Skip to main content

Pistlar

Sögur af Jóni Upplandakonungi og Ásmundi flagðagæfu: AM 569 c 4to

Oftast er litið svo á að söfnun þjóðsagna á Íslandi hafi hafist árið 1845 en það ár tóku þeir Jón Árnason (1819–1888) og Magnús Grímsson (1825–1860) sig saman um að safna sögum, kvæðum, gátum og leikum. Í eldri handritum má þó oft rekast á sögur af sama tagi og finnast í þjóðsagnasöfnum 19. og 20. aldar, sögur sem hafa ratað á pappír beint úr munnlegri geymd. Árni Magnússon (1663–1730) lét til dæmis skrifa upp nokkur ævintýri í byrjun 18. aldar ásamt sögnum af Sæmundi fróða og nokkrum fornlegum þjóðsögum. Í handritasafni hans er einnig að finna handritið AM 569 c 4to sem skrifað er af Eyjólfi Jónssyni (1670–1745) og þar í eru tvær sögur sem hann hafði eftir ömmu sinni eins og hann lýsir sjálfur:

„Inntök söguþátta af Jóni Upplandakóngi og Ásmundi flagðagæfu ritaða eg eftir því sem eg heyrða segja í uppvexti mínum Björgu Ólafsdóttur móðurmóður mína að Barði og síðan eftir henni Vilborgu Sveinsdóttur móður mína að Seltjarnarnesi. Kunni móðurmóðir mín báða þessa þáttu fulla og hafði þá numið í réttu sagnamáli af gömlum kálfskinnsbókum og heyrt þar umfram 12 rímur af þætti Ásmundar; mundi hún úr þeim allmörg erindi og sagði þær einar hinar elztu er hún hefði heyrðar.“ (AM 569 c 4to, bl. 2r)

Björg, amma Eyjólfs, var fædd um 1617 og látin 1690. Hún var dóttir Ólafs Erlendssonar prests á Breiðabólstað í Vesturhópi og konu hans Sigríðar Þorvarðsdóttur. Hún eignaðist 10 börn sem upp komust með eiginmanni sínum en hann var fyrst prestur á Hólum í Hjaltadal en síðan á Barði í Fljótum í næstum 40 ár.

Eyjólfur fæddist á Hraunum í Fljótum 1670 og var sonur Jóns Eyjólfssonar og konu hans Vilborgar Sveinsdóttur, en hún var dóttir Bjargar og manns hennar Sveins Jónssonar. Þegar Jón varð sýslumaður Gullbringusýslu varð Eyjólfur eftir hjá móðurforeldrum sínum á Barði og ólst þar upp. Eftir að hafa lokið prófi í guðfræði í Kaupmannahöfn árið 1693 varð Eyjólfur fyrst kennari á Hólum, síðan prestur á Þingeyrum en síðast á Völlum í Svarfaðardal þar sem hann þjónaði til dauðadags eða í heil 40 ár. Mikið orð fór af lærdómi hans og hann skrifaði margt en þekktasta ritsmíð hans er svokallaður Vallaannáll.

Í handritaskrám er talið að handritið hafi verið skrifað um 1700 en Eyjólfur dvaldist í Kaupmannahöfn a.m.k. veturna 1687–8 og 1692–3 og e.t.v. einnig 1694–5. Hann gæti hafa skrifað handritið þar á árunum eftir 1690 en engar upplýsingar er að hafa frá Árna Magnússyni um það hvernig handritið hafnaði í safni hans. Sögurnar tvær í handriti Eyjólfs eru mjög ólíkar en í báðum má sjá skyldleika við eldri sögur.

 

 

Inntak úr söguþætti af Jóni Upplandakóngi er flokkuð með draugasögum í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, en þar segir frá því er heitmey Jóns tekur sótt, deyr og er grafin. Í ljós kemur þó að þetta eru galdrar einir af hendi Alheims sem ætlaði sér stúlkuna sjálfur. Jón og Alheimur berjast og Jón vinnur sigur, stúlkan er grafin upp og lífguð við og allt fer vel að lokum.  Samskonar atburðir koma fyrir í Dámusta sögu sem er gömul riddarasaga, en brot af henni er að finna í skinnhandritinu AM 557 4to sem skrifað var á fyrri hluta 15. aldar og inniheldur fleiri riddarasögur auk Íslendingasagna og þátta. Einnig er brot af rímum af Dámusta í stóra rímnahandritinu Staðarhólsbók rímna sem var skrifað á 16. öld. Vísa úr rímunum fylgir sögunni í handriti Eyjólfs svo Björg, amma hans, hefur kunnað eitthvað úr þeim og áttað sig á að efnið væri það sama. Hið sameiginlega söguefni Bjargar og Dámustasögu er einnig mjög líkt sögu sem sögð er í fornfrönsku kvæði, Amadas et Ydoine, sem talið er vera ort snemma á 13. öld.

 

 

Inntak úr söguþætti af Ásmundi flagðagæfu minnir meira á fornaldarsögur, en í uppskrift Eyjólfs eru einnig rímnaerindi sem eru þau einu sem varðveist hafa úr rímum af Ásmundi flagðagæfu. Sagan skiptist í þrjá hluta, sá fyrsti er samsettur úr ýmsum þekktum ævintýra- og jafnvel fornaldarsagnaminnum, annar hlutinn fjallar um viðureign Ásmundar við Þorgerði höldatröll og er mjög líkur norskum sagnadansi sem nefnist Åsmund frægdegjæva. Þriðji hlutinn er síðan nauðalíkur Völsaþætti í Flateyjarbók.

Báðar sögurnar í handritinu voru fyrst prentaðar á íslensku í fyrra bindi 1. útg. þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, sem út kom 1862. Guðbrandur Vigfússon skrifaði þær upp úr handriti Eyjólfs og sendi Konrad Maurer, sem birti þær fyrst í þýskri þýðingu í þjóðsagnasafni sínu, Isländische Volkssagen der Gegenwart, árið 1860.

Gert var við handritið 1983 og það bundið inn að nýju áður en það var sent til Íslands þar sem Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við handritinu 19. nóvember 1983.

Birt þann 1. júní 2017
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Hannes Þorsteinsson. „Annáll Eyjólfs prests Jónssonar á Völlum í Svarfaðardal eða Vallaannáll 1659–1737.“ Annálar 1400–1800 I. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1922–1927. Bls. 368–382.

Munnmælasögur 17. aldar. Bjarni Einarsson bjó til prentunar. Reykjavík: Hið íslenzka fræðafélag, 1955.

Schlauch, Margaret. „The Dámusta Saga and French Romance.“ Modern Philology 35:1, 1937. Bls. 1–13.

 

Textar:

„Inntak úr söguþætti af Jóni Upplandakóngi“, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I. Safnað hefir Jón Árnason. Leipzig, 1862, bls. 284–285.

„Inntak úr söguþætti af Ásmundi flagðagæfu“, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I. Safnað hefir Jón Árnason. Leipzig, 1862, bls. 171–179.

„Geschichte von Jón Upplendíngakonúngr“, Konrad Maurer. Isländische Volksagen der Gegenvart. Leipzig, 1860, bls. 320–322.

[Sagan af Ásmundi flagðagæfu] Konrad Maurer. Isländische Volksagen der Gegenvart. Leipzig, 1860, bls. 307–312.