Skip to main content

Pistlar

Setberg

Birtist upphaflega í júlí 2005.

Setberg var nafn á a.m.k. 7 bæjum á landinu, auk allmargra örnefna. 1) Við Hafnarfjörð. 2) Kirkjustaður í Eyrarsveit á Snæf. 3) Á Skógarströnd í Snæf. 4) Í Fellahr. í N-Múl. 5) Eyðibýli í Borgarfirði eystra, N-Múl. 6) Í Nesjahr. í A-Skaft. 7) Hjáleiga frá Seljalandi, V-Eyjafjallahr., Rang. Auk þess var þurrabúð með þessu nafni í Bæjarskerjum í Sandgerði.

Setberg er allvíða til sem örnefni eins og hér verða rakin dæmi um:

  • Efstidalur í Laugardal, Árn.: Smáfell innst á Kumlabrekku.
  • Langholtspartur í Flóa, Árn.: Klettur sunnan við túnið.
  • Búrfell í Grímsnesi, Árn.: Stóra-Setberg og Litla-Setberg, tveir hnúkar.
  • Nesjar, Grafningi, Árn.: Gróinn stallur um miðja Jórukleif.
  • Dalbær, Hrunamannahr., Árn.: Lítill klettur neðarlega í fjallshlíð.
  • Galtafell, Hrunamannahr., Árn.: Fallegir klettar, sem heita Setberg, en Litla-Setberg er litlu norðar.
  • Staðarhraun, Hraunhr., Mýr.: Stór, bunguvaxinn klettahóll.
  • Ytri-Hraundalur, Hraunhr, Mýr.: Nokkuð stórt klettabelti.
  • Barnafell, Ljósavatnshr., S-Þing.: Skv. skjali frá 1431 (Islandske originaldiplomer indtil 1450. Udgivet af Stefán Karlsson. Editiones Arnamagnæanæ A 7. Kbh. 1963, bls. 284).
  • Reynifell, Rang. Stór steinn, líklega af því fuglar sitja þar oft.


Eins og sjá má eru örnefnin langflest í Árnessýslu, skv. tiltækum heimildum í Örnefnastofnun, en þau kann að vera að finna mun víðar.

Merking nafnsins er í nútímamáli ‘klettur (líkur sæti í lögun, flatur að ofan)’ (Íslensk orðabók Eddu), einnig almennt ‘klettahóll, gróinn klettastallur, smáfell, hnúkur, stór steinn’ eins og sjá má hér að ofan. Í fornu máli er setberg nefnt í Grottasöng: „færðum sjálfar setberg ór stað“ (11. erindi) sem á við kvarnarstein, og í Snorra-Eddu segir Útgarða-Loki við Þór: „En þat váru hamarspor þín þar er þú sátt hjá höll minni setberg ok þar sáttu ofan í þrjá dali ferskeytta ok einn djúpastan – setberginu brá ek fyrir höggin“ (Íslendingasagnaútgáfan, bls. 75). Í báðum þessum dæmum virðist merkingin vera ‘berg með lægð í’. Johan Fritzner skýrir orðið í fornmálsorðabók sinni sem „Bjerg, Fjeld som udmærker sig ved deri værende Sænkninger eller Fordybninger“ (4. útg. 1973:212). En Guðbrandur Vigfússon og Cleasby gefa þýðinguna „a seatformed or saddle-formed rock or crag“ í Icelandic-English Dictionary. Síðan er bætt við um örnefnið Setberg: „These fells were looked on as the mountain-seats of tutelary giants (land-vættir)“ (2. útg. 1957:524).

Í Noregi var til bæjarnafnið Setberg á þremur stöðum, skv. Oluf Rygh, Norske Gaardnavne: 1) í Kvinnherred: „Gaarden ligger i Skraaningen under et fremskydende Fjeld lige ved en liden langstrakt Forhøining eller Ryg“ (NG XI:32), 2) Rauland (NG VII:457) og 3) Bygland: „Om Situationen meddeles det mig, at den har en vis Lighed med en Stol, idet Gaarden ligger ligesom paa et Trin, medens en Fjeldvæg ovenfor danner Rygstød.“ (NG VIII:201). Ivar Aasen segir um orðið Sete á Þelamörk: „en liden Flade i en Klippe eller paa en Bjergtop“ (Norsk Ordbog, 4. útg. 1918:645).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023