Skip to main content

Pistlar

kontórstingur

Kontórstingur er útsaumsspor sem notað er í útlínur ýmiss konar. Í ritmálsafni Orðabókari Háskólans eru aðeins þrjú dæmi um orðið, það elsta úr Fjallinu og drauminum eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson (1944):

Frúin Emilía kenndi stúlkunum hannyrðir, kenndi þeim flatsaum og krosssaum, kontórsting og aftursting.

Orðið kontórstingur er tökuorð úr dönsku (kontursting) en fyrri hlutinn er dreginn af franska orðinu contour ‘útlína, fyrirmörk’. Þessi orðhluti á sér ekki hliðstæðu í öðru íslensku orði en er gjarnan ruglað saman við tökuorðið kontór sem merkir ‘skrifstofa’. Það orð er einnig tökuorð úr dönsku sem ættað er frá franska orðinu comptoir sem merkir ‘búðarborð’ (sjá Íslenska orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon 1989).

Orðið kontórstingur er eldra í málinu en dæmin í ritmálssafninu sýna og í vikuritinu Landinu er dæmi frá 1916 þar sem amast er við orðinu (2. árg., 49. tbl., bls. 195):

Þó held ég að kvenfólkið sé verst. Það er alveg sérstaklega hugsunarlaust í þessu efni, svo að það er varla til sá hlutur í búri eða eldhúsi, að hann hafi íslenzkt nafn. En þó tekur út yfir allan þjófabálk um hannyrðir kvenna eða klæðnað. Ljótt orð er kontórstóll, en hvað segið þið um kontórsting, hexesting eða húllsaum, að ég ekki nefni undirlíf, niðurdeil o. s. frv. Það er alveg átakanlegt að heyra það. [Leturbreyting KB]

Orð af þessu tagi rata ekki oft á prent enda er það dæmigert fyrir orð sem komast á kreik í talmáli. Slík orð eiga sér oft samheiti sem frekar eru notuð í ritmáli. Í fyrstu íslensku hannyrðabókinni Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir sem út kom 1886 er kontórstingur nefndur leggsaumur en þar er elsta dæmi í ritmálsskrá um það orð.

Leggsaumur eða kontórstingur

Úr bókinni Leiðarvísir til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir (1886, bls. 10):
„Á mynd þessari er kenndur leggsaumur, og eru þannig saumaðir leggir á blómum og blöðum.“

Eldri dæmi um orð um þessa saumagerð í ritmálssafninu eru varpleggur og varpsaumur og er fyrra orðið haft sem skýring á orðinu kontórstingur í Íslenskri orðabók (2003). Þá notar Elsa E. Guðjónsson þetta orð í bókum sínum um íslenskan útsaum, t.d. í Íslenskar útsaumsgerðir (1975, bls. 18):

Varpleggur (varpsaumur) er ýmist saumaður eftir áteiknuðum línum eða eftir þræði. Algengast er að sporið sé tekið þannig að nálin komi upp þar sem henni var stungið niður í næsta spori á undan. Nálin kemur ávallt upp sömu megin við sporin. 

Elsta dæmi um orðið varpleggur í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr skýrslu Sigurðar Guðmundssonar um Forngripasafn Íslands (1868-1874; II, bls. 118):

Varpsaumur, eða varpleggur, eins og steypilykkja tíðkaðist þá mikið á pilsum og svuntum kvenna.

Í ritmálsskrá eru fjölmörg eldri dæmi um orðin varpsaumur og varpsaumaður, t.d.:

  • Jtem Rautt alltaris klædi varpsaumad. (Bps.AII,11, 789 (1690))
  • Annad [e: altarisklæði] brukanlegt med varpsaum. (Bps.AII,11 47 (1675))
  • þridie [e: altarisdúkur] af hvitu Lereffti med blaum varpsaum a hornum og midiu. (Bps.BIII,16, 196 (1748)) 

E.t.v. hafa þessi orð lagst af vegna hættu á misskilningi þar sem einnig er talað um að varpa sauma eða jaðra í gjörólíkri merkingu, þ.e. ‘sauma yfir brún á e-u’ sbr. orðið skóvarp.

(mars 2003/apríl 2019)

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 4. júlí 2024
Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Dahlerup, Verner. 1929. Ordbog over det danske sprog. Det danske sprog- og litteraturselskab, København.
  • Elsa E. Guðjónsson. 1975. Íslenskar útsaumsgerðir. Reykjavík.
  • Elsa E. Guðjónsson. 1985. Íslenskur útsaumur. Veröld, Reykjavík.
  • Íslensk orðabók. 3. útg. 2003. Ritstj. Mörður Árnason. Edda hf, Reykjavík.
  • Landið. Ritstjóri Jakob Jóh. Smári. Reykjavík. Vikurit, gefið út 1916–1918. Tímarit.is.
  • Leiðarvísir til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir eptir Þóru Pjetursdóttur, Jarðþr. Jónsdóttur og Þóru Jónsdóttur. Reykjavík 1886. Prentaður hjá Sigm. Guðmundssyni.