Skip to main content

Pistlar

Vattar-örnefni

Birtist upphaflega í febrúar 2007.

Orðið vöttur er til í fornu máli og merkti 'glófi, hanski' og með smækkunarendingu -lingur varð til vettlingur. Orðið er sama orðið og vante í Norðurlandamálum í sömu merkingu.

Mannsnafnið Vöttur kemur fram í Ynglinga sögu í Heimskringlu, þar sem segir að Vöttr og Hasti hétu jarlar Fróða konungs í Danmörku. Þjóðólfur skáld úr Hvini nefnir hann í vísu og beygir í ef. Vötts en ekki Vattar (Íslensk fornrit XXVI:54–55). Þetta orð eða nafn kemur fyrir í íslenskum örnefnum, sem ósamsett nafn á litlum hólma í Mývatni, eign Reykjahlíðar, eins og segir í vísu eftir Baldvin Stefánsson:

Klettur, Vöttur, Kálfshólmi,
Kiðey, Geitey, Sýreyjar.
Hlíðarvarpið allt það er,
Ölvishólmi og Byrgissker.

(Varpnytjar í Vogum, viðtal á Netinu við bræðurna í Vogum, þá Einar Gunnar og Kristján Friðrik Þórhallssyni sem Þorleifur, Baldur og Þórhallur tóku). Vöttur þessi er nefndur í Árbók Ferðafélags Íslands 2006, bls. 84, kort á bls. 96.

Auk þessa er vöttur í samsettum örnefnum:

Vattará er í landi Kvískerja í Öræfum í A-Skaft. Hún hét svo skv. gömlum máldögum (1343), en er nú oft nefnd Stórilækur.

Í Austur-Barðastrandarsýslu eru nokkur örnefni kennd við vött/Vött: Vattarfjörður er innfjörður úr Skálmarfirði í A-Barð. Nafnið e.t.v. til komið vegna lögunar, þar sem fjörðurinn líkist þumli á vett(ling)i, eða að fjörðurinn hefur upphaflega heitið *Vöttur. Vattardalur er inn af Vattarfirði. Vattardalsá er afrennsli Glámu um Vattardal í Vattarfjörð. Vattarfjall heitir fjallgarðurinn austan Vattarfjarðar í Múlahreppi. Fjallið hefur e.t.v. heitið Vöttur upphaflega en -fjalli hefur síðan verið bætt við til skilningsauka. Fjallið líkist e.t.v. vetti. Vattarnes er nafn á eyðibýli og nesi allbreiðu og nokkuð hálendu milli Skálmarfjarðar og Vattarfjarðar. Það er nefnt í skiptabréfi eftir Ólöfu Loftsdóttur, sem gert var á Skarði á Skarðsströnd 1480 (DI VI:256). Beint niður af bænum er Vattarhóll í túninu. Hann hefur e.t.v. í upphafi borið nafnið Vöttur, sbr. hólmann í Mývatni. Sagan segir að Vöttur sé heygður í Vattarhól, en Hörður bróðir hans á Hærrafelli, svo að hvor sæi til hins. Einnig er sagt að Vattarnes við Reyðarfjörð sé kennt við sama Vött. (Örnefnaskrá).

Vattarnes er einmitt nafn á nesi og bæjum við sunnanverðan Reyðarfjörð. Til er þjóðsaga um Vött og Kolfreyju. „Það er mál manna, að Vöttur sá, er nesið dregur nafn af, hafi þar fyrstur land numið.“ (Björn Bjarnason: Sagnakver II. Ísafirði 1903, bls. 31). Nokkur örnefni eru kennd við Vattarnes: VattarnesfjallVattarnesskriður og Vattarnesbót og viti er á Vattarnestanga. (Sjá Árbók Ferðafélags Íslands 2002, kort á bls. 248).

Örnefnið Vattey er nefnt í Auðunarmáldögum (1318/1639) í Fornbréfasafni (II:431) meðal eigna kirkjunnar á Grenjaðarstöðum og virðist vera í Laxá í Laxárdal. Eyjan er nú nefnd Votey og er þá líklegt að ritháttur í fornbréfasafni sé misritun fyrir Vátey og hafi ekkert með vött að gera.

Í Noregi eru nokkur Vattar-örnefni. Að fornu var Vattagarðr nafnið á bæ í Túnsbergi (DN XI:35 (frá 1343)), sem talið er af vöttur, í flt. vettir. Sami forliður er í Vattøya i Romsdal sem Oluf Rygh (Norske Gaardnavne XIII:55) ber saman við Vattedal og Vatterøen í Tysnes,Vattetveit í Ulvik, Vatterud í Sørum, Vetten í Furnes og Vetten-Ødegaarden í Stange (N.G. III:76). Rygh taldi að til hefði verið árnafnið Vött í Sørum, sem Vatterud væri dregið af (N.G. II:247). Sophus Bugge taldi að forliðurinn gæti átt við líkingu við vött í merkingunni 'hanski'.

Norskur áhugamaður um örnefni, Johan Ottesen, skrifar í tölvupósti 30. janúar um þá tilgátu sína að merking tengist vatni og jafnvel því að e-ð hverfi undir vatn, og því til styrkingar sé þýska orðið Watt sem merki 'strandsvæði milli flóðs og fjöru', þ.e.'leira', skylt so. vaða. Að vísu má finna íslensku Vattar-nöfnunum stað nærri sjó eða vatni, en orðið er þó talið skylt so. vinda 'snúa' fremur en vaða (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 1161).

Í íslensku hefur orðið njarðarvöttur verið til frá fornu fari um svampdýr í sjó (spongia) með þrískipta grein út frá einskonar hnefa. (Sverrir Tómasson í Lesið í hljóði fyrir Kristján Árnason sextugan 26. desember 2006, bls. 190–193). Hugsanlegt er að orðið hafi verið stytt í vött og þar sem hann rak oft og víða á fjörur hefur verið hægt að draga Vattar-nöfnin af honum.

Vöttur í Votmúla
Í örnefnaskrá um jörðina Votmúla í Flóa stendur þetta: „Sagt er að Vöttur sá er Votmúla byggði sé heygður þar. Gömul munnmæli herma að að reynt hafi verið að grafa í hólinn en ekki tekist því gröfurunum sýndist þá Votmúlabær standa í ljósum loga.“ Það er alkunna að bæjarnafnið er yfirleitt borið fram /vott-múli/ og hefur það e.t.v. ýtt undir þessa skýringarsögn. Orðið/nafnið vöttur hefur haft framburð til forna sem líktist orðinu vottur í framburði nú og því er ekki ólíklegt að Vöttur og Votmúli tengdist í hugum manna.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023