AM 102 8vo er sálma- og kvæðahandrit frá sautjándu öld. Forsíðu vantar og þar með upplýsingar um hver skrifaði og hvenær – en svo vel vill til að þær leynast inni í handritinu. Fremst eru ljóðmæli sr. Jóns Arasonar (1606-1673) prófasts í Vatnsfirði og hefur skrifari víða sett ártal við þau (t.d. 1645 og 1646). Í fyrirsögn fyrsta sálms segir að hann sé úr þýsku snúinn „af föður mínum sæla blessaðrar minningar“. Af því má ráða að eitthvert barna sr. Jóns í Vatnsfirði hafi skrifað þennan hluta handritsins. Auk sálma eru þarna erfikvæði eftir Ragnheiði Eggertsdóttur, ömmu, og Ara Magnússon, föður Jóns í Vatnsfirði („afa minn“ eins og segir í fyrirsögn) svo og sextánmælt vísa eftir sr. Jón þar sem hann telur upp níu börn sín sem þá eru á lífi. Nokkru aftar er „æru, lífs og andláts minning föðurs míns sæla, séra Jóns Arasonar, nú blessaðrar minningar í ljóð snúin af mér, G.J.S.“ Þar með er skrifarinn fundinn; sr. Guðbrandur Jónsson (1641–1690) prestur í Vatnsfirði. Guðbrandur hefur skrifað fyrsta hluta handritins en aftar eru aðrar hendur og er þar að finna morgun- og kvöldsálma, píslarminningu Kolbeins Grímssonar, nýárssálm eftir Hallgrím Pétursson og fleira. Handritið er ekki síst merkilegt vegna þess að í aftasta kveri þess eru nótur við textana; tveir tvísöngssálmar og sjö tvísöngslög, þar á meðal kvæði sem hefur fyrirsögnina ‘Vísur nokkrar við öl með bassa og tenór’.
Textinn er eftir sr. Stefán Ólafsson í Vallanesi en ekki er vitað um uppruna lagsins. Þeir sem hafa áhuga á að heyra hvernig það hljómar geta fundið það á geisladisknum Hymnodia sacra í flutningi félaga úr Kammerkórnum Carmina (Lánið drottins lítum mæta). Síðan koma tveir fjórraddaðir latneskir söngvar sem ættaðir eru úr skoska Buchanan-saltaranum en svo nefnist lítið kver sem prentað var í Þýskalandi árið 1585 með Davíðssálmum, umortum af skoska skáldinu George Buchanan (1506–1582) undir klassískum bragarháttum, við lög sem eignuð eru kantornum Statius Olthof (1555–1629). Buchanan-saltarinn var geysivinsæll á Íslandi eftir siðskipti eins og sést af því að a.m.k. 18 handrit varðveita lög úr honum. Einnig er í handritinu sálmur eftir sr. Ólaf Jónsson á Söndum: (Ó) Jesú minn ég finn. Svo skemmtilega vill til að heimildir eru um að sonur sr. Ólafs á Söndum, Guðmundur (f. ca. 1590-1600) hafi verið vel að sér í tónlist og að hann hafi kennt Guðbrandi, skrifara handritsins, söng. Handritinu lýkur á broti úr sálmi úr Buchanan-saltaranum sem hefst á orðunum: Luce voco te, en nótur vantar. Ekki er vitað hvernig handritið komst í eigu Árna Magnússonar en það er vel meðfarið og virðist minna notað en önnur sams konar handrit. Árni Heimir Ingólfsson hefur fjallað ítarlega um handritið, sbr. heimildaskrá.
Birt þann 19.06.2018