Skip to main content

Tvær drápur í Konungsbók Snorra-Eddu – GKS 2367 4to

Handritið GKS 2367 4to er kennt við safn Konungsbókhlöðunnar í Kaupmannahöfn en Brynjólfur biskup Sveinsson gaf Friðriki III Danakonungi það 1662. Handritið kom aftur til Íslands í febrúar 1985 og er nú varðveitt í handritasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Handritið er raunar eitt þekktasta íslenska handritið frá miðöldum og gengur jafnan undir nafninu Konungsbók Snorra-Eddu enda er meginefni þess aðaltexti Snorra-Eddu. Handritið er talið ritað á fyrri hluta 14. aldar. Það telur 55 blöð og er að flestu leyti heilt og læsilegt. Þó vantar eitt blað framan af handritinu og nokkur blöð eru skemmd.

Konungsbók er sem kunnugt er ekki eina handrit Snorra-Eddu frá miðöldum, hana má einnig finna í Uppsala-Eddu (DG 11 4to) sem er varðveitt í háskólabókasafninu í Uppsölum, Ormsbók (AM 242 fol.) í Árnasafni í Kaupmannahöfn og Trektarbók (MSS 1374) sem er pappírsafrit af miðaldahandriti og varðveitt í háskólabókasafninu í Utrecht. Hvert þessara handrita varðveitir Snorra-Eddu með sínum hætti en flestar þekktustu útgáfur hennar eru prentaðar eftir Konungsbók. Um þessar mundir er unnið að rannsóknum á handritinu og nýrri útgáfu á textanum undir stjórn Hauks Þorgeirssonar á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Óþarfi er að fjölyrða um Snorra-Eddu enda er hún eitt þekktasta verk íslenskra miðalda en á eftir henni hafa verið skrifuð upp tvö kvæði í handritið sem ekki eru jafnþekkt, Jómsvíkingadrápa og MálsháttakvæðiJómsvíkingadrápa er eignuð Bjarna Kolbeinssyni sem var biskup í Orkneyjum 1188-1223. Hann er reyndar ekki nefndur höfundur drápunnar í handritinu heldur í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu þar sem vitnað er til hluta af drápunni. Þá er vísað til hans sem höfundar drápu um Jómsvíkinga í yngstu gerð Jómsvíkinga sögu í AM 510 4to frá 16. öld þó að ekki séu neinar vísur hennar skrifaðar upp þar. Yfirleitt hefur ekki verið dregið í efa að Bjarni hafi með réttu ort drápuna en þó var Ólafur Halldórsson nokkuð efins þegar hann sagði undarlegt að í kvæðinu stuðli hlhn og hr við h+sérhljóð því að aðrar heimildir benda til að h hafi fallið niður á undan ln og r í Orkneyjum ekki síðar en á 12. öld.[1]

Hvað sem höfundi drápunnar líður er varðveisla hennar og Málsháttakvæðis í GKS 2367 4to merkileg því að eins og vel er þekkt er algengara að dróttkvæðum miðalda sé miðlað í sagnatextum. Heil kvæði eru yfirleitt endurgerð með því að safna saman einstökum vísum úr þeim sögum sem varðveita þau, jafnvel úr fleiri en einni sögu. Af efni Jómsvíkingadrápu er ljóst að niðurlag hennar vantar í handritið og óvíst hve margar vísur það hafa verið en ef kvæðið hefði ekki verið skrifað upp í þessu handriti hefðu margar vísur hennar til viðbótar glatast sem varpar ljósi á brotakennda varðveislu miðaldakvæða yfirleitt.

Þrátt fyrir allt er bróðurpartur drápunnar í Konungsbókinni, alls 45 vísur sem lýsa bardaga Jómsvíkinga við Hákon jarl í Hjörungavogi og aðdraganda hans þegar Jómsvíkingar fara í veislu til Sveins konungs Haraldssonar í Danmörku, drekka ótæpilega og strengja þess heit í ölæðinu að berjast við Hákon jarl.

Málsháttakvæði er þrítug runhend drápa sem væri að mestu glötuð ef ekki væri fyrir uppskriftina í GKS 2367 4to því aðeins ein vísa þess er varðveitt annars staðar; 11. vísa sem er einnig í Flateyjarbók. Kvæðið er þó dálítið skert og handritið er dökkt og erfitt aflestrar á þessum blöðum enda stendur hún á síðustu tveimur blöðum handritsins. Titilinn hlaut kvæðið á síðari öldum en hann vísar til fjölda málshátta sem eru rúmlega eitt hundrað.[2] Tilgangi kvæðisins lýsir skáldið í fyrstu vísu sem lýkur svo:

færa ætlum forn orð saman

flestir henda at nøkkvi gaman

gleði minnar veit geipun sjá,

griplur er sem hendi þá.[3]

Ýmsir hafa viljað eigna Bjarna Kolbeinssyni Málsháttakvæði vegna þess að það á sitthvað sameiginlegt með Jómsvíkingadrápu. Kvæðin eru um margt svipuð að stíl, bæði hafa stef og finna má dæmi um svipað orðalag. Þau deila erótískum tón og áherslu á ást eða ástarraunir skáldsins. Þá þykir það styrkja þessar hugmyndir að kvæðin eru skrifuð upp saman í handritinu.[4] Það verður þó ekki útilokað að um tilviljun sé að ræða og raunar er allsendis óljóst hvers vegna aðeins þessi tvö kvæði eru skrifuð upp á eftir Snorra-Eddu. Víst er þó að varðveisla þeirra auðgar safn íslenskra miðaldakvæða.

Birt þann 01.05.2017
Heimildir

[1] Ólafur Halldórsson, Inngangur, Jómsvíkinga saga (Reykjavík, 1969), 27.

[2] Gunnar Skarphéðinsson, Málsháttakvæði, Són 2(2004): 31-72, hér 34.

[3] Tekið eftir útgáfu Finns Jónssonar, Den norsk-islandske skjaldedigtning. B: Rettet tekst 1-2 (Kaupmannahöfn, 1912-15), hér 2:138.

[4] Gunnar Skarphéðinsson hefur raunar sett fram þá tilgátu að Snorri Sturluson hafi ort Málsháttakvæði því að margt í kvæðinu megi tengja við texta Snorra-Eddu, sjá: Gunnar Skarphéðinsson, „Yggjar bjór hver eiga myni, ósýnt þykir lýða kyni,“ Són 10 (2012): 9-38.