Skip to main content

Pistlar

Skorbeinn

Birtist upphaflega í ágúst 2008.

Nyrsta skerið í röð nokkurra skerja við siglingaleiðina milli Djúpavogs og Papeyjar heitir Skorbeinn og állinn sem siglt er um heitir Skorbeinsáll. Í sóknarlýsingu sr. Jóns Bergssonar frá 1840 segir: „Skorbeinsáll ... dregur nafn af nokkuð háu skeri austan til í þessum ál, Skorbeinn nefnt.“ (Múlasýslur, 541). „Þau stæðstu og hæðstu sker, sem liggja í Papeyjarálum, nefnast Ketilboðafles og Skorbeinn, þau liggja bæði í Skorbeinsál.“ (Múlasýslur, 544). „Rétt norðan við Skorbein er lítill boði, Skorbeinsbarn, en sunnan við hann er Skorbeinsboði“ (Örnefnaskrá Búlandsness).

Skorbeinsflúðir er örnefni í Mýrdal, og segir Þorvaldur Thoroddsen þannig frá því í Ferðabók sinni: „Út af Arnarstakksheiði gengur austar Sæhólanef (Sævarhálsnef), og heita Skorbeinsflúðir á sandinum fyrir neðan, en milli Sæhólanefs og Skiphella, framan í Höfðabrekkufjalli, gengur Kerlingardalur inn, og segja munnmæli, að þar hafi Kerlingarfjörður í fornöld átt að ganga upp eftir.“ (III:102). Í örnefnaskrá Fagradals í Mýrdal segir: „Hamraraninn, sem skagar þarna lengst fram á sandinn, heitir Skorbeinsflúðir. Fram til Kötluhlaupsins 1660 var aðdýpi af sjó upp undir klettana. ... Munu hinar fornu Skorbeinsflúðir komnar á kaf í sandi, en nafn þeirra flutt á Sævarhólsnefið.“ (Sbr. og Árbók Ferðafélagsins 1975, bls. 60). (Sjá kort fremst í Árbókinni).

Hvalbeinshlunnar. Teikning: Bjarni Jónsson (Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir II, bls. 187).

Þórhallur Vilmundarson telur að Skorbeinn sé myndað eins og örnefnið Kolbeinn sem skers- eða klettsheiti (Grímnir 1:112). Líklegra er þó að upphaflegt heiti skersins sé Skorbein. Vilhjálmur Ingibergsson í Mosfellssveit minnist þess sem unglingur að hafa heyrt þetta orð um hlut sem nefndur var í sambandi við sjóróðra (Talmálssafn Orðabókar Háskólans). Skorbein er líklegast annað orð fyrir hlunn en þeir voru einmitt oft úr hvalbeini og skora hefur myndast í þá við notkun. Lúðvík Kristjánsson nefnir ekki skorbein í Íslenskum sjávarháttum í kaflanum Hlunnar – skorður (II:187–189; sjá mynd á bls. 187). María Jónsdóttir (f. 1921) frá Djúpavogi segir í símtali við Guðrúnu Kvaran í júní 2008 að skorbein sé bein til að draga báta á og líklega sé örnefnið af því dregið. Líklegt er að svo sé en nafnmyndin hafi breyst, e.t.v. vegna áhrifa frá örnefni eins og Kolbeinn, þó að aðeins sé vitað um eitt sker með því heiti, þ.e. í Hraunsfjöru á Eyrarbakka.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 1975. Mýrdalur eftir Einar H. Einarsson. Reykjavík.
Grímnir 1. Reykjavík 1980.
Lúðvík Kristjánsson. Íslenzkir sjávarhættir II. Reykjavík 1982.
Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839–1874. Reykjavík 2000.
Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók. Þriðja bindi. Kaupmannahöfn 1914.