Skip to main content

Pistlar

Mikilvæg heimild um siðaskiptin á Íslandi

Í tilefni þess að 500 ár eru liðin frá því að Marteinn Lúther hóf siðbót sína var Margrét Eggertsdóttir fengin til að skrifa pistil um handrit sem tengist siðaskiptatímanum á Íslandi.

AM 215 fol. Mikilvæg heimild um siðaskiptin á Íslandi

Ritgerð Jóns Gissurarsonar um siðaskiptatímana er ein af elstu heimildunum um þá örlagaríku atburði sem urðu í kjölfar þess að nýr siður var tekinn upp hér á landi. Að mati fræðimanna bætir hún ýmsu við biskupsannála Jóns Egilssonar (1548–um 1636), sem talin er mikilvægasta heimildin um sögu 16. aldar. Hún er varðveitt í handritinu AM 215 folio, alls 23 blöð.

Jón Gissurarson (um 1590–1648), hálfbróðir Brynjólfs biskups Sveinssonar, var af helstu lærdómsætt landsins og tengdur ýmsum þeim sem helst koma við sögu siðaskiptanna á Íslandi, t.d. var Gissur Einarsson (um 1512–1548), fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi, afabróðir hans. Eins og Gissur dvaldi Jón um tíma í Þýskalandi þar sem hann lærði gullsmíði. Jón varð síðar lögréttumaður og afkastamikill handritaskrifari.

Ritgerðin hefur hvorki titilsíðu né fyrirsögn en ekki fer á milli mála hver höfundur hennar er því að þar segir: „Gissur Þorláksson [...] hann giftist Ragnheiði, dóttur Páls Jónssonar á Reykhólum; þau áttu nokkur börn saman, hvör ung sáluðust, utan Jón Gissursson, sem þetta hefir upp skrifað, eftir því sem hann hefir getað því saman safnað eftir gamalla manna skrifi og frásögn“ (bl. 10r–v). Hér kemur einnig fram að Jón notaði bæði skriflegar og munnlegar heimildir.

Ritgerðin er prentuð í ritinu Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju sem kom út árið 1856. Í formála sínum að þeirri útgáfu gerir Jón Sigurðsson grein fyrir rituðum heimildum sem Jón Gissurarson hafði fyrir sér. Þær notaði hann á sjálfstæðan hátt og greindi stundum ítarlegar frá atburðum en þar er gert og mun þá hafa fylgt sögum föður síns og afa. Jón Sigurðsson bendir einnig á að af ritgerðinni sjálfri megi draga þá ályktun að hún sé samin eftir 1643.

Skipta má ritgerðinni í þrjá meginhluta en höfundur skiptir henni sjálfur í marga smákafla með fyrirsögnum. Fyrsti hlutinn er um Stefán biskup og Ögmund biskup og um „hina fornu höfuðsmenn“. Hann nær aðeins yfir kaþólska tímabilið og endar á yfirliti yfir „gömlu siðina“. Í öðrum hluta er mest sagt frá þeim biskupum sem fylgdu nýja siðnum, Gissuri biskupi og Marteini biskupi en einnig frá Daða bónda í Snóksdal. Við lok þessa kafla hefur höfundur sett “Finis” og hefur því einhvern tíma ætlað að hætta þar. Þriðji hlutinn er eins konar viðauki, mest um Eggert Hannesson, lögmann í Bæ á Rauðasandi, og hans ætt. Handritið endar á ættartölu skrifarans, þ.e. „Mín ættartala frá Eggert Eggertssyni“.

Í ritgerðinni eru dregnar upp skýrar og eftirminnilegar myndir af mönnum sem koma við sögu, t.d. af Ögmundi Pálssyni (um 1475–1541), síðasta kaþólska biskupnum í Skálholti. Frásögn Jóns af uppvexti og námsferli Gissurar Einarssonar er einnig mjög lifandi og áhugaverð. Jón segir að Ögmundur biskup hafi verið farinn að hugsa um sinn eftirmann og sent eftir Gissuri – sem þá stundaði nám hjá Halldóru abbadís á Kirkjubæjarklaustri – vegna þess að hann hafði „atgjörvis hugvit og persónulega prýði yfir aðra sem þá voru þar uppvaxtarmenn“ (bl. 11r). Þá var Gissur 16 ára að aldri. Um vorið var honum svo komið í skip og hann sendur til Hamborgar þar sem hann var við nám í þrjú ár
„og lærði með stórri kostgæfni, sem mögulegast mátti verða, ekki á lengri tíma. Hann hafði hraða hönd að skrifa, og neytti hennar að teikna upp allt hvað hann heyrði og sá, ekki alleinasta í skóla og kirkju, heldur og jafnvel það hann frétti og forvitlegt var, svo hans skólameistari hafði dáðst þar að og sagt: ‘Það sé ég á þér, þú íslenski sveinn, að þín hönd hjálpar þér einhvörn tíma’; hann hélt því orði uppi meðan hann lifði; hann hefur aldrei þegið svo lítið, að hann hafi það ei skrifað, og aldrei miðlað og lofað svo litlu, að hann skrifaði ekki“ (bl. 11v).

Þess má geta að elsta varðveitta pappírshandrit á íslensku, AM 232 8vo, er bréfabók Gissurar Einarssonar.

Í ritgerðinni kemur fram að Gissur talaði þýsku svo vel að Þjóðverjar héldu að hann væri fæddur þar í landi. Þessu til sönnunar er rakin saga af því þegar Gissur hafði verið kosinn til biskups. Þá sigldi hann til Kaupmannahafnar og kom fyrir Kristján Danakonung þar sem hann mátti velja að flytja mál sitt á latínu eða þýsku. Hann valdi þýsku og trúði drottningin því ekki að hann væri íslenskur en til að ganga úr skugga um að svo væri var sóttur íslenskur piltur og þeir látnir lesa saman texta catechismi, þ.e. fræða Lúthers. Jón bætir við: „Þótti Gissuri kóngur spyrja sig margra óþarfra hluta, sérdeilis um Heklufjall“ (bl. 11v).

Fremst í handritinu er seðill með hendi Árna Magnússonar með skrá yfir innihald þess. Þar kemur fram að ritgerð Jóns var upphaflega í stærri bók sem Árni fékk hjá Þorláki Þórðarsyni, sem var sonur Þórðar biskups Þorlákssonar í Skálholti. Þorlákur var skólameistari í Skálholti en lést aðeins 22 ára að aldri árið 1697. Allt bendir til þess að handritið sé upphaflega komið frá Brynjólfi biskupi, hálfbróður skrifarans. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við handritinu 27. september 1974.

Birt þann 1. október 2017
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ritgjörð Jóns Gizurarsonar um siðaskipta tímana, með formála og athugagreinum eptir Jón Sigurðsson, Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju I, bls. 640–701 (Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag 1856).

Ritgjörð Jóns Gizurarsonar um siðaskipta tímana, með formála og athugagreinum eptir Jón Sigurðsson. E. J. Stardal sá um útgáfuna (Reykjavík: Ísafold 1970).

Vilborg Auður Ísleifsdóttir, Siðbreytingin á Íslandi 1537–1565. Byltingin að ofan. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1997).