Í nútímamáli hefur orðið leikfang skýra og einræða merkingu: „hlutur ætlaður (börnum) til að leika sér að“, stendur í Íslenskri orðabók (2002).
Þegar málheimildir fyrri alda eru teknar til vitnisburðar koma í ljós fleiri merkingarafbrigði. Af notkunardæmum í ritmálssafni Orðabókar Háskólans má ráða að upphafleg merking orðsins er ‘viðureign, fangbrögð, glíma’, jafnvel ‘leikur eða skemmtun’.
„Djarft er að eiga leikfang við ljónið“, stendur í Málsháttasafni Guðmundar Jónssonar frá því um 1800 og „Allt of margir taka þennan dag hvað helst til ýmislegs leikfangs og skemmta holdi sínu á honum með ýmsum leikum“, segir í kristilegum hugvekjum frá miðri 18. öld.
Síðar kemur fram merkingin ‘viðfangsefni í leik’, en það er ekki fyrr en um miðja 19. öld að merkingin ‘efni eða hlutur sem einhver leikur sér með’ verður sýnileg. Lengi vel virðist orðið eingöngu haft um efnisheiti bundið við eintölu: „barnaglingur og ýmislegt leikfang“, stendur í Felsenborgarsögum frá miðri 19. öld. Loks nær orðið fótfestu sem hlutarheiti eins og það er notað í nútímamáli og tekur fleirtölu eins og önnur nafnorð með hliðstæðu tákngildi.
Merkingartengsl af því tagi sem hér birtast gera oft vart við sig í málinu. Óhlutstæð merking, hvort sem vísað er til athafnar, hugarástands eða annars, hefur sér við hlið hlutstæða merkingu, t.d. um það sem athöfnin beinist að. Oft lifa báðar merkingarnar góðu lífi hlið við hlið, en það kemur einnig fyrir, eins og saga orðsins leikfang sýnir, að óhlutstæða merkingin hverfur að meira eða minna leyti í skuggann.
Síðast breytt 24. október 2023