Skip to main content

Pistlar

Snókur

Birtist upphaflega í júní 2004.

Orðið snókur (kk.) kemur fyrir á nokkrum stöðum á landinu sem örnefni, bæði ósamsett og samsett. Snókur er a.m.k. til á eftirtöldum fimm stöðum:

1) Sérkennileg klettastrýta í landi Leirár, vestur af Skarðsheiði í Borg. Er líka nefnd Stellir.
2) Lítil sker (Stóri- og Litli-Snókur) í Straumfirði í Mýr.
3) Fjall upp af Lónafirði í Jökulfjörðum í N-Ís. (Mynd í Árbók Ferðafélagsins 1994:83).
4) Fjallstindur norðan við mynni Skarðsdals innarlega við Siglufjörð í Eyf. Við hann er kennd Snóksá.
5) Hóll í landi Miðbýlis á Skeiðum í Árn. og mun nafnið dregið af lögun hans, líkingu við höfuðföt fyrri alda.
6) Uppmjór hóll í Reykjakoti í Ölfusi í Árn. Þar er einnig Snókatorfa (Snjákutorfa).

Flt. Snókar er nafn á þremur tindum í fjallsbrún í landi Hurðarbaks norðan í Meðalfelli í Kjós. Einstakur strýtumyndaður hnúkur vestan við Hörðubreið á Skaftártunguafrétti í V-Skaft. er nefndur Vinstrarsnókur.

Orðið snókur merkir upphaflega 'tota, endi á e-u', t.d. á vinstur, hluta af maga jórturdýrs. En í landslagi merkir það ‘fjallstindur, klettastrýta; hali, rani, e-ð langt og mjótt sem gengur út frá e-u stærra, t.d. fjalli’. Í samsetningum er það t.d. í Snóksdalur í Miðdölum og Snókshólmi sem er nokkru fyrir neðan Árbæjarhólma í Elliðaám í Reykjavík. Bærinn Skógsnes í Gaulverjabæjarhreppi í Árn. var upphaflega nefndur SnóksnesSnóka er á Þingvöllum, dýpsti hluti Almannagjár, stytt úr SnókagjáSnókabrún er í landi Kiðabergs í Grímsnesi í Árn. Snókafell er í Afstapahrauni á Vatnsleysuströnd og er með rana eða háls út frá sér. Snókalönd eru norðan við Óbrinnishólabruna í landi Hvaleyrar í Hafnarfirði. og út úr honum skaga margar totur. Snókarimi er í landi Laxárbakka í Miklaholtshr. í Snæf. Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur telur Snóka-örnefnin dregin af jurtinni snókahvönn, og nefnir hann sérstaklega í því sambandi Snókahvamm í Glerárgili á Akureyri, þar sem mikið vex af geithvönn. (Munnleg heimild.)

Ásgeir Blöndal Magnússon segir í orðsifjabók sinni (bls. 92) að orðið snókur sem örnefni hafi fengið j-innskot allsnemma. Snjókafjall er í landi Kambs í Deildardal í Skag. Ætla má að það hafi upphaflega heitið Snókafjall eða Snóksfjall því neðan úr dalnum líkist það hundshaus með trýnið út að Kambsgili.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. 1989.
Örnefnaskrár í Örnefnastofnun Íslands.