Skip to main content

Pistlar

Melbreið

Birtist upphaflega í september 2004.

Bærinn sem nú heitir Melbreið í Fljótum í Skagafirði er í elstu heimildum, fornbréfi frá 1471, nefndur Mjölbrigðastaðir(Íslenzkt fornbréfasafn V:625). Sama er að segja um Vallaannál eftir sr. Eyjólf Jónsson á Völlum í Svarfaðardal (1670-1745) sem nefnir Mjölbrigðastaði við árið 1723 (Annálar 1400–1800 I:524). Í skrá um eignir Hólastóls eftir dauða Jóns Arasonar 1550 er nafnmyndin orðin Melbrigðastaðir (Ísl. fornbréfasafn XI:872). Í Bréfabók Þorláks biskups Skúlasonar (1979) er komin myndin Mélbrigðastaðir árið 1650 þegar skoðun og virðing er gerð á jörðinni (175). Breytingin frá –brigð- til –breið- hlýtur að hafa gerst á áratugunum eftir það, því að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er nafnið Mélbreiðarstaðir (IX:323). Í Lögþingisbókinni 1779 er nafnið Mjölbreiðastaðir (Alþingisbækur Íslands XV:601) en í Jarðatali Johnsens frá 1847 er nafnmyndin aftur Mjölbrigðastaðir (275). Í Jarðabók 1861 er Melbreið aðalnafnið en Mjölbrigðastaðir hafðir innan sviga (102).

Melbrigðuflá er mýraflói á mörkum Auðkúluheiðar í Húnavatnssýslu. Jónas Bjarnason nefnir hana svo í grein sinni um heiðina (Göngur og réttir III:271). Í handriti sínu frá 1941 sem varðveitt er í Örnefnastofnun skrifar hann hins vegar Melbrigtsflá. Í vélriti hans frá 1952 er nefndur Melbrigðuás fyrir vestan merki Auðkúluheiðar, þ.e. í Dalskvíslalandi, alllangur ás í Melbrigðuflá. Myndin Melbrigðaflá sem Hermann Pálsson gengur út frá (Keltar á Íslandi (1996), 191) á því tæpast rétt á sér.

Örnefnin öll eru talin dregin af írska mannsnafninu Máel-Brigte ‘þjónn Bríetar’. Melbrikta tönn var skoskur jarl á 9. öld og Melbrigði hét Orkneyingur á 12. öld (Orkneyinga saga, Íslenzk fornrit 34:9, 145, 151, 152; Hermann Pálsson, Keltar á Íslandi (1996), 191; Helgi Guðmundsson, Um haf innan (1997), 17, 183–184).

Helgi telur að írsku myndina mail:brikti sem fyrir kemur á rúnaristu á Mön og er úr Máel-Brigte væri eðlilegast að lesa „Meil-brigði“ á norrænu (17) en sú mynd er ekki varðveitt í norrænum textum. Forliður nafnsins hefur líklega haft tvíhljóð í upphafi, Mjöl-, Mél-, en umtúlkun skýrir nafnmyndina Melbreiðarstaðir, sem styst hefur í Melbreið (´breiður melur’). Menn með nafni sem samsvaraði írska nafninu Maél-Brigte hafa líklega verið hér á landi í upphafi byggðar og örnefnin vafalítið leidd af þeim.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023