Í tilefni þess að handritin GKS 1002 og 1003 fol. hafa verið mynduð, myndirnar settar á handrit.is ásamt ýtarlegri skráningu, var Susanne M. Arthur fengin til að skrifa um þau handritapistil marsmánaðar.
Á meðal handrita sem varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru tvö stór og glæsileg skinnhandrit, GKS 1002 fol. og GKS 1003 fol. Handritin eru klædd rauðu flaueli, kjölur er upphleyptur á uppistöðum og sniðin gyllt.
Handritin innihalda eftirtaldar Íslendingasögur, fornaldarsögur og riddararsögur: Karlamagnúsar sögu, Grettis sögu, Mágus sögu, Hrólfs sögu kraka, Flóres sögu og Leó, Sigurgarðs sögu frækna, Hektors sögu, Sigurðar sögu þögla og Önundar þátt tréfóts í GKS 1002 fol. og Hrólfs sögu Gautrekssonar, Göngu-Hrólfs sögu, Þorsteins sögu Víkingssonar, Njáls sögu, Finnboga sögu ramma, Þórðar sögu hreðu, Kjalnesinga sögu, Jökuls þátt Búasonar og Orms þátt Stórólfssonar í GKS 1003 fol.
Handritin tvö eru glæsilegir gripir, á borð við fræg miðaldahandrit eins og Möðruvallabók, Kálfalækjarbók eða Flateyjarbók. Textarnir eru skrifaðir í tveimur dálkum og titilsíðurnar, sem og upphafsstafir í sögunum, eru skreyttar með fallegu pennaflúri.
Þótt GKS 1002 og 1003 fol. séu skrifuð á skinn er hér ekki um miðaldahandrit að ræða. Samkvæmt titilsíðunum voru handritin skrifuð árin 1667 (GKS 1002 fol.) og 1670 (GKS 1003 fol.), en á þeim tíma var miklu algengara að nota pappír en skinn til handritsgerðar.
Bréf fylgir handritunum, sem fest er fremst í GKS 1002 fol. Það er dagsett 29. janúar 1692 og skrifað af Birni Þorleifssyni sem þá var prestur í Odda á Rangárvöllum. Í bréfinu kemur fram að bækurnar voru gjöf til Kristjáns fimmta Danakonungs. Þótt handritin séu kostagripir, verðugar konungagjafir, voru þau ekki upprunalega skrifuð fyrir konung, eins og fram kemur á titilsíðum.
Texti titilsíða hefur verið skafinn burt og er að stórum hluta ólæsilegur. Þó tókst Desmond Slay að lesa hann árið 1960 með því að nota útfjólublátt ljós (sem er ekki leyft nú á dögum). Á titilsíðunum kemur fram að handritin voru skrifuð af Páli Sveinssyni á Geldingalæk á Rangárvöllum að beiðni Jóns Eyjólfssonar í Múla í Fljótshlíð „til gamans, gleði og dægrastyttingar“ hans og annarra guðhræddra manna (Slay 1960:144).
Þótt fleiri handrit séu þekkt með hendi Páls Sveinssonar er hann sjálfur svotil óþekktur. Í manntali frá árinu 1703 finnst maður að nafni Páll Sveinsson, sjötugur, búandi á Ásgautsstöðum í Stokkseyrarhreppi. Um hann er sagt að hann sé „faðir Herborgar, sjóndapur og burðalasinn ómagi“. Páll Sveinsson þessi var fæddur um 1633 og bjó að Björk í Flóa áður en hann flutti til dóttur sinnar. Sonur hans hét Sveinn Pálsson, bóndi í Snóksnesi og seinna Votumýri á Skeiðum (Guðni Jónsson 1952:279). Það er hugsanlegt að Páll Sveinsson þessi hafi skrifað GKS 1002 og 1003 fol. Í öðru handriti sem tengist Páli Sveinssyni (AM 2 fol.) er varðveittur seðill með hendi Árna Magnússonar, þar sem segir að samkvæmt Gísla Álssyni, presti á Kaldaðarnesi í Flóa, hafi „Páli … daprast sjón“ (Slay 1960:147). Athugasemdin gæti átt við sama mann og getið er í manntalinu frá 1703, þ.e. um sjóndapran Pál á Ásgautsstöðum.
Fátt er vitað um Jón Eyjólfsson í Múla, ritbeiðanda handritanna. Desmond Slay (1960:145) telur að hann hafi verið vel stöndugur bóndi og að fjölskyldan hafi búið í Múla mann fram af manni. Bæði afi hans og faðir, hann sjálfur, sonur hans og sonarsonur bjuggu þar. Enn fremur var móðir hans, Þórdís Eyjólfsdóttir, dóttir sýslumanns (sjá einnig Sýslumannaæfir4:444).
Eins og áður sagði, segir á titilsíðu GKS 1002 fol. að bókin hafi verið skrifuð til skemmtunar Jóni og öðrum guðhræddum mönnum í Rangárvallasýslu. Þótt ekki sé vitað hverjir þessir menn voru, er líklegt að á meðal þeirra hafi t.d. verið Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholti og Þorleifur Jónsson, faðir Björns Þorleifssonar sem seinna gaf Kristjáni konungi handritin. Þorleifur hafði verið prestur í Odda á undan syni sínum Birni. Nafn Þorleifs finnst t.d. á spássíu Oddabókar (AM 466 4to, bl. 46r) þar sem hann segist vera eigandi hennar árið 1645.
Desmond Slay (1960:149) telur margt benda til þess að Björn Þorleifsson hafi gefið konungi bækurnar til að liðka fyrir því að hann fengi biskupsembættið á Hólum, sem var laust. Ekki er vitað hvenær handritin voru bundin og klædd rauðu flaueli, hvort það var gert strax, hvort Björn hafi látið gera það eftir að handritin voru komin í hans eigu eða það verið gert í Kaupmannahöfn þegar þau voru komin í bókasafn konungs. Slay (1960:150) er þó sannfærður um að textinn á titilsíðunum hafi verið skafinn í burt að beiðni Björns. Í bréfinu til Kristjáns fimmta leyndi Björn ekki þeirri staðreynd að handritin voru upprunalega skrifuð fyrir annan en konunginn. Hann kallar þau „fornminjar“ (antikviteter). Desmond Slay (1960:150) telur að Björn hafi skafið burt texta titilsíðanna annaðhvort af því að honum þótti ótilhlýðilegt að nöfn fyrrverandi eigenda stæðu í bókum sem voru ætlaðar Danakonungi eða í þeirri von að handritin sýndust eldri, að þau litu út fyrir að vera frá miðöldum.
Vonir Björns Þorleifssonar um biskupsembætti brugðust því 30. janúar 1692, daginn eftir að hann skrifaði bréf sitt til Kristjáns konungs fimmta, var Einar Þorsteinsson vígður Hólabiskup en Björn varabiskup. Björn bjó áfram í Odda þar til hann fékk Hólabiskupsdæmi árið 1697.
Handritin glæsilegu komu svo aftur heim til Íslands 1984, þar sem Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við þeim hinn 16. nóvember.
Síðast breytt 24. október 2023