Skip to main content

Keta

Birtist upphaflega í nóvember 2006.

Bæjarnafnið Keta er þekkt á aðeins tveimur bæjum, báðum í Skagafirði, annar er á Skaga, í Skefilsstaðahreppi, hinn er í Hegranesi, í Rípurhreppi.

Sá fyrri er nefndur í registri Auðunarmáldaga 1318 (DI II:488) og í Skarðsárannál við árið 1518, þar sem sagt er frá bjarndýri sem braut niður alla hjalla á Skaga utan að Ketu (í öðru handriti stendur „Kiötu“) (Annálar I:82) en þar bjó þá maður að nafni Ketill Ingimundarson.

Keta í Hegranesi er nefnd í Mælifellsannál við árið 1716 (Annálar I:616) en í Setbergsannál er bærinn nefndur Kjóla (í handriti „kiola“) við árið 1577 og sagður hafa brunnið það ár nær allur (Annálar III:68). Nafnmyndin gæti verið mislestur á myndinni Kiöta.

Merking orðsins keta var á 17. öld 'þröngur, hömrum girtur staður' (á latínu: Locus angustus saxis circumseptus) (Orðabók Guðmundar Andréssonar, Lexicon islandicum, 1683, Ný útgáfa 1999:96). Skv. orðabók Björns Halldórssonar var keta sömu merkingar og kota, sem þýða má sem ‘herbergiskytra eða krókur eða skot í húsi (á dönsku: en liden Afdeling eller Krog i et Hus) (Orðabók, Íslensk – latnesk – dönsk 1814, Ný útgáfa 1992:277).

Í Ketu á Skaga er vík sem heitir Keta og er hún lendingin, þröngur klettabás suður og niður frá bænum (Hjalti Pálsson I:69 mynd). Hjalti Pálsson segir að líkur hafi verið leiddar að því að nafnið hafi verið dregið af ketta = tröllkona, en stór drangur framan við Ketubjörgin er nefndur Kerling (Margeir Jónsson, Torskilin bæjanöfn I:44–47, Hjalti Pálsson I:66). Í Ketu í Hegranesi eru engin kennileiti sem benda til merkingar nafnsins nema að þar er mjög klettótt (Margeir Jónsson I:47).

Ásgeir Blöndal Magnússon telur uppruna nafnsins Ketu óljósan og e.t.v. sé orðið tökuorð í íslensku. Í sænskum og dönskum mállýskum eru orð sem minna á orðið keta, kætte og kjette, sem merkja nánast ‘kálfagerði’ eða ‘svínastía’, og talin vera komin úr miðhollensku kete ‘kofi, fjallabyrgi’ (Íslensk orðsifjabók, bls. 457). Hann nefnir einnig nýnorska orðið kjete í merkingunni ‘laxakista’ og Margeir Jónsson telur þá skýringu sennilegasta í viðbót í riti sínu Bæjanöfn á Norðurlandi (III:57). Nafnmyndin Kjöta hefur verið til við hlið Ketu, e.t.v. fyrir áhrif frá orðinu kjöt/ket. Líklegt er að merkingin sé í ætt við ‘skot’ eða ‘krók’ eða ‘(laxa)kistu’ og víkin við Ketu á Skaga sé þannig tilefni bæjarnafnsins þar.
 

Birt þann 20.06.2018
Heimildir

Annálar 1400–1800. I–VIII. 1922–2002.
Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðasifjabók, 1989.
Björn Halldórsson, Orðabók. Íslensk – latnesk – dönsk. 1814/1992.
Guðmundur Andrésson, Lexicon islandicum, 1683/1999.
Hjalti Pálsson frá Hofi, Byggðasaga Skagafjarðar I. 1999.
Margeir Jónsson, Keta á Skaga. Torskilin bæjarnöfn í Skagafjarðarsýslu. I. 1921.
Margeir Jónsson, Bæjanöfn á Norðurlandi. Rannsókn og leiðrjettingar. III. 1929.