Skip to main content

Snugga

Birtist upphaflega í maí 2007.

Hóll einn í Hraungerðishreppi í Árnessýslu heitir þessu nafni. Hann er í mörkum milli Lauga og Brúnastaða og einnig Ölversholts áður en Flóaáveituskurðurinn var grafinn.

Í landamerkjalýsingu Oddgeirshólatorfunnar frá 1887 er hann nefndur Snugga, í lýsingu Brúnastaða frá 1890 Snugguhóll og í lýsingu Ölversholts Snögghóll. Hann hefur einnig verið nefndur í heimildum Snýghóll (Sníghóll) eða Snyghóll.

Í vísitasíu Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641 er hóllinn nefndur Snugga og er það annaðhvort upphaflega nafnið eða stytting á Snugg(u)hóll. Í örnefnalýsingu Brúnastaða eru Snuggudælar kenndar við hólinn.

Nafnorðið snugga kv. merkir 'fjúk, smávegis snjókoma' (Ásgeir Bl. Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989, bls. 921). Þannig notar Þorgils gjallandi það t.d. í sögu sinni Gestur: „... þá kalla ég Gestur kunni að rata, þó að undan snuggu sé að fara.“ (Ritsafn. Arnór Sigurjónsson gaf út. Reykjavík 1945, III:140).

Merking sagnarinnar að snugga er m.a. 'snuðra, hnusa, þefa eftir', sbr. orðin "snæliga snuggir" í fornu riti, sem merkir að það líti út fyrir snjókomu. En merkingin í orðunum „snugga við einhverjum“ er að ‚stugga við‘ (haft um kýr og kindur) (Íslensk orðabók Eddu. Ritstjóri: Mörður Árnason. Reykjavík 2002, bls. 1410). E.t.v. er nafnið dregið af því að menn hafa farið upp á hólinn til að skyggnast um, sbr. örnefnið Kögunarhóll, gá til skepna og stugga þeim frá landamerkjum.

Birt þann 20.06.2018