Birtist upphaflega í júlí 2007.
Örnefnið Skytja er í landi Hvamms í Lóni í A-Skaft. Stefán Einarsson prófessor segir í örnefnaskrá að Skytja sé hnaus en í annarri örnefnalýsingu segir að hún sé hár klettamúli aðskilinn frá aðalfjallinu með þröngu sundi. Skytja skagar út á aura Laxár inni í Laxárdal og er nefnt Skytjusund sundið sem aðskilur múlann frá fjallinu. „Séra Jón Jónsson prófastur á Stafafelli í Lóni (d. 1920), sem var mikill norrænufræðingur, gaf þá skýringu á þessu örnefni að þetta mundi upphaflega verið nefnt Skyta, þ.e. skot, múli sem skotist hefur út úr fjallinu. Séra Jón taldi þetta eiga uppruna í norskum örnefnum.“ (Örnefnaskrá). Orðið skytja er vissulega skylt orðinu skot og má til sanns vegar færa á staðnum því að skot í merk. 'horn, krókur' koma inn í múlann, sjá mynd. Skýring séra Jóns um að Skytja hafi "skotist" út úr fjallinu þarf ekki að vera rétt.
Skytja í A-Skaft. Ljósm. Þorgerður Árnadóttir.
Orðið skytja kemur fyrir í tveimur bæjanöfnum á landinu: Böðólfsskytja var bústaður Böðólfs Grímssonar landnámsmanns á Tjörnesi í S-Þing, skv. Landnámu (Íslenzk fornrit I:279 (1968), einnig nefndur Auðólfsstaðir). Ekki er nú vitað hvar Böðólfsskytja var (Haraldur Matthíasson, Landið og Landnáma 1982, bls. 336). Jakob Benediktsson skrifar í skýringum við útgáfuna að skytja merki e.k. viðbyggingu við útihús og þekkist úr gömlum norskum heimildum og norskum mállýskum (279 nm.). Ivar Aasen segir í orðabók sinni um orðið skytja í norsku: „en Tilbygning i en Lade, et smalt Rum paa Siden af Huset. (I Stavbygninger kun om det Rum, som er udenfor Hovedstolperne“ (Norsk Ordbog ... Fjerde uforandrede udgave 1918, bls. 697). Böðólfur og kona hans Þórunn Þórólfsdóttir fóru til Íslands og brutu skip sitt við Tjörnes „ok váru at Böðólfsskytju hinn fyrsta vetr“ (279). Það gæti því staðist að þau hafi reist sér e.k. bráðabirgðahús sem hafi verið við hann kennt. Í landi Ytri-Tungu, norðaustur frá bænum er fornt eyðibýli, Böðólfsstaðir. Því er líklegt að Tunga hafi verið bær landnámsmannsins, enda eru jarðirnar Ytri-Tunga og Syðri-Tunga samanlagðar langstærsta jörðin í landnáminu, sem átti að hafa verið á milli Tunguár og Óss. (Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 1985, bls. 562-563 og 559).
Miðskytja er bær í Akrahreppi í Skag. Nafnið er fyrst nefnt í Sturlungu (I:426 (1946) (Skytja I:428)) og kemur víða fyrir í fornbréfum, t.d. í Pétursmáldögum 1394/1639 (Íslenskt fornbréfasafn III:565). Miðsitja (Miðseta) er það skrifað í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1713 (IX:171). Jörðin er á milli Hellu og Sólheima í Blönduhlíð og byggð úr Sólheimalandi. Margeir Jónsson segir að þær jarðir hafi byggst fyrr og „henni verið „skotið“ inn á milli þeirra.“ Nafnið muni vera dregið af því. „Miðskytjuland mjókkar, þegar niður dregur, að Hjeraðsvötnunum. Það er því breiðara upp og myndar næstum því fleygmyndaða spildu gegnum lönd jarðanna beggja megin.“ (Bæjanöfn á Norðurlandi. I:29–30. Akureyri og Reykjavík 1933).
Skytja í örnefnum getur því líklega ýmist verið 'lítil (við)bygging, skot' eða 'eitthvað sem skotið er fram eða inn á milli'.
Síðast breytt 24. október 2023