Skip to main content

Pistlar

Skjalaskráning Jóns Sigurðssonar

Nú er þess minnst með margvíslegum hætti að 17. júní 2011 verða 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Hann var geysilega afkastamikill og voru störf mjög margvísleg. Jón er þekktastur fyrir afskipti sín af stjórnmálum, og um hann sagði Páll Eggert Ólason í Íslenzkum æviskrám: „Var forustumaður Íslendinga í sjálfstæðismálum þeirra og framsókn allri um sína daga.“ Einum þætti í starfi hans hefur ekki mjög verið hampað nú, en það er fræðastarfsemi hans, sem var mikil og hefði ein nægt til að halda nafni hans lengi á lofti. Vegna afmælisins hefur verið unnin: Ritaskrá Jóns Sigurðssonar forseta. Bragi Þorgrímur Ólafsson tók saman. Hér er tengill á skrána og geta menn með því að skoða hana sannfærst um ótrúleg afköst hans. Á árunum 1830–33 var Jón skrifari Steingríms Jónssonar biskups, en á heimili hans var mikið og gamalt handritasafn, sem varð fyrsti vísir að handritasafni Landsbókasafnsins. Jón hóf nám við Háskólann í Kaupmannahöfn 1833 og var ráðinn styrkþegi við Árnasafn 30. maí 1835 og naut þar meðmæla biskups. Í Árnasafni vann Jón mikið að skráningu m. a. handrita sem höfðu borist í Árnasafn í byrjun 19. aldar og má þar einkum nefna handrit, sem málfræðingurinn Rasmus Christian Rask og Magnús Stephensen dómstjóri höfðu átt. Einnig skráði Jón af meiri nákvæmni en áður önnur handrit í Árnasafni, en skráningunni varð því miður ekki lokið og nákvæm skrá Jóns liggur oft með handritunum, en einkum var hann nákvæmur við skráningu skjalabóka. Erlend skjöl skráði hann einnig, en ekki verður farið nánar út í það hér. Sjálfstæðisbaráttuna rak Jón á grundvelli sögulegra rannsókna og því var forsenda hennar skjalarannsóknir. Jón sá um I. bindi Íslenzks fornbréfasafns, og eru þar elstu skjöl er snerta Ísland gefin út með nákvæmum skýringum. Þar er m. a. gefinn út Gamli sáttmáli, sem var grundvallarskjal í sjálfstæðisbaráttunni.

Erindi Árna Magnússonar hingað til Íslands 1703 var að semja jarðabók og þess vegna lét hann skrifa upp fjölda skjala nokkuð nákvæmlega og með samræmdum hætti. Frumritin frá 13. öld og fram á 18. eru stundum varðveitt en stundum ekki. Þessar uppskriftir eru í Árnasafni og eru um sex þúsund, 6.000, og eru vanalega nefnd AM. Apogr. Skjöl til 1570 eru gefin út í Íslenzku fornbréfasafni, en mikill hluti þessara uppskrifta, á að giska þriðjungur, er óskráður og óútgefinn. Páll Eggert Ólason sagði svo um hugmyndir Jóns um aðgengi að skjölum (Jón Sigurðsson. I. 1929): „Jón Sigurðsson var svo víðsýnn, að hann sá brátt, að fræðimönnum myndi að fáu jafnmikill styrkur sem því, ef samið yrði glöggt yfirlit um öll íslenzk bréf safnsins. Skildi Jón það manna bezt, að rannsóknir í sögu landsins yrðu aldrei í lagi, nema leitað væri til slíkra frumgagna, en til þess var vitanlega eina úrræðið að hafa skrá um öll slík gögn, er fram í sókti.“

Þess vegna stóð Jón Sigurðsson fyrir því að hafin var efnisskráning skjalabóka í Árnasafni og í Stiftisbókasafninu í Reykjavík. Sjálfur skráði hann Apogr., eða skjalauppskriftirnar, en því verki var lítt framhaldið. Skrá Jóns er spjaldskrá og varðveitt í AM. 234 a–c, 8vo, en komst aldrei lengra en til tæplega þriðjungs uppskriftanna. Hér getur að líta myndir úr handritinu með hinni einstaklega fögru rithendi Jóns Sigurðssonar. Efst til vinstri er ársetning skjalsins, en efst til hægri er tölusetning, númer, uppskriftarinnar. Eins og áður sagði eru yngstu skjölin mörg óprentuð og einhver gætu haft réttarverkan, t. d. í landamerkjamálum.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 28. júní 2018