Birtist upphaflega í desember 2004.
Austan Esju í Gullbringusýslu eru hnúkar sem kenndir eru við Móskörð. Á korti yfir Gullbringu- og Kjósarsýslu sem Björn Gunnlaugsson teiknaði fyrir Bókmenntafélagið 1831 hefur hann skrifað Móskarðahnúkr (Haraldur Sigurðsson, Kortasaga Íslands frá lokum 16. aldar til 1848, milli bls. 244 og 245 (1978)).
Jónas Hallgrímsson nefnir Móskarðahnúka svo í sínum skrifum, m.a. í dagbókum 1840 (Ritverk. Bréf og dagbækur II:364 (1989)). Hið sama gerir sr. Magnús Grímsson í Ferðabók sinni fyrir sumarið 1848, bls. 12 og víðar (1988). Hann talar um Móskarðahnúkinn enn eystasta sérstaklega (14). Um tildrög nafnsins hefur hann þessi orð: „grjótið í öllum þessum hnúkum er ljósrautt tilsýndar, og þar af mun Móskarða-nafnið dregið“ (12).
Þannig lýsir sr. Stefán Þorvaldsson hnúkunum undir fyrirsögninni Fjöll í sóknalýsingu Mosfells- og Gufunessókna 1855: „Móskörð, háir fjallahnúkar af gulleitu (Thrachyt) grjóti, vestanvert við Svínaskarð. Þetta fjall er hæsti tindur allrar Esjunnar.“ (Sýslu- og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs III:221 (1937–39)).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir Móskarðshnúk 1890 (Ferðabók III:10) (1958) en Móskarðshnúka 1883 (Ferðabók I:102), og 1898 (Ferðabók IV:114). Sú nafnmynd hefur yfirleitt birst á opinberum kortum fram undir þetta. Á nýju korti Landmælinga Íslands, Ferðakorti 2 í mælikvarðanum 1:250.000 (2003), er nafnmyndin þó Móskarðahnúkar, sett að tillögu Örnefnastofnunar.
Í landamerkjalýsingu Eyja í Kjós frá 1887 er hnúkanna ekki getið en hinsvegar í landamerkjalýsingu frá 1921, þar sem segir: „alla leið suður á Móskarðahnúk“.
Egill J. Stardal lýsir Móskörðum á þessa leið í Árbók Ferðafélags Íslands 1985: „Móskörð eru hnjúkahvirfing úr baulusteini eða líparíti. Austasti hnjúkurinn og þeirra tígulegastur er Móskarðahnjúkur, sem rís vestan Svínaskarðs, einn og stakur eins og tröllvaxinn píramídi.“ (92). (Sjá mynd á bls. 93.) Í sömu bók talar Ingvar Birgir Friðleifsson um Móskarðahnúka (m.a.144–145, mynd bls. 163) en einnig í eintölu um Móskarðahnúk (166). Sr. Gunnar Kristjánsson skrifar í sömu bók um Móskarðshnúka (180).
Örnefnaskrár í Örnefnastofnun nefna ýmist Móskarðahnúka (þar á meðal Egill J. Stardal) eða Móskarðshnúka og eru heimildarmenn um sitt hvort jafnvel frá sama bæ og sýnir það hversu mjög á reiki nafnmyndirnar hafa verið. Yfirleitt er við því að búast að orðmyndin –hnúkur sé á Suðurlandi en –hnjúkur norðan- og austanlands, en sumum finnst hnjúkur „réttari“ mynd en hnúkur.
Sérkennilegt er að kalla –skörð fjöll eins og sr. Stefán gerir í sóknalýsingu sinni en skörðin eru fleiri en eitt og því eðlilegt að nefna hæsta hnúkinn Móskarðahnúk. Ekki er gott að segja um hvort eintalan –hnúkur hefur leitt af sér eintöluna Móskarðs-, eða hvort Svínaskarð austan við hann hefur haft áhrif á það. Fleirtalan Móskarða- kann að hafa haft áhrif á myndun fleirtölunnar –hnúkar, þó að vissulega lægi beint við að hafa þá mynd, af því að hnúkarnir eru fleiri vestur af honum og eru nafnlausir.
Síðast breytt 24. október 2023