Skip to main content

Pistlar

Skjálg

Birtist upphaflega í ágúst 2005.

Bæjarnafnið Skjálg í Kolbeinsstaðahreppi er fyrst vitað um í heimildum í jarðabók frá 1696/1698 (Old Icelandic Land Registers, bls. 159). Árið 1709 er Skjálg nefnd í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, bls. 22-23, sem lögbýli. Í sóknarlýsingu Hítarnessprestakalls frá 1841 er jörðin nefnd Skjálgur. Þar er talað um að lækur sem nefndur er annars staðar í lýsingunni, Landbrotalækur, falli skammt eitt fyrir sunnan Skjálgstún. „Hann kallast Skjálgslækur fyrir þessu landi ...“ (Snæfellsnes. Sýslu- og sóknalýsingar, bls. 36).

Orðið skjálg kemur fyrir á a.m.k. einum öðrum stað á landinu í örnefni. Það er í Eyjafirði. Það er nefnt í Landnámu þar sem Helgi magri gaf Hámundi heljarskinn jarðir milli Merkigils og Skjálgsdalsár og bjó hann á Espihóli (Íslensk fornrit I:255, nefnd Skjálgdalsá á bls. 264 og 266).

Í Sturlungu er á nokkrum stöðum nefnd Skjálgsdalsheiði, milli Eyjafjarðar og Öxnadals sem verið hefur alfaraleið þar á milli héraða. Rétt fyrir innan Grund skerst dalur vestur í fjöllin. Það er Skjálgsdalur sem svo hét en nú nefndur Skjóldalur (sbr. kort). Upp úr honum var farin Skjálgsdalsheiði, nú Skjóldalsheiði (Sturlunga saga (1946) I:199, 553 o. víðar). Nafnið er m.a. í vísu í Íslendinga sögu (I:469). Árni Mgnússon og Páll Vídalín segja í jarðabókinni 1712, að Möðrufell eigi selför á Skjóldal (X:228).

Í skýrslu yfir Miklagarðs- og Hólaprestakall í Eyjafirði frá 1840 eru nefndar myndirnar Skjálgsdalur, Skjálgdalsá, Skjálgdalsheiði en einnig Skjóldalur og Skjóldalsá (Sýslu- og sóknalýsingar, bls. 175 o. víðar). Skjóldalsá er þannig lýst í skýrslunni að hún hafi upptök sín úr tveimur smáám sem kallast Króksár, en fyrir neðan dalsmynnið renni hún í gegnum þröng gljúfur og breiði sig neðar um breiðar eyrar niður til Eyjafjarðarár (bls. 176).
Í Árbók Ferðafélags Íslands 1991 er mynd sem tekin er inn Skjóldal og sýnir rennsli árinnar að hluta (bls. 137).

En hver er þá merking nafnsins Skjálg og forliðar Skjálg(s)dals? Finnur Jónsson varpar fram þeirri spurningu hvort Skjálg sé árheiti (Bæjanöfn á Íslandi. Safn til sögu Íslands IV:575). Lýsingarorðið skjálgur merkir ‘rangeygur’ og í fornmáli ‘skakkur’. Nafnorðið skjálgur kk. merkir þá ‘skekkja’ eða ‘rangeygð’ og skjálgi kvk. sömuleiðis ‘rangeygð’. Orðasambandið að skjóta augum í skjálg merkir að gerast tileygur e.þ.h., sbr. þetta dæmi úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans: „Það er siður Snæfellinga að stara á ókunnuga og draga annað augað í skjálg“ (Þórbergur Þórðarson, Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar II:125).

Í Noregi er til nafnið Skjölja sem er vatn eða krókótt útvíkkun á Rakkestadelva á Austfold. Kåre Hoel nafnfræðingur hefur bent á að vatnið líti út eins og stór bjúgverpill og að orðið *Skjölg, myndað af lo. skjalgr ‘skeiv, skakk’ lýsi beint staðháttum. (Studier over bustadnavn fra Östfold (1985), bls. 154–162). Það væri sambærilegt við árheitið *Skjalga, sem Oluf Rygh telur að komi fyrir í bæjarnafninu Skjelbostad. Þar er elsta myndin skrifuð Skialgobolstadh (Norske elvenavne (1904), bls. 218).

Líklegt er því að bærinn Skjálg dragi nafn sitt af læknum, Skjálgslæk, sem upphaflega hafi líklega heitið Skjálgur og merkt e.t.v. ‘sá sem rennur í bugðum eða hlykkjum’, sbr. merkingu nafnsins Rangá í sömu eða svipaðri merkingu. Í Eyjafirði hafi sama nafn verið haft um Skjálgdalsá, en sjá má á mynd í Árbókinni að hún rennur í bugðum niður dalinn.

Breytingin í Skjóldalsá er skiljanlegri eftir að lenging varð á upphaflegu -a- í skjalg, sem varð skjálg en -á- var líkara /o/ en /a/. Slík breyting var líklegri í samsetningu en í ósamsettu bæjarnafninu Skjálg sem ekki breyttist að því leyti. Nefna má enn fremur að Skjóldalsá kemur úr tveimur Króksám, Nyrðri- og Syðri-, og má e.t.v. hafa það í huga í sambandi við merkingu nafnsins Skjálg.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023