Skip to main content

Pistlar

Þórunn Friðjónsdóttir (1884–1929)

Þórunn Friðjónsdóttir (1884–1929). Þórunn Friðjónsdóttir fæddist 22. apríl 1884 á Sandi í Aðaldal. Foreldrar hennar voru Friðjón Jónsson bóndi þar og Helga Halldórsdóttir sambýliskona hans. Hún var yngst níu systkina sem upp komust. Hún gekk í kvennaskóla á Akureyri áður en hún giftist sveitunga sínum Jóni J. Jónatanssyni, sem lengi rak járnsmíðaverkstæði í Glerárgötu 3 á Akureyri. Þeim varð fimm barna auðið en einkasonur þeirra, Bolli, lést 1924 aðeins 19 ára gamall. Þórunn veiktist af berklum og dró sá sjúkdómur hana til dauða um aldur fram eftir langvarandi veikindi 11. janúar 1929.

Bræður Þórunnar, Sigurjón og Guðmundur, urðu landsþekkt skáld en áhuganum á skáldskap deildu þeir með systkinum sínum eins og bróðir þeirra Erlingur, kaupfélagsstjóri og alþingismaður á Akureyri, sagði frá í endurminningum sínum, Fyrir aldamót (1959). Þar birti Erlingur fyrsta erindið úr kvæði sem Þórunn orti 17 eða 18 ára gömul að hans sögn.

Annað hafði ekki birst af kvæðum Þórunnar fyrr en tvö þeirra komu í bókinni,  Djúpar rætur: Hugverk þingeyskra kvenna, sem gefin var út 2002. Þessi ljóð voru þar birt eftir handriti Þórunnar sjálfrar, fáeinum velktum blöðum, sem komu úr fórum Helgu Jónsdóttur, dóttur hennar.

Hugleiðingar Þórunnar um Stefán G. birtust í afmælisritinu, 30 gíslar teknir fyrir hönd Gísla Sigurðssonar fimmtugs,árið 2009. Hér á eftir birtast æskuhugleiðingar hennar sem einnig varðveittust hjá Helgu, dóttur hennar. Þær eru greinilega skrifaðar á síðustu æviárum hennar eftir að Bolli, sonur hennar, lést. Sigurjón og Guðmundur ortu báðir eftir systur sína og birtust kvæði þeirra í ljóðasöfnum þeirra.

Æskuhugleiðingar

Hvers vegna brenni ég ekki þessi gömlu blöð nú þegar ég býst við þá og þá að aðrir en ég taki mína muni til hirðingar. Er ekki réttara að láta dætur mínar enga hugmynd hafa um þessa tilhneigingu mína til þess að láta hugsanir mínar á pappírinn heldur en að skilja þeim eftir þessar óþroskuðu æskuhugleiðingar. „Enginn vill sína æsku muna“, segir máltækið. Það er sjálfsagt eitt merkið enn um þá óhamingju mína, að ég er ekki eins gerð eins og allur fjöldinn, að ég hef aldrei slitið barnsskónum svo að fullu að ég hafi fleygt þeim í ruslakistuna. Aldrei afneitað æskudraumunum né gert gys að þeim hugsjónum sem hrifu mig í æsku. Hafi ég þroskast með aldrinum þá hafa þrárnar og skoðanirnar þroskast með mér. En hafi ég staðið í stað eða dregist niður á við þá hef ég þó ekki fjarlægst æsku mína svo að hún geti ekki enn þá vakið mér bæði sorg og gleði eftir því hvors ég minnist frá þeim tímunum. Enn þá teygir kuldinn og skorturinn frá þeim dögum skugga sína í áttina til mín og bjarmann leggur af leikjunum og lífsgleðinni og náttúrurfegurðinni sem ég naut þá. Eiginlega vildi ég ekkert af þessu missa. Myrku minningarnar hafa gert mig skilningsbetri á kjör þeirra sem ver eru settir en ég, og björtu minningarnar hafa vermt og lýst þegar mér hefur fundist líf mitt fábreytt og gleðisnautt. Einnig hefur þráin eftir æskustöðvunum, sem alltaf fylgir mér, vakið mér vonir um að eitthvað því líkt bíði mín hinum megin við gröf og dauða.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

Djúpar rætur: Hugverk þingeyskra kvenna. Ritstj. Sólveig Anna Bóasdóttir. Garðabæ: Pjaxi, 2002.
Erlingur Friðjónsson. Fyrir aldamót: Endurminningar. Reykjavík: MFA, 1959.
30 gíslar teknir fyrir hönd Gísla Sigurðssonar fimmtugs27. september 2009. Ritstj. Baldur Sigurðsson, Rósa Þorsteinsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. Reykjavík: Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen, 2009.

 

Óprentuð heimild:

Þórunn Friðjónsdóttir. Handrit. Í fórum Úlfars Bragasonar.