Skip to main content

Pistlar

Kaupbréf fyrir Reykjavík 1615

Árið 1615 seldi Guðrún Magnúsdóttir jörðina Reykjavík á Seltjarnarnesi, en hún var ekkja eftir Narfa Ormsson lögréttumann. Með samþykki sona sinna seldi sú fróma dándikvinna 50 hundruð í Reykjavík með sinni kirkjueign, en áður hafði konungur eignast 10 hundruð í Reykjavík, sem var 60 hundraða jörð. Kaupandi var Herluf Daa höfuðsmaður fyrir hönd konungs. Guðrún fékk í mót Laugarvatn í Grímsnesi, Bakka á Kjalarnesi og Kiðafell í Kjós.

Kaupbréf fyrir Reykjavík 1615. Kaupsamningurinn var skrifaður á skinn á Bessastöðum sjötta dag júlímánaðar árið 1615. Fimm vottar eru nefndir, sem sagðir eru hafa sett sínar handskriftir undir bréfið. Þetta á trúlega við annað eintak af kaupsamningnum, því að undir þessu bréfi eru ekki undirskriftir, heldur hafa þrír menn staðfest það með hangandi innsiglum. Annað varðveittu innsiglanna er með fangamarkinu L. R., og einn vottanna er nefndur Laures Rasmusson; það mun vera Lauritz Rasmussen umboðsmaður konungs.

Samkvæmt fyrirliggjandi heimildum hafði Narfi Ormsson fengið stærstan hluta Reykjavíkur í arf eftir föður sinn, Orm Jónsson lögréttumann og sýslumann.

Þegar verslunareinokun komst á árið 1602 varð Hólmskaupstaður (við Reykjavík) verslunarmiðstöð stórs svæðis við innanverðan Faxaflóa og því var eðlilegt að konungsvaldið hefði áhuga á að eignast Reykjavík eða ítök þar. Lauritz Krus, höfuðsmaður á Bessastöðum um 1590, sótti fast að eignast Reykjavík en í óþökk Narfa sem varð þó að láta undan. Heimildir segja, að hann hafi grátandi selt 10 hundruð úr landi Reykjavíkur, enda hótað með gapastokki, ef hann neitaði. Sennilegt er að Guðrún hafi búið um tíma í Reykjavík eftir lát hans en ekki er vitað hvenær hann dó.

Þessi samningur er í sjálfu sér aðeins einn af mörgum af sama tagi, en hann er samt skemmtilegur vegna innihaldsins. Þarna hafa óvenju margir staðir, sem koma við sögu, skipt um hlutverk, eins og Bessastaðir, sem hýsti þá danskan höfuðsmann en er nú forsetasetur, og Laugarvatn sem síðar varð skólasetur, auk höfuðborgarinnar Reykjavíkur.

Með Jónsbók 1281 var það fyrst sett í lög á Íslandi að gera skyldi skriflega samninga um öll meiri háttar kaup og votta bréf með innsiglum. Þúsundir slíkra bréfa eru varðveitt, sum í frumriti og önnur í uppskriftum. Flest bréfanna eru um jarðakaup, en önnur t.a.m. um landamerki, kaupmála hjóna, ættleiðingu og erfðir, og sum eru dómar. Um 1600 var farið að tíðkast að eiginhandarundirskriftir kæmu í stað innsigla.

Stærsta safn fornbréfa var í safni Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, en hluti af því var afhentur Þjóðskjalasafni Íslands árið 1928; það voru bréf og skjalabækur sem Árni hafði fengið að láni úr skjalasöfnum biskupsstólanna og frá Bessastöðum. Að öðru leyti eru íslensk skjalagögn í Árnasafni nú öll í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík, 1345 frumbréf og 5942 fornbréfauppskriftir, sem Árni lét gera af stakri nákvæmni, og auk þess fjöldi bréfauppskrifta í bréfabókum Brynjólfs Sveinssonar biskups og fleiri manna.

Enginn veit hversu mörg fornbréf eru varðveitt, en það eru varðveitt um 1500 bréf fram til ársins 1540 sem eru í frumriti, en að auki er mikill fjöldi uppskrifta í bréfabókum, máldagabókum og öðrum handritum. Heita má að öll varðveitt bréf, gerð fram til 1570, séu prentuð í Íslensku fornbréfasafni (Diplomatarium Islandicum), sem er heildarútgáfa á íslenskum fornbréfum og skjölum frá elstu tímum fram til ársins 1570, en mikill fjöldi yngri bréfa hefur ekki enn verið prentaður. Í þeim er ómetanlegur fróðleikur um persónusögu, jarðeignir, örnefni og margt fleira. Meðal þessara óprentuðu bréfa er kaupbréfið um Reykjavík, sem hér er sýnt. Það kom aftur til Íslands frá Kaupmannahöfn í mars árið 1997.

Bréfið er nú til sýnis á landnámssýningu Borgarsögusafns Reykjavíkur, Aðalstræti 16, ásamt nokkrum handritum frá Árnastofnun. Á laugardögum og sunnudögum í sumar verður leiðsögn á ensku um sýninguna kl. 11 og kl. 14.

Birt þann 1. maí 2016
Síðast breytt 24. október 2023