Skip to main content

Pistlar

*kona ( eða Hugleiðingar um rof milli raunveruleika og kynjunar)

Mörg hefðbundin starfsheiti eru karlkyns, þrátt fyrir að bæði karlar og konur beri þau. Því hefur verið haldið fram að þessi karllægni málsins beri í sér kynjamisrétti, sem beri að vinna gegn (sjá t.d. Þorgerður Þorvaldsdóttir, 2001). Eftir kyni nafnorða fer kyn fallorða sem taka kynskiptri beygingu (Eiríkur Rögnvaldsson, 1990) og því getur komið til togstreitu milli kynjanna, a.m.k. þeirra málfræðilegu, þegar vísað er til starfsheita kvenna. Dæmi um þetta gæti verið:
 

(1) *Listamaðurinn er ánægð með niðurstöðu úthlutunarnefndarinnar.

 

Til að leysa þetta vandamál hafa þeir sem vilja forðast þessa togstreitu notað samsvarandi kvenkennt starfsheiti. Þannig má leysa úr vandanum svona:

 

(2) Listakonan er ánægð með niðurstöðu úthlutunarnefndarinnar.

 

Konur, sem barist hafa fyrir jafnri stöðu kvenna og karla, hafa gert kröfu til þess að dregið sé úr karllægni málsins og að þær verði sýnilegri í daglegu máli (sjá t.d. Ásta Svavarsdóttir, 2015). Þar sýnist sitt hverjum, ýmist um kvenkynjuðu starfsheitin eða þau karlkynjuðu. Hér er markmiðið þó ekki að reyna að útkljá þann ágreining heldur ætla ég að telja orð. Til að byrja með ætla ég að skoða hversu oft orðið þingkona birtist í ræðum Alþingismanna/kvenna frá árinu 1980 (orðinu skaut sárasjaldan upp fram að því á Alþingi), sem hlutfall af tíðni orðsins þingmaður.
 

 

 

Árið 1983 náði Kvennalistinn inn þremur þingmönnum. Þeir vildu láta kalla sig þingkonur. Kvennalistinn hafði fulltrúa á þingi næstu 16 árin, allt til ársins 1999. Á tímabilinu sem ég skoða var orðið þingkona fyrst notað í þingræðu þann 5. desember 1983 (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, 1983). Næst var það notað rúmum tveimur mánuðum síðar þegar Eiður Guðnason fór upp í pontu til að hallmæla „orðskrípinu“, sem hann kallaði svo (Eiður Guðnason, 1984). Varðmenn hefðarinnar hafa síðan tekið málið upp af og til. Í ræðu árið 1992 sagði Hjörleifur Guttormsson: „Mér hefur alllengi verið hugleikin spurningin um notkun orðsins maður og sem andheiti við konu og mér finnst vera alveg fáránleg málnotkun og er því miður að festast nokkuð í sessi. ... Ef menn ætla að festa slíkt í málinu á að nota andheitið karl og segja þingkarl og þingkona, en ekki þingmaður og þingkona. Það er tóm endileysa samkvæmt minni máltilfinningu.“ (Hjörleifur Guttormsson, 1992). Notkun kvenkennda starfsheitisins mætti þannig andstöðu og eins og sjá má fór notkun þess að dala nokkuð þegar leið fram á tíunda áratuginn og notkunin hefur ekki náð sér á strik í þingræðum síðan. Öðru máli virðist hins vegar gegna um notkun orðsins í daglegu máli, a.m.k. ef prentmiðlar eru einhver vísbending um daglegt mál.

 

 

Þegar það efni sem er leitarbært á Tímarit.is er skoðað sést að orðið þingkona var sáralítið notað allt fram á níunda áratug 20. aldar. Þá varð hins vegar algjör sprenging. Þetta er í takt við það sem gerðist á Alþingi og virðist vera á ábyrgð þingkvenna Kvennalistans. En hvernig hefur þróunin verið í öðrum starfsheitum þar sem greint hefur verið á milli karla og kvenna? Hafa þær breytingar verið tímabundnar eða hafa þær fest sig í sessi?

 

Til að fá vísbendingar um það byrja ég á að telja orð í Markaðri íslenskri málheild (MÍM). Upp úr þeirri talningu bý ég til lista yfir algengustu starfsheitin sem þar koma fyrir og enda á -kona. Þá finn ég karlkynjuð orð samsvarandi merkingar, sem þó geta átt við fólk af báðum kynjum, og skoða að lokum hversu oft kvenkenndu orðin koma fram hlutfallslega miðað við þau hefðbundnu/karlkynjuðu á Tímarit.is og hvernig hlutfallið hefur breyst frá því um miðja 19. öld.

 

leikkona 521 leikari 1039
söngkona 366 söngvari 396
listakona 154 listamaður 1699
skáldkona 86 skáld 2270
forstöðukona 86 forstöðumaður 1343
verkakona 74 verkamaður 747
blaðakona 52 blaðamaður 1392
þingkona 45 þingmaður 4820
myndlistarkona 44 myndlistarmaður 345
kennslukona 38 kennari 3987


Tafla 1: Algengustu starfsheiti sem enda á -kona í MÍM. (Skilyrði er að starfsvettvangur sé viðurkenndur og líklegt að skattar séu greiddir og iðgjöld í lífeyrissjóð.)

 

Að ofan má sjá lista yfir algengustu starfsheitin í MÍM. Þau verða skoðuð betur: leikkonasöngkonalistakonaskáldkonamyndlistarkonablaðakonaforstöðukonaverkakona og kennslukona.

 

Þessum starfsstéttum má gróflega skipta í tvo flokka. Þær sem vinna við sköpun, listamenn og blaðamenn, og þær sem eru líklegri til að vinna hefðbundinn átta tíma vinnudag: kennslukonur, verkakonur og forstöðukonur.

 


Smellið á starfsheitin til að fækka/fjölga línum í línuritinu.

 

Forstöðukonurnar og kennslukonurnar eiga það sameiginlegt að starfsheiti þeirra náðu mestri útbreiðslu um miðja 20. öldina en eru mun minna notuð nú. Notkun starfsheitis verkakvenna hefur hins vegar sveiflast meira og vegur þess virðist enn fara vaxandi. Við getum reynt að finna á þessu skýringar. Ef við byrjum á forstöðukonunum hafa starfsheiti þeirra einfaldlega breyst. Þær forstöðukonur sem skrifað var um á 5. áratugnum myndu í dag flestar bera starfsheiti á borð við skólastjóri, leikskólastjóri, deildarstjóri eða framkvæmdastjóri. Aðrar skýringar hljóta að vera á minnkandi vinsældum starfsheitisins kennslukona. Hugsanlega má leiða líkur að því að notkun orðsins hafi aukist þegar konum fór að fjölga í kennarastétt en það hafi síðar orðið liður í kjarabaráttu að allir sem kenna hafi sama starfsheiti. Þó ber að fara varlega hér í að fullyrða nokkuð um ástæður þessara breytinga. Talnagögnin sem byggt er á geta gefið okkur vísbendingu um breytingarnar, en þau geta ekki sagt okkur hvers vegna þær verða.

Í hinum starfsstéttaflokknum, flokki skapandi kvenna, er ástandið annað. Þar hefur vegur kvenkennda starfsheitisins vaxið undanfarna áratugi í öllum tilvikum nema einu. Tíðni orðsins skáldkona sem hlutfall af tíðni orðsins skáld virðist hafa náð jafnvægi um miðja 20. öldina. Það starfsheiti nýtur líka þeirrar sérstöðu að „karlkynjaða“ myndin er í rauninni ekki karlkynjuð, hún er hvorugkynsorð.
 

 

 

Smellið á starfsheitin til að fækka/fjölga línum í línuritinu.

 

Eins og sjá má af línuritinu að ofan eru auknar vinsældir kvenkenndu starfsheitanna undanfarna áratugi greinilegar. Mikill kippur kom í aukninguna á níunda áratugnum. Svo mikill kippur hjá sumum starfsstéttum, þ.e. þeim sem starfa að einhvers konar sköpun, að hægt er að tala um algjöra umpólun (en þó ekki nema maður sé mjög yfirlýsingaglaður).

Talnagögnin geta ekkert frekar sagt okkur hverjar skýringarnar eru á þessu. Þeirra verður að leita annars staðar og þær eru vafalaust margar og margvíslegar. Við vitum að konum í blaðamennsku hefur fjölgað (Hagstofa Íslands, 2015) og líklega á það einnig við um fleiri hópa sem hér hafa verið til skoðunar. Kröfur Kvennalistans á Alþingi hafa hugsanlega haft áhrif á aðrar starfsstéttir, en við sjáum augljósa aukningu í notkun margra kvenkenndra starfsheita á sama tíma og Kvennalistinn kemst inn á þing. Hugmyndir þingkvenna og annarra spruttu líklega úr sama jarðvegi og það þá átt þátt í því að breytingarnar urðu á svipuðum tíma. En í þessum pistli stóð aldrei til að leggja fyrir sig félagsfræði. Hér átti aðeins að telja orð. Skýringarnar á breytingum í orðnotkun er sjálfstætt rannsóknarefni sem aðrir verða að fást við, einhverjir sem rýna í annað en fjölda orða. Ég læt þeim það eftir sem þora, geta og vilja.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

Ásta Svavarsdóttir. 2015. Baráttan um tungumálið: Gleðikonur, gleðimenn og annað fólk. Úr pistlaröð á vef Árnastofnunar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. www.arnastofnun.is/page/asta_svavarsdottir. Sótt: 15. júní 2015.

Eiður Guðnason. 1984. 164. mál, kennsla í Íslandssögu. Ræða á 51. fundi sameinaðs þings. 106. löggjafarþing, 16. febrúar 1984.

Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk orðhlutafræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi. 4. útgáfa. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Hagstofa Íslands. 2015. „Konur aldrei fleiri í hópi blaða- og fréttamanna.“ 16. apríl 2015.

Hjörleifur Guttormsson. 1992. 58. mál: almenn hegningarlög. 3. umræða. 115. löggjafarþing. 12. maí 1992.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. 1983. 11. mál, launamál. Ræða á 24. fundi efri deildar. 106. löggjafarþing, 5. desember 1983.

Þorgerður Þorvaldsdóttir. 2002. „Kynlegar víddir í dómnefndarálitum?“ Er kynbundinn munur á umfjöllun um karl- og kvenumsækjendur í dómnefndarálitum Háskóla Íslands? Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, Reykjavík.