Skip to main content

Pistlar

Vala-örnefni

Birtist upphaflega í febrúar 2004.

Allmörg örnefni með Vala- að fyrra eða fyrsta lið eru í landinu. Verða nú rakin nokkur dæmi um þessi örnefni.

Valabakkar eru austan Breiðdalsár í S-Múl. (Árbók FÍ 2002, 179).
Valabjörg eru bær í Helgafellssveit og á Vatnsskarði í Skag. Valabjörg eru líka í Tunguhr. í N-Múl. og við Súlu í landi Núpsstaðar í Skaft. (Sókn., 164).
Valaborg er a.m.k. til sem klettaborg skammt frá Bassastöðum í Strand. og í túni Elliða í Snæf.
Valaból er hellir í norðaustanverðum Valahnúkum upp af Hafnarfirði. Hét áður Músarhellir.
Valadalur er bæjarnafn í Seyluhr. í Skag.
Valafell er a.m.k. á fjórum stöðum:
1) Graslaus borg á norðurbrún Fróðárheiðar á Snæf.
2) Hjá Gjóstu austanvert í Vonarskarði.
3) Fjall á Landmannaafrétti í Rang. og
4) Fell sunnanvert við Austurdal á Rangárvallaafrétti.

Valafjall, háls milli Bárðardals og Fnjóskadals í S-Þing.
Valafoss er í Selá í Snæf., eini fossinn sem hefur Vala- að fyrra lið.
Valagerði er bær í Seyluhr. í Skag.
Valagil eru mörg til, a.m.k. 24 hafa fundist við leit í söfnum Örnefnastofnunar.
Valá fellur í Eystri-Rangá í Rang., um Stóra-Valagil.
Valagilsá er á nokkrum stöðum.
1) Í Seljalandi inn af Súðavík í Álftafirði í V-Ís. Í Jarðabók Árna og Páls er sagt að hún grandi enginu með landbroti (VII:177).
2) Í gljúfragili og fellur til Norðurárdals í Skag. (í Jarðabók Árna og Páls er nafnið í flt. (IX:175)).
3) Austan Jökulsárgljúfurs í N-Þing.
4) Í Vesturárdal í Vopnafirði (Sýslulýsingar, 275).
5) Á mörkum Gauksstaða og Merkis á Jökuldal.
6) Á Eyvindardal í S-Múl.

Valagjá er rétt norðan við Landmannaleið í Rang., löng sprengigjá. Árbók Ferðafélags Íslands 1995, 97 (mynd).
Valahjalli (eða Völvuhjalli) er undir Snæfugli í S-Múl. (Örnefnaskrá Krossaness og Karlskála) (Íslandsbókin, 117).
Valahn(j)úkur er ekki óalgengt örnefni.
1) Milli Hestfjarðar og Skötufjarðar í N-Ís.
2) “Fell eitt hátt og uppdregið” í Þórsmörk í Rang. (Sókn.,78). Í bréfi frá 1755 er hann nefndur Valahraukur (Þórður Tómasson, Þórsmörk, 169).
3) Á Rangárvallaafrétti.
4) Í Neðridal í Biskupstungum.

Flt. Valahnúkar
1) Móbergstindar norður af Helgafelli í Gull. Á sjó hétu þeir Drellar. (Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir III:180).
2) Landfastur klettur eða standberg út í sjó að sunnanverðu en ávalir að norðanverðu, á mörkum Grindavíkur og Hafna í Gull.
3) Norðaustan við Heklu í Rang.

Valahnúar (Efri- og Neðri-Valahnúi) eru gróðurlaus holt í landi Heydals í Reykjarfjarðarhr. í N-Ís. en Valahnúfur eru fjallshnúkar í landi Eyrar í Skötufirði í N.Ís., milli Skötufjarðar og Hestfjarðar.
Valahraun var eyðibýli í Þykkvabæ (Jarðabók Árna og Páls I:379).
Valahrísar eru nefndir í sóknalýsingu Nessóknar í S-Þing. (Sókn.,185).
Valakirkja er við Ingólfsfjall í Árn.
Valaklettur er í túni Elliða í Snæf.
Valalækur er á Ytrahóli í Vestur-Landeyjum í Rang. sem oft flóði yfir landið (Sókn., 243)
Valaskriða er niður af Goðaborgargili í landi Teigarhorns (Árbók FÍ 2002, 111).
Valasnös er bjarg sem skagar fram í sjóinn við Hellna í Snæf. (Landið þitt).
Valatjörn er í Krosslandi í Austur-Landeyjum (Sókn., 223).
Valatunga er á Rangárvallaafrétti.

Nafnliðurinn Vala- getur verið af fjórum rótum: 1) nafnorðið valur ‘fálki’, 2) lýsingarorðið valur ‘ávalur’, 3) nafnorðið vali ‘ávali’ og 4) nafnorðið völur ‘stafur’.

Flestum dettur e.t.v. í hug að þessi örnefni séu kennd við fuglinn, en það er annað nafn á fálka. Um hreiður fálka segir Ævar Petersen að þau séu „í giljum, árgljúfrum eða klettum og þar er þungamiðja fálkaóðala ... sjaldnar sjávarhamrar, gjárveggir eða aðrir álíka staðir“ (Íslenskir fuglar, 126). Í lýsingu á Valahjalla er getið um mikið fuglalíf. „Þeir héldu sig í björgunum, en þeir létu mikið í sér heyra; oft sást fálkinn koma utan með björgunum, en þá sló dauðaþögn á, þar til hann var horfinn. Það er vafalaust af valfuglunum, sem hjallinn dregur nafn.“ (Örnefnaskrá Karlskála). Líklegt er að ýmis Vala-örnefnin séu þannig dregin af valnum, sbr. fjölda Valagilja og Valabjörg. Í Noregi eru til örnefni sem kennd eru við fuglinn, Valegga og Valberg (Norsk stadnamnleksikon).

Sum Vala-örnefnin gætu verið kennd við ávala, helst hnúkar. Skoða þyrfti staðina til þess að ganga úr skugga um hvort lögun gæti skýrt nafnið, þar sem það á við. Vali er nefnd ávöl bunga fyrir botni Austurdals vestur úr Tindfjallajökli, sbr. Valahnúkur í Laufaleitum.

Í síðasta lagi er hugsanlegt að orðið völur ‘stafur’ sé í forlið einhverra þessara örnefna. Til eru Stafár, og á það nafn við ár sem eru beinar, eða að stafir hafi verið reistir við þær, sérstaklega þegar þær voru á landamerkjum. Dæmi er þess að Valá og Valahnúkur séu á merkjum, sbr. hér að framan. Eins gæti ‘e-ð staflaga’ legið að baki einhverjum Vala-örnefnanna. Aðeins örlar á merkingunni ‘e-ð hættulegt, skaðvaldur’ þar sem minnst er á að Valagil eða Valalækur geti flóð yfir land eða brotið land, orðið að „skaðræðisfljóti“, sbr. kvæði um Valagilsá í Skagafirði.

Á Tjörnesi í S-Þing. er bær sem nefndur er ýmist Valadalur eða Voladalur. Líklegt er að það nafn sé dregið af mannsnafninu Váli sem að jafnaði breyttist í Voli en hefur eins getað orðið Vala- í örnefni.

Að síðustu má nefna nafnið Valaskjálf, sem getið er sem bústaðar goða í Eddu og félagsheimilið á Egilsstöðum er nefnt eftir. Óvíst er um forlið þess nafns, og er hugsanlegt að þar sé orðið valur ‘fallnir menn’ eða að það sé kennt við Valla (Frakka) (Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðsifjabók) enda er nafnið væntanlega ekki íslenskt að uppruna. Í Noregi er til bæjarnafnið Valaskjold á Austfold og er talið að það geti verið upphaflega Valaskjölf (Valaskjálf) (Norsk stadnamnleksikon).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 1995 eftir Árna Hjartarson.
Árbók Ferðafélags Íslands 2002 eftir Hjörleif Guttormsson.
Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. 1989.
Íslandsbókin. Örnefni Íslands í máli og myndum. Jóhann Ísberg og Kjartan P. Sigurðsson. 2. pr. 1997.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. I-XIII. 1913-1990.
Landið þitt. Ísland. Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. 1984–1985.
Lúðvík Kristjánsson. Íslenskir sjávarhættir. I–V. 1980-1986.
Norsk stadnamnleksikon. 1980.
Sóknalýsingar Rangárvallasýslu 1968.
Sóknalýsingar Skaftafellssýslu 1997.
Sóknalýsingar Þingeyjarsýslu 1994.
Sýslulýsingar 1744–1749. 1957.
Þórður Tómasson. Þórsmörk. Land og saga. 1996.
Örnefnaskrár í Örnefnastofnun.