Skip to main content

Pistlar

Silfur-örnefni

Birtist upphaflega í september 2008.

Allvíða er orðið silfur til í örnefnum á Íslandi. Það á við um berg eða steina, brunna eða fossa o.fl. Verða nú nefnd helstu dæmi um Silfur-örnefnin.

Silfurberg er rani fram úr Ingólfsfjalli í Árn. á móts við Kögunarhól með einkennilega ljósgráum lit, sem minnir á silfur en á ekki við bergtegundina, hið eina og sanna silfurberg. Silfursteinn er í Ávík í Árneshr., Strand. Hann er úr graníti og hefur borist hingað með hafís (Landið þitt I:61). Annar Silfursteinn er í Krossnesi í Árneshr., Strand. Hann er hár og var hella ofan á honum. „Sú saga fylgir, að sá sem gæti tekið helluna ofan með handafli, mætti eiga silfrið, sem undir henni átti að vera. Fyrir nokkrum árum fóru nokkrir strákar til með járnkarl og tóku helluna ofan, en ekkert fundu þeir silfrið.“ (Haukur Jóhannesson, Land og stund, 96). Silfursteinar eru í túni á Víðastöðum í Hjaltastaðahr., N-Múl. Á þá glitraði stundum í myrkri.

Silfursteinn í Ávík á Ströndum. Landið þitt Ísland A-G, bls. 61 (Ljósmynd eftir Pál Jónsson).

Þar sem tærleiki vatns er tilefnið eru örnefnin Silfurbrunnar, uppspretta í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum, Silfurfoss á Þverárdal í landi Munkaþverár, Öngulsstaðahr., Eyf. og annar í Leiðólfsstaðagili í Dal. Þar er eins og glitri á fossinn í síðdegissól. Silfurkvörn er veiðifljót í Fáskrúð í landi Ljárskóga, Dal. Silfurlækur er á Helgustöðum í S-Múl., og gæti þar verið tilvísun til silfurbergsins þar sem frægar silfurbergsnámur voru. Silfra heitir líka gjá í Þingvallatúni í Árn.

Af öðrum örnefnum með silfri má nefna þessi: Silfurdæld er grasi vaxin út frá bænum á Grund í Hrafnagilshr., Eyf. Hún var einnig nefnd Djöfladæld en ástæðu nafnsins er ekki getið (sjá Þjóðsögur Jóns Árnasonar I:332). Silfurgarður við höfnina í Flatey á Breiðafirði. Greitt var fyrir gerð hans með silfri. Silfurhóll í Ölversholti, Holtum, Rang. og Seli, A-Land., Rang. Ekki er vitað um ástæður þessara nafna. Silfurkleif heitir á Kleifaheiði vestra þar sem Kleifakarlinn stendur upp af. Tvennum sögum fer af tilurð nafnsins. Sagt er að í þingferðum sýslumanns nokkurs hafi koffort hans rekist í bergið og brotnað, svo að silfurpeningar hrundu niður í götuna. Önnur sögn er að kostað hafi 40 ríkisdali að gera hestaveg um Silfurkleif og að kleifin dragi nafn af því að vinnan hafi verið borguð í silfri. Silfurteigur er á Eystri-Sólheimum í Mýrdal, V-Skaft. Þar er nú túnslétta. Nafnið er til komið af því, að í hana var sáð daginn, sem hjón á bænum, Sigríður og Þorsteinn, áttu silfurbrúðkaup. Hverfi í Garðabæ var nefnt Silfurtún en ekki er vitað um ástæðu nafnsins.

Á Norðurlöndum og í ýmsum öðrum Evrópulöndum eru orð sem merkja silfur í nöfnum á ám og fossum og stofninn er að finna í bæjarnafninu Silfrastaðir, hvernig sem það nafn er til komið (sbr. Þórhallur Vilmundarson í Grímni I:127–128).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Haukur Jóhannesson. 1984. Örnefni í og við fjöru á Krossnesi í Árneshreppi. Í: Land og stund. Afmæliskveðja til Páls Jónssonar á 75 ára afmæli hans 20. júní 1984. Reykjavík, bls. 83–98.
Jón Árnason. 1961. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Ný útgáfa. Reykjavík.
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. 1984. Landið þitt Ísland I.
Þórhallur Vilmundarson. 1980. Silfrastaðir. Grímnir 1.
Örnefnaskrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum