Skip to main content

Pistlar

Birtist upphaflega í nóvember 2006.

Bæjarnafnið Keta er þekkt á aðeins tveimur bæjum, báðum í Skagafirði, annar er á Skaga, í Skefilsstaðahreppi, hinn er í Hegranesi, í Rípurhreppi.

Sá fyrri er nefndur í registri Auðunarmáldaga 1318 (DI II:488) og í Skarðsárannál við árið 1518, þar sem sagt er frá bjarndýri sem braut niður alla hjalla á Skaga utan að Ketu (í öðru handriti stendur „Kiötu“) (Annálar I:82) en þar bjó þá maður að nafni Ketill Ingimundarson.

Keta í Hegranesi er nefnd í Mælifellsannál við árið 1716 (Annálar I:616) en í Setbergsannál er bærinn nefndur Kjóla (í handriti „kiola“) við árið 1577 og sagður hafa brunnið það ár nær allur (Annálar III:68). Nafnmyndin gæti verið mislestur á myndinni Kiöta.

Merking orðsins keta var á 17. öld 'þröngur, hömrum girtur staður' (á latínu: Locus angustus saxis circumseptus) (Orðabók Guðmundar Andréssonar, Lexicon islandicum, 1683, Ný útgáfa 1999:96). Skv. orðabók Björns Halldórssonar var keta sömu merkingar og kota, sem þýða má sem ‘herbergiskytra eða krókur eða skot í húsi (á dönsku: en liden Afdeling eller Krog i et Hus) (Orðabók, Íslensk – latnesk – dönsk 1814, Ný útgáfa 1992:277).

Í Ketu á Skaga er vík sem heitir Keta og er hún lendingin, þröngur klettabás suður og niður frá bænum (Hjalti Pálsson I:69 mynd). Hjalti Pálsson segir að líkur hafi verið leiddar að því að nafnið hafi verið dregið af ketta = tröllkona, en stór drangur framan við Ketubjörgin er nefndur Kerling (Margeir Jónsson, Torskilin bæjanöfn I:44–47, Hjalti Pálsson I:66). Í Ketu í Hegranesi eru engin kennileiti sem benda til merkingar nafnsins nema að þar er mjög klettótt (Margeir Jónsson I:47).

Ásgeir Blöndal Magnússon telur uppruna nafnsins Ketu óljósan og e.t.v. sé orðið tökuorð í íslensku. Í sænskum og dönskum mállýskum eru orð sem minna á orðið keta, kætte og kjette, sem merkja nánast ‘kálfagerði’ eða ‘svínastía’, og talin vera komin úr miðhollensku kete ‘kofi, fjallabyrgi’ (Íslensk orðsifjabók, bls. 457). Hann nefnir einnig nýnorska orðið kjete í merkingunni ‘laxakista’ og Margeir Jónsson telur þá skýringu sennilegasta í viðbót í riti sínu Bæjanöfn á Norðurlandi (III:57). Nafnmyndin Kjöta hefur verið til við hlið Ketu, e.t.v. fyrir áhrif frá orðinu kjöt/ket. Líklegt er að merkingin sé í ætt við ‘skot’ eða ‘krók’ eða ‘(laxa)kistu’ og víkin við Ketu á Skaga sé þannig tilefni bæjarnafnsins þar.
 

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Annálar 1400–1800. I–VIII. 1922–2002.
Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðasifjabók, 1989.
Björn Halldórsson, Orðabók. Íslensk – latnesk – dönsk. 1814/1992.
Guðmundur Andrésson, Lexicon islandicum, 1683/1999.
Hjalti Pálsson frá Hofi, Byggðasaga Skagafjarðar I. 1999.
Margeir Jónsson, Keta á Skaga. Torskilin bæjarnöfn í Skagafjarðarsýslu. I. 1921.
Margeir Jónsson, Bæjanöfn á Norðurlandi. Rannsókn og leiðrjettingar. III. 1929.