Skip to main content

Pistlar

Sögubók af Ströndum

Í Árnasafni í Reykjavík er slitin skinnbók með dökkum og máðum síðum frá um 1500 sem ber safnmarkið AM 551 a 4to. Í bókinni eru fremst nokkrar línur úr Bárðar sögu Snæfellsáss, en svo koma Víglundar saga (bl. 1r–7v) og Grettis saga (bl. 7v–53r), en það eru eyður í báðum; bl. 53v er autt. Niðurlag Bárðar sögu nær aðeins yfir 16 línur á fremstu blaðsíðu en fremst í handritinu er ræma úr blaði inn við kjöl þar sem sjá má bókstafi í 32 línum á framhliðinni (á bl. 1r eru 43 línur). Þessi ræma er úr blaði sem hefur verið næst fyrir framan núverandi fremsta blað, því að hún myndar tvinn með aftasta blaði fremsta kversins. Talið er að framan á Bárðar sögu vanti nákvæmlega eitt átta blaða kver, auk blaðsins sem ræman er af. Aftan við fremsta blaðið vantar blað úr Víglundar sögu og aftan við sjöunda blaðið vantar blað úr Grettis sögu. Handritið gæti því upphaflega hafa verið 64 blöð, ef engin saga hefur verið framan við Bárðar sögu.

Myndin sýnir dökka og illlæsilega síðu í handritinu. 

Myndin er af sömu síðu og að ofan en tekin í útfjólubláu ljósi og sýnir hve mikið gagn það gerir.

AM 551 a 4to virðist gert af nokkrum vanefnum því að það eru notuð misstór blöð; sum eru aðeins í hálf miðað við meirihluta blaðanna og önnur ná ekki að vera réttur ferhyrningur, auk þess sem nokkur ná ekki fullri stærð. Að auki eru göt á nokkrum blöðum sem skrifað hefur verið í kringum. Skriftin er einnig smá og þétt og spássíur eru ekki stórar. Svo virðist sem handritið hafi legið lengi óbundið og m.a. af þeim sökum eru mörg blöðin máð, dökk og skítug og sum mjög erfið aflestrar. Leifar af fyrirsögnum og upphafsstöfum sjást varla.

Fjórir menn hafa skrifað AM 551 a 4to. Talið er að aðalskrifarinn, þ.e. sá sem skrifaði megnið af handritinu (bl 16r–53r), hafi verið Þorbjörn Jónsson í Kálfanesi í Steingrímsfirði. Hinir skrifararnir þrír hafa skrifað nokkur blöð hver.

Ekkert er vitað um sögu handritsins áður en Árni Magnússon fékk það í hendur í Skálholti en hann taldi það hefði þó ekki verið í eigu biskupsstólsins því að það hefði ekki verið skráð meðal bóka hans heldur að það hafi verið í Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups en orðið eftir á staðnum. Einnig virðist sem bókin hafi verið ókunn öllum handritaskrifurum 17. aldar því að það hefur ekki varðveist nein uppskrift eftir henni (hún var reyndar skrifuð upp á 19. öld). Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við handritinu 6. maí 1997.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 28. júní 2018