Skip to main content

Pistlar

Klukka

Birtist upphaflega í október 2007.

Orðið klukka kemur fyrir ósamsett sem örnefni og samsett í nokkrum örnefnum. Ósamsett Klukka er nafn á fjalli ofan Þingvalla í Árn., sunnan við Skjaldbreið (Árni Magnússon, 45), einnig nefnt í fleirtölu, Klukkur (Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar, 143). Það er einnig nefnt Klukkutindar. Klukkuhraun er kennt við fjallið og Klukkuskarð er milli Skefilfjalls og Klukkutinda. Annað Klukkuskarð er milli Skjaldbreiðar og Tindaskaga. Þar áttu að hafa verið nefndar Klukkur, síðar Karl og Kerling í skarðinu (Landið þitt Ísland II:260). Önnur Klukka er klettur út í sjó hér um bil miðja vegu milli Flekkuvíkur og Minni-Vatnsleysu í landi Kálfatjarnar á Vatnsleysuströnd. Austur úr Hreggnasa á Gufuskálum í Snæf. gengur undirfell, sem heitir líka KlukkaKlettabelti rétt út af Ausubjörgum í Hvammi í Dýrafirði heitir Klukka. Munnmæli eru um að tvær systur hafi byggt á Kúludalsá í Innri-Akraneshreppi; önnur hafi heitið Lágfóta og byggt við Lágastaðagilið, hin Klukka og byggt bæ sinn, þar sem nú er Kúludalsá; hafi þá fjallið heitið Klukka og dalurinn Klukkudalur.

Klukkutindar. Ljósm. Sveinn P. Jakobsson.

Tveir bæir eru kenndir við klukkur, Klukkufell í Reykhólahr. í A-Barð.sem er kennt viðörnefniðKlukkusem er einkennilegur klettur vestast í Skrautahöfðinu upp af fjárhúsunum og Klukkuland í Mýrahr. í V-Ís. Gömul selstaða var frá Stóra-Kálfalæk á Mýrum, nefnd Klukkusel (Mýra- og Borgarfjarðarsýslur, 158).

Nokkur önnur Klukku-örnefni má nefna, Klukkufjall upp af Mýri í Bárðardal í S-Þing. og Klukkufoss í Litlu-Laxá, á landamerkjum Klufta í Hrun., Árn. Klukkugil er á þremur stöðum: 1) Eitt aðskilur Steinafjall og Staðarfjall í Suðursveit í A-Skaft. Sagnir eru um að papar hafi fleygt klukkum sínum í gilið þegar heiðnir menn komu í landið. 2) Annað er hyldjúpt hamragil milli Mógilshöfða á Landmannaafrétti í Rang. (Landið þitt Ísland II:260). 3) Hið þriðja er framan í Sandfellsheiði í Öræfum. Þar var sagt að byggju tröll. Þau rændu telpum í Sandfelli. Presturinn fór að gilinu með kirkjuklukkur og hringdi ákaflega, og skiluðu skessur þá telpunum (Landið þitt Ísland IV:10). Klukknahellir er austan við Foss á Síðu (Skaftafellssýsla, 185). Klukkugjá er í landi Skálmarbæjar í Álftaveri. Þar fórst ær, sem hét Klukka. Að síðustu má svo nefna örnefnið Klukkuhjallar ofan við Sæból á Ingjaldssandi í V-Ís. þar sem „breitt var á“ til að láta krakka vita að tími væri kominn til að koma heim með ærnar (Árbók Ferðafélags Íslands 1999, 270–271). Klukkusteinn er festarsteinn við Hítará í landi Skiphyls á Mýrum. Þangbrandur á að hafa fest skip sitt við hann. „Hann er grár að utan, en þegar slegið er í hann, syngur í honum eins og klukku.“ (Snæfellsnes, 44). Á Hólum í Hjaltadal eru Klukku-örnefni, líklega Klukkuhóll, og Klukkudalur er lítið landsig í Hjaltadal (Hjalti Pálsson). Klukku-örnefni eru á Þingvöllum, Klukkuhóll í túninu, þar sem Íslandsklukkan stóð brotin um 1724 (Landið þitt Ísland V:189) og Klukkustígur er annaðnafn á Gjábakkastíg. Smáhvilft í landi Öskubrekku í Ketildölum er kölluð er Klukkuhvilft. Þjóðsagan segir að endur fyrir löngu hafi fundist þar klukka.

Árni Magnússon handritasafnari nefndi Klukkudalsheiði í riti sínu Chorographica Islandica og átti við það sem síðar hefur heitið Klúka eða Klúkuheiði í Önundarfirði í V-Ís. (Árni Magnússon, 82; Árbók 1999, 320). Þar virðast hafa orðið einhver víxl myndanna Klúka og Klukka. Klúka merkir ‚hrúga‘ og ekki er fjarri því að fjall sem líkist klukku hafi svipuð einkenni. Því er hugsanlegt að einhver Klukku-örnefnin hafi upphaflega verið Klúku-örnefni. Hitt er eins víst að merkingin hafi stundum verið tengd tímamælingu eins og Klukkuhjallar sýna, enn önnur að í þeim hljómi eins og klukku eða að klukka hafi fundist á þeim stöðum eða í námunda við þau.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 1999. Firðir og fólk 900–1900. Kjartan Ólafsson samdi.
Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar. 1979. Árni Magnússon: Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands. Annar flokkur. I.3. 1955.
Landið þitt Ísland. I–V. 1984–85.
Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar. 2005.
Skaftafellssýsla. Sýslu- og sóknalýsingar. 1997.
Snæfellsnes. Sýslu- og sóknalýsingar. 1970. Örnefnaskrár í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.