Skip to main content

Pistlar

Staðarhólsbók rímna AM 604 4to — Þverhandarþykk rímnabók

Í lok fyrra mánaðar var í Tjarnarlundi í Saurbæ opnuð fyrsta sýningin í verkefninu Handritin alla leið heim. Við það tækifæri afhenti Kjartan Sveinsson tónlistarmaður Sigurði Þórólfssyni bónda eftirgerð Staðarhólsbókar rímna sem sýnd verður í Dölunum á næstu mánuðum.

Árni Magnússon var á alþingi á Þingvöllum sumarið 1707 og fékk þangað sent til eignar þykkt rímnahandrit. Gefandinn var Pétur Bjarnason bóndi á Staðarhóli í Dölum, en ekki er vitað hvernig bókin komst í hans eigu. Eftir brunann í Kaupmannahöfn 1728 gerði Jón Ólafsson úr Grunnavík skrá yfir handrit Árna Magnússonar og segir þar um handrit númer 604 í fjórðungsbroti að það sé þverhandarþykkt, óinnbundið skinnhandrit. Seinna hefur handritinu verið skipt niður í átta misþykkar bækur en bókin í heild hefur verið kennd við heimili gefandans og kölluð Staðarhólsbók rímna. Handritið hefur upphaflega innihaldið 33 heila rímnaflokka og verið um 280 blöð, en nokkuð hefur týnst af blöðum svo nú eru í því 248 blöð og vantar á sumar rímurnar. Þó sést að hvorki vantar framan á né aftan af handritinu því það hefst á lýstum staf, sem greinilega hefur verið upphafsstafur handritsins alls og síðasta blaðsíðan er óskrifuð og eyða neðst á síðunni þar á undan þar sem síðustu rímunum lýkur.

 

 

Ljósmyndir: Jóhanna Ólafsdóttir.

Sama hönd er á öllu handritinu og hefur því verið slegið föstu að skrifarinn sé Tómas Arason. Tómas, Jón bróðir hans og faðir þeirra, séra Ari Jónsson á Stað í Súgandafirði, hafa verið taldir einhverjir bestu skrifarar handrita á landinu fyrir og um miðja 16. öld. Fæðingarár þeirra feðga eru ekki þekkt en talið er að Ari geti ekki verið fæddur fyrr en um 1490 og synir hans tveir í fyrsta lagi á öðrum áratug 16. aldar. Þeir feðgar skrifuðu mörg handrit og höndum þeirra svipar mjög saman, en meðal þess sem sýnir að Tómas hefur skrifað rímnahandritið eru spássíugreinar þar sem nafn hans kemur fyrir. Hann gerir oft athugasemdir um skriftina og blekið og skrifar til dæmis „lítt tempraz blekit fyrir þier gamlí mínn tomas“ (d34). Þá er nafn Tómasar falið í vísu sem skrifuð er á eftir Skáld-Helga rímum en ekkert tengd þeim. Ekki er vitað hvenær Tómas skrifaði rímnahandritið stóra en bent hefur verið á að hann segist sjálfur vera gamall. Þar að auki kvartar hann oft um að vera farinn að sjá illa, svo sem þegar hann párar „augna-veikur er aulinn“ (a42) eða „stirdnar strak i augum“ (h11). Spássíuklausurnar setja mjög mark sitt á handritið. Þær snúa margar að  heilsu skrifarans og skrift en einnig er þar að finna vísur og fyrirbænir. Langalgengastir eru þó málshættir sem eru reyndar svo margir að tala mætti um málsháttasafn. Þar er að finna margt sem Íslendingar taka sér í munn enn í dag svo sem „opt velldur litil þufa þungu hlasse“ (c16) eða „svelltur sitiande kraka“ (c112).

Í Staðarhólsbók eru rímur frá mismunandi tímum, sumar eru í flokki elstu rímna sem varðveist hafa, meðan aðrar kunna að hafa verið ortar stuttu áður en bókin var skrifuð. Alls eru varðveittir um 60 rímnaflokkar sem ortir eru fyrir miðja 16. öld og drjúgan helming þeirra er að finna í þessari bók. Má því taka undir með Birni K. Þórólfssyni sem sagði í bók sinni Rímur fyrir 1600 að skinnbókin AM 604 4to væri „merkust allra rímnabóka“. 

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018