósi málkerfislegra og málfélagslegra þátta. Einnig verður hugað að viðhorfum til málsins á tímabilinu og umræðum sem miða að málstöðlun (e. language standardization). Eitt meginmarkmið verkefnisins er að kanna forsendur þess málstaðals sem er að byrja að þróast á 19. öld, t.d. í kennslubókum, annars vegar málfræðilegar og málfélagslegar forsendur og hins vegar hugmyndafræðilegar og pólitískar. Almennt er litið svo á að fornmálið eins og það birtist í útgáfum á klassískum sagnabókmenntum hafi verið aðalfyrirmynd þess málstaðals sem byrjað var að þróa á 19. öld og festist í sessi á fyrri hluta 20. aldar. Stundum hefur samtímamál alþýðu manna einnig verið nefnt í því sambandi en í raun hefur mál og málnotkun almennings á 19. öld lítið verið rannsakað. Það er eitt af markmiðum verkefnisins að bæta úr því. Loks verður hugað að því hvort og hversu mikil áhrif hægt er að hafa á þróun málsins með ýmiss konar skipulegum aðgerðum, einkum með það í huga hvort mögulegt sé að snúa við málbreytingum sem þegar eru gengnar í gegn.

Talið hefur verið að ákveðnar breytingar í íslensku hafi verið yfirstaðnar þegar lagt var til að horfið yrði til fyrra horfs og eldri afbrigðum haldið að málnotendum sem hinum "réttu", t.d. í kennslubókum. Dæmi um slíkt er beyging karlkynsorða eins og læknir þar sem stofnmyndin hafði verið endurtúlkuð og r-ið því farið að birtast í öllum beygingarmyndum (t.d. flt. læknirar). Því hefur verið haldið fram að eldri beygingin hafi verið horfin eða því sem næst í upphafi 19. aldar en síðan hafi eldri myndir verið endurvaktar. Var það í rauninni svo þegar grannt er skoðað? Það er meðal viðfangsefna rannsóknanna að leita svara við slíkum spurningum.