Hallfreður og Olga á Willow Point, Víðtanga eða Víðinestanga, þar sem fyrstu Íslendingarnir komu að landi skammt suður frá Gimli. Veturinn 1972–1973 fóru hjónin Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir um byggðir Vestur-Islendinga í Norður Ameríku og söfnuðu þjóðfræðaefni á íslensku; minningum af Íslandi, sögum um frumbyggjaárin og mannlíf í Vesturheimi, Indíána, einkennilega menn og sterka, veiðar, drauma, dulræn fyrirbæri, kveðskap og ævintýri. Sagnakonurnar greina sig frá körlunum með því að segja mest ævintýri og sögur um drauma og dulræn fyrirbæri.
Viðmælendurnir hafa ekki hlotið formlega menntun á íslensku né látið að sér kveða á íslensku bókmenntasviði. Sögurnar endurspegla alþýðlega lífssýn og hugmyndir um mannlíf fyrri tíma eins og þær voru þegar Hallfreður og Olga fóru um byggðirnar, þ.e. áður en sprenging varð í samskiptum Íslendinga og Vestur-Íslendinga í kjölfar 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar 1974 og hundrað ára afmælis landnáms í Nýja Íslandi á bökkum Winnipegvatns árið 1975.
Oft hefur verið á það bent, m.a. af Svövu Jakobsdóttur og Helgu Kress, hvað konur voru lengi að byggja upp sjálfstraust til að skrifa bókmenntir út frá sínum forsendum fremur en forsendum hinnar karlmótuðu rithefðar. Frá upphafi ritaldar hafa karlar mótað bókmenninguna þótt okkur gruni að konur hafi átt greiðari aðgang að munnlegri hefð í árdaga, bæði í kvæðum og sögum, líkt og þær höfðu á sviðum þjóðsagna og þjóðkvæða á síðari öldum.
Hægt er að lesa eða hlusta á safn Hallfreðar og Olgu með kynjagleraugum/–heyrnartólum og hugsa um það hvers konar sögur konurnar segi í þeirri hefð sem okkur er tamara að sameina undir vestur-íslenskum þjóðernismerkimiða fremur en að greina þær út frá kyni þeirra sem segja frá.
Í safninu er munur á sögum kvenna og karla, sem má skýra með því kynbundna hlutverki sem fólk gegndi í þjóðfélaginu og fjölskyldunni. Karlarnir tengja sig útfyrir fjölskylduna og vestur-íslenska þjóðarbrotið í sögunum, segja frá einkennilegum mönnum, svaðilferðum í óbyggðum og veiðum, á meðan sögur kvennanna snúast um fólk og örlög sem tengjast fjölskyldulífinu; hjúskap, barnauppeldi, barneignir, sáluhjálp, veikindi og dauða fjölskyldumeðlima. Þegar konurnar segja sögur af sviði karlanna eru þeir bornir fyrir sögunum, eða þá að konurnar segja sögur af körlum í fjölskyldum sínum til marks um ágæti karlanna. Í vísunum sem þær tengja sögunum er oftar en hjá körlunum fjallað um tilfinningaleg málefni, söknuð og trega og eftirsjá eftir fegurð gamla landsins.
Ævintýrin segjast konurnar hafa sagt börnum sínum, Ólína Benson lærði Búkollusöguna (sem endar á að Búkolla reynist prinsessa í álögum) af fimmtán ára strák á Íslandi þegar hún var sjálf sjö ára, Margrét Sæmundsson lærði söguna af Loðinlappa af mömmu sinni og Indíana Sigurðsson lærði söguna um Glerhöllina á bakvið Tindastól af gamalli konu. Indíana er eina heimildarkonan sem ég veit til að hafi sagt söguna um Glerhöllina í „Glerhallarvík“. Bæði Margrét og Indíana taka fram að þær hafi sagt ævintýrin börnum og tengist sú staða ævintýranna sem barnaefnis að líkindum því að karlar hafi ekki sagt þau — miðað við að barnauppeldi á heimilum hafi verið á ábyrgð kvenna.
Muninn á söguefni og sagnavali má skýra með kynferði sem ræður þjóðfélagsstöðu í því samfélagi sem sögurnar eru sprottnar úr. Væru nöfn heimildarmanna ekki tengd við sögurnar og þær nafnlausar eins og við þekkjum af eddukvæðunum gömlu, gætu fræðimenn haldið að muninn á vesturíslensku sögunum mætti skýra með ólíkum aldri sagnanna, að á vissu skeiði hefði ríkt smekkur fyrir frægðarsögum af sterkum körlum en á öðru skeiði hefði komið upp smekkur fyrir tilfinningalífi og fjölskylduhögum. Slíkar skýringar hafa verið teknar góðar og gildar í eddukvæðarannsóknum en dæmið af sögum vesturíslenskra kvenna sýnir að þótt sögur séu sprottnar úr sama menningarumhverfi geta þær endurspeglað ólíka heimssýn sem ræðst af kynferði þess sem segir sögurnar fremur en sameiginlegum smekk innan þeirrar menningarheildar sem rannsökuð er hverju sinni.
Síðast breytt 24. október 2023