Skip to main content

Torfhvalastaðir

Birtist upphaflega í nóvember 2005.

Torfhvalastaðirer örnefni í Langavatnsdal í Mýrasýslu, en óvíst er um staðsetningu þess. Þeir eru aðeins nefndir í Hauksbók Landnámu sem samin var skömmu eftir 1300 og talin viðbót Hauks Erlendssonar. Í ungum munnmælum eru Torfastaðirnefndir meðal eyðijarða í Langavatnsdal og er væntanlega sami bær og Torfhvalastaðir (Landnámabók, Íslenzk fornrit I:89; Árbók Fornleifafélagsins 1896:14–16). Í Árbók Ferðafélagsins 1997 bendir Guðrún Ása Grímsdóttir á að það sé merkilegt að Þórður í Hítardal skuli ekki geta um bæinn í Landnámugerð sinni og hefði honum þó átt að vera kunnugt um hann þar sem norðurhluti Langavatnsdals var lengstum afréttarland Hítardals (61–62). Halldóra Guðmundsdóttir (1766–1843) sem kunnug var í dalnum taldi að Torfhvalastaðir væru sami bær og Borg, sem verið hefði mestur bær í dalnum (Árbók 1997, bls. 64–66). Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1709 er Borgar getið en ekki Torfhvalastaða (IV:379. Kaupmannahöfn 1927). Bæjarnafnið er ekki annars staðar til og orðið torfhvalur aðeins í Kristnihaldi undir Jökli eftir Halldór Laxness. Halldór lætur eina af sögupersónum sínum, Helga oddvita, eiga heima á Torfhvalastöðum, og nefnir hann Langvetning. Umbi ávarpar hann með þessum orðum: „Kæri háttvirti fógeti skólameistari óðalsbóndi og torfhvalur þar í Lángavatnsdal! … af hverju kæsið þér ekki yðar hval sjálfur í torfinu á Torfhvalastöðum og látið hann rísa upp þar?“ (Kristnihald undir Jökli. Skáldsaga. Reykjavík 1968:77–78, 158). Ekki er líklegt að forliður örnefnisins merki ‘hvalur, kæstur í torfi’ enda ekki beinlínis vitað um slíkar aðferðir við hvalverkun. Hvalur var að vísu stundum grafinn í jörð eða kæstur í gröfum, sbr. bæjarnafnið Hvalgrafir á Skarðsströnd (Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir V:71. Reykjavík 1986). Líklegra er að nafnið sé afbakað úr *Torfvallarstaðir eða *Torfvala(r)staðir. Orðið torfvöllur merkti ‘staður til að þurrka mó á’ eða ‘staður þar sem torf var skorið’ en torfvölur var í fornu máli ‘stokkur með neðri brún þaks til þess að halda torfi á sínum stað’ (Norrøn ordbok, 3. utg. Oslo 1975:440; sbr. Johan Fritzner, Ordbog over Det gamle norske sprog. III. Bind. 4. utg. Oslo 1973:713).

Birt þann 20.06.2018